Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

sunnudagur, maí 18, 2008

Kindarlegt



Síðustu helgi fór ég í sveitina. Kindurnar biðja ærlega kærlega að heilsa ykkur öllum (hohohoho)
Þegar við komum norður voru góð ráð dýr. Mörkin höfðu nefnilega tafist í pósti og voru að berast, en sauðburðurinn var löngu hafinn. Sem þýðir að tugir lamba sprikluðu um túnið ómerkt með öllu. Móðurtilfinningin hjá rollunum er ekki meiri en sú að þær eru í stökustu vandræðum með að greina sín afkvæmi frá öðrum og geta hæglega gleymt tilveru þeirra ef lamb og ær eru aðskilin svo sem eins og einn sólahring. Þessvegna er bráðanauðsynlegt að gata eyrun á greyjunum sem allra fyrst svo hægt sé að para saman rétt lamb pr. rollu.
Eitthvað var farið að hristast upp í hjörðinni þegar mörkin bárust í hús og hálfgert kindakaos í sumum girðingunum. Einmana lamb sem jarmaði inní fjárhúsi var í snarhasti parað saman við lamlausa á inní girðingu. Rollan vildi kannski kannast við lambið í korter en var síðan búin að króa það af útí horni og farin að stanga það. Þá varð að hafa snör handtök, vippa sér inní girðinguna, bjarga lambinu, og reyna aftur að finna lamblausa á sem mögulega vildi taka það að sér. Þrátt fyrir að vera ofsa loðin og sæt eru lömbin galtóm í hausnum og álíta að allt sé móðir sín svo framarlega sem það standi í innan við meters radíus við þau í meira en hálfa mínótu, lítil hjálp í þeim.

Svona gekk þetta koll af kolli þar til að fjárgleggstu menn lögðu blessun sína yfir stóðið og töldu að rétt lamb væri undir hverri á. Þá tók við að elta blessuð lömbin uppi enn eina ferðina til að pota markinu í eyrun á þeim. Einnig þarf að marka þau uppá gamla mátann, þ.e klippa stykki úr eyrunum á þeim og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það vekur mikla lukku hjá ungviðinu.

Sauðburðurinn hefur þó gengið stórslysalaust fyri sig so far. Að vísu dóu tvær rollur frá afkvæmum sínum með stuttu millibili þannig að það voru tveir móðurleysingjar á svæðinu sem þurfti að finna stað í tilverunni. Annar móðurleysingin, gimburin Jósefína var búin að vera fjarri samfélagi kinda það lengi að hún vildi ekkert kannast við að tilheyra tegund sinni og leit á sjálfan sig sem hund. Sjálfsmynd dýra sem alast ekki upp hjá eigin tegund á það til að klofna. Þá taka húsdýrin með brotnu sjálfsmyndina yfirleitt upp identity frá öðrum húsdýrum, oftar en ekki hundum. Ég man eftir gæsaunga sem ólst upp á bænum fyrir nokkrum árum sem var sannfærð um að hún væri hundur. Hún gerði meira að segja klaufalegar tilraunir til að smala með hundunum. Sjáfsmyndaruglingurinn hjá gæsinni gerði það að verkum að henni datt t.d aldrei í hug að fljúga, þrátt fyrir að ótkutin ég (11 ára) hafi ítrekað kastað henni ofan af bagga til fá hana til að fljúga. Seinna meir lærði hún þó að fljúga og þá lét hún vera sitt fyrsta verk að fljúga mig niður. Síðan elti hún hundana á röndum og beit þá. Síðan lenti hún í slysi. Ég frétti seinna meir að hún hefði verið góð undir tönn.
Ég þakka þó mínum sæla fyrir það að hundarnir fóru aldrei að halda að þeir væru gæsir. Ég hef heldur aldrei séð t.d kött eða hund ruglast á tegundum, þannig að ég dreg þá ályktun að kettir og hundar hafi sterkari sjálfsmynd heldur en önnur húsdýr t.d kindur, gæsir og endur.



Nú mætti gjarnan spyrja, hvað sjáum við á myndinni að ofan? Eðlilegast væri að segja að þarna væri ég ásamt hundi og lambi, en úr því að lambið álítur sig hund, væri þá ekki hægt að segja að það væru tveir hundar á myndinni? Snýst þetta ekki allt um að samfélagið samþykki þá sjálfsmynd sem einstaklingurinn samsvarar sig með? Ef svo er, þá er ekki úr vegi að fullyrða að á myndinni að ofan sé ég ásamt tveimur hundum.


Hundur eður ei... móðurleysingjum þarf að brynna

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Svo sannarlega krúttlegar myndir!

4:05 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Fyrir þá sem ældu yfir sig af þessum dúllukrútt myndum má benda á mynd af eineygðu lambi sem fæddist á Tjörnesi sjá:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/20/eineygt_lamb_a_tjornesi/

Kýglópalamb. Hálf kríbí eitthvað.

3:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

dásamlegar lýsingar af sveitalífinu :)

8:07 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim