Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

þriðjudagur, september 14, 2004

Ég þori ekki að fletta.......!

Ég þori ekki að fletta yfir á næstu síðu í íslandssögubókinni minni því þá verður Jón Arason biskup hálshöggvinn. Ég er búin að sökkva mér oní deilur lúþerska og kaþólskra á íslandi á 16.öld og er algerlega á bandi kaþólskra. Kannski er það bara minn prívat þvermóðskuháttur að halda alltaf með þeim fer sem halloka en mér finnst í alvörunni lúþeristar hafa sýnt mjög svo and-kristilegan hugsunarhátt í því að koma siðbót/breyting/afturför/wottever á á íslandi sem og annarstaðar í Evrópu og stend með kaþólskum. Þegar komið var að leiðarlokum hjá mínum mönnum, hinum íslenzku kaþólikkum ákvað ég að taka mér pásu og blogga. Ég á samt örugglega eftir að fletta mjög græðgislega yfir á opnuna sem Jón Arason missir hausinn eftir að þessari færslu líkur því samkvæmt því sem samstúdentar mínir segja er þar mjög djúsí lýsing á aftökunni sjálfri. (vissu þið að það þurfti 15 högg á hann þar til að hausinn datt af? Kaþólikkar sögðu að það væri vegna þess að guð hefði velþókknun á honum og vildi fyrir alla muni halda hausnum á búknum, en fyrir mér er þetta sönnun á því að guð er ekki til og böðullin var með illa brýnda exi)
En burtséð frá Jóni Arasyni og hausnum hans gengur lífið sinn vanagang (ojjj, hvað þetta er innilega litlaus setning) Þarf að vísu á öllu mínu siðferðisþreki að halda þessa daganna til að geta vanið mig við að þurfa að eyða 2-3 klukkutímum á dag í lestur. Ég hef hingað til tamið mér frekar afslappað viðhorf til náms (lesist, leti) en ég verð að gangast undir gagngera hugarfarsbreytingu hið fyrsta ef ég ætla mér að ná prófunum í vor. Enda er ekkert eðlilegt að þurfa að lesa 150-200 bls. fyrir hvern einasta tíma. Og það í bókum sem sumar hverjar eru skrifaðar á svo uppskrúfaðri og leiðinlegri ensku að Gummi Valur gæti vart lesið þær.

ég er búin að blogga um skólan og námið, ég á mér ekkert líf, EKKERT

Að lokum ætla ég að skjóta hérna inn drykkjuvísum sem Árni Magnússon handritasafnari og Páll Vídalín, síðar biskup ortu á fylleríi í kaupmannahöfn veturinn 1686. Hér ræða þeir meðal annars um afmeyjanir stúlkna

árni:
Skylt er víst að skýri jeg
skötnum satt frá Páli
hann hefur orðið margri mjeg
meyjunni að táli

Páll svarar:
Árni satt ég anza vil
eigi þó hann klægi
sá veit hvernig baugabil
blæðir stunginn mægi.

....Blæðir stunginn magi, þetta er eitt það viðurstyggilegasta orðalag sem ég hef heyrt! og gaurinn varð síðar biskup!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim