Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

mánudagur, júní 02, 2008

Það vex þari í hausnum á mér

Allavega er ég búin að gera sömu mistökinn allavega þrisvar sinnum í morgun og ef mér hefði ekki verið bjargað fyrir horn hefði ég gert þau aftur á morgun. Það var viðeigandi að kenna þaravexti um því í gær át ég fáránlega mikið af sjávarfangi, enda sjómannadagur og Miðbakkinn var fullur af smá smakki auk þess sem Sæbaóninn bauð uppá billega sjávarrétti. Ég neitaði að taka þátt í þessu Hátíðhafsins rugli. Fyrsti sunnudagur í júní er sjómannadagurinn og hananú! Ekkert nýjaldar nafn til að laða að kynslóð sem fynnur ekki samkend við sjómannakúltúrnum fær mig til að hnika í þeirri afstöðu. Ég var búin að melda mig við Unni en var næstum búin að hætta við þegar hún sagðist vera að fara á hátíð hafsins. Mér tókst þó að sannfæra hana með þumalskrúfu og léttu hálstaki.

Síðan hringdi Bretinn í mig og bað mig um að kenna sér að elda hvalkjöt sem hann keypti í Kolaportinu. Hann fór þangað deginum áður og leitaði ljósum logum af Hval, en skildi ekkert í afhverju honum var alltaf boðin hrefna þegar hann spurði um hval. Hélt að hrefna væri eitthvað málfræðilega skylt orðinu "hross" og hélt samstundis að óprúttnir Íslendingar væru að pretta saklausa útlendinginn og afþakkaði pent hrefnukjötið. Þegar heim kom sagði orðabókin honum hversu mikið fífl hann hefði verið þannig að hann hundskaðist aftur niður í Kolaport og keypti hrefnu.

Síðan þurfti að elda hærlegheitin. Bretinn leitaði uppskriftum og marineraði samkvæmt gúgúl, bauð öllu ofpólitískt rétthugsandi sambýlingum sínum í mat og svo var kallað í mig. Þegar á hólminn var komin uppdagaðist að ekki var nein loftræsting í eldhúsinu og svo var ekki til nein svunta sem er forsenda þess að geta steikt uppúr sjóðandi olíu. Þá var gripið á það ráð hjúpa mig fjólubláu hörteppi úr íkea. Ég hefi sjaldan verið eins vígaleg þegar ég stóð í olíureyknum hjúpuð í fjólublátt og sagði útlendingunum að steikja sitt kjet sjálfir ef þeir vildu það vell dön. Ég steikti mitt sko blóðugt og þannig ætti það að vera. Tilhugsuninn um að læsa tönnunm í blóðugan Keikó var of mikið fyrir suma sem afboðuðu sig hið snarasta. Sumir skoruðu PC hugsunarháttinn á hólm og létu slag standa. Húrra fyrir þeim.

Kjötið var afbragð. Um kvöldið sá ég Beðmál í borginni í fullri lengd og ég hef ekkert sérstakt um það að segja.

Bráðum kemur uppáhalds Norðmaðurinn minn til landsins og ég tel niður nanósekónturnar.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim