Og ég sem hélt...........
.....að ég myndi aldrei vatna músum yfir heimildarmynd. Ég þurfti að éta þau orð ofaní mig í gær, svo og ummæli sem ég hef látið falla um áðurnefnda heimildarmynd, 9/11 Farenheit. Ég ætla samt að standa við það að öll atriðin með feitu konunni frá Flint sem missti son sinn í Írak hafi verið alltof yfirdrifin og í ofaukið í myndinni. Hvern langar að horfa uppá móður gráta son sinn eftir að hafa séð limlest börn (limlest af völdum sonarinns??) liggja í blóði sínu á götum Bagdad?
Með tárin í augunum gekk ég útúr Laugarásbíó staðráðin í því að leggja mitt að mörkum til að gera heiminn betri. Krossferðin mín gegn ranglæti byrjaði (og endaði) heima í stofu. Þar hóf ég upp raust mína og reyndi að snúa stjórendum Breiðholtsútibús Repúblikaflokksins (foreldrum mínum og bróður) til betri vegar. Pabbi skellti rökunum mínum flötum í gólfið með hælkrók og kvað: æi, Hafdís, þú hefur alltaf verið svo helvíti ginkeypt fyrir áróðri. Síðan var hækkað í sjónvarpinu og horft á Ólympíukvöld á RÚV. Ég gat svo sem vitað það að krossferðin gegn heimilsifólkinu væri fyrirfram töpuð orusta en ég er svo fáránlega bjartsýn þessa daga að ég trúi því í alvöru að mér séu allir vegir færir. Ég er búin að uppdeita pennaveskið mitt með nýjum og fínum pennum sem bíða eftir að hljóta sömu örlög og forverar þeirra og verða nagaðir til bana, ég er komin í nammi, reyk, áfengis og lífsnautnabindindi. Ég ætla að vera GEÐVEIKT dugleg í skólanum og læra alltaf heima, ég er búin að taka til í herberginu mínu, ég ætla að vera rosadugleg að synda og svo framvegis og framvegis. Ég spái því samt að öll þessi fögru fyrirheit brotni í spað áður en september er á enda runninn. Afhverju er maður alltaf svona áheitaglaður í byrjun skólaárs???
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim