Af lopapeysum,
Á morgun hefst minn akademíski námsferill fyrir alvöru. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að gráta eða hlægja yfir því þannig að ég ætla að gera hvorugt. Ég verð samt að viðurkenna að það kemur óneitanlega niður á sjálfsálitinu að vera lítið nýstúdentagrey sem ekkert veit. Stoltið mitt þolir hreinlega ekki að vafra um háskólasvæðið með kort í hendinni og þurfa sífellt að vera að spurja til vegar. Árnagarður, gamli garður, garðagarður..............hvernig í fjandanum á borinn og barnfæddur breiðhyltingur að vera með þetta á hreinu? Ég verð sem sé að kyngja stoltinu, taka upp kortið og halda áfram að spyrja til vegar og láta hía á mig fyrir vikið.
Samt sem áður virkar háskólinn bara ágætlega á mig. Fór á kynningarfund heimspekideildar á föstudaginn sem var voða kósí. Sérstaklega fílaði ég Pál Skúlason rektor í botn þegar hann sagði að stór partur af náminu í heimspekideild færi fram á kaffihúsum borgarinnar. Ég hef ákveðið nú þegar að vera dugleg að tileinka mér það viðhorf. Eftir deildarfundinn fórum við á skorafundi. Ég var að sjálfsögðu búin að gera mér í hugarlund hvurslags fólk væri í sagnfræðinni. Fullt af pólitíkst rétthugsandi fólki í lopapeysum, hermannajökkum og che guevera bolum.
Mér til mikillar furðu reyndist þetta vera kórréttar getgátur hjá mér. Fyrir utan tvær versló gellur sem slysuðust í þetta fag og tvo gaura í íþróttafötum eru bókstaflega allir í lopapeysum. Eftir heilan vetur með þessu liði verð ég áreiðanlega búin að breytast í sauðkind.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim