Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

miðvikudagur, október 08, 2008

Súkkulaði

Það eina sem þjónustufulltrúi Landsbankans gat boðið mér þegar ég vildi athuga stöðuna á sparnaðnum mínum voru súkkulaðimolar í álpappír. Það finnst mér heldur rýr ávöxtun, sérstaklega ef höfuðstólinn er mögulega ekki til lengur. Til að undirstrika fullkomið getuleysi sitt var ekki einu sinni kveikt á sjánum á tölvunni hennar, sama gilti um þjónustufulltrúann á næsta bás. Ég sá aðeins einn þjónustufulltrúa vera að "vinna" niðrí útibúinu í Aðalstræti, hann var að tala í símann. Restin sat með hendur í skauti. Mér skildist sem svo að flest öll bankastarfsemi eða viðskipti sem fara fram í gegnum þjónustufulltrúa séu við frostmark í augnablikinu.

Þegar ég strunsaði niður tröppurnar og japplaði á því eina áþeifanlega sem eftir var/var ekki af sparnaðnum mínum sátu fyrir mér þýskir fréttamenn sem voru að veiða örvæntingafulla Íslendinga í viðtal. Ég var gripin og gáttirnar til vítis opnuðust þegar ég úthúðaði ástandinu og þá sem ég teldi vera ábyrga fyrir því. Að sjálfsögðu gerði ég það á minn yfirvegaða hátt og án allrar geðshræringar. Ég var samt heldur bölsýnni en ég er venjulega, auk þess sem ég hagfræðiþekking mín nær litlu dýpra en moggabloggið, þannig að ég var etv engin mannvistsbrekka í viðtalinu. Ef þið rekist á þetta viðtalsbrot einhverstaðar, íguðannabænum blörrið mig út í huganum.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim