Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

mánudagur, maí 05, 2008

Bókasafnstíðindi.

Í gær breyttist mitt heittelskaða bókasafn í helvíti á jörð. Hingað til hef ég talið það stjórnlausa lukku að fá að vinna á bókasafni. Afgreiða bækur í ró og næði, raða upp titlum og fynna stöðugt nýtt lesefni til að glugga í. Lesa svo upp valda kafla fyrir samstarfsfólk mitt og flissa. Allt á lágtsemdu nótunum samt, því það má ekki tala á bókasöfnum. Ég vinn um helgar, þannig að oftar en ekki er ég létt þunn, á bömmer, með helgarfiðring eða nýt þess einfaldlega að eiga frítíma á launum fjarri heimili, skóla og miðbæ.

Í gær snérist paradísin uppí andhverfu sína. Ég vann á neðstuhæðinni sem deilir inngangi með náttúrufræðistofu Kópavogs. Í andyrinu var vídjólistaverk af svamlandi flóðhestum við undirleik strengjasveitar og furðulegrar raftónlistar. Þetta var síðan á loop í fjóra tíma. Flóðhestarnir voru svo sem ágætir þar sem þeir veltu sér uppúr drullu og geispuðu en undirleikurinn var einskonar Jean Michel Jarre gone wrong. Eftir 2 tíma var ég búin að fá yfir mig nóg, eftir 3 tíma var mig virkilega farið að langa að myrða einhvern og eftir 4 tíma hljóp ég á brott með tárin í augunum og beint undir sæng. Mig sveið í heilabörkinn marga klukkutíma á eftir.

Annars uppgötvaði ég það um helgina að ferill minn sem II.flokks bókavörður (ófaglærðir eru II.flokks á launaseðli) er ekki eins flekklaus og ég hélt. Ég hefi nefnilega gert mig seka um að mismuna fólki eftir kyni þegar ég vinn í barnadeild. Með öðrum orðum, þá mismuna ég foreldrum eftir kyni.

Sem bókavörður í barnadeild fæ ég oft fyrispurnir frá foreldrum varðandi lesefni barna þeirra. Ævintýri, myndabækur, léttlesið efni, vinsælar bækur, einfaldar bækur á öðrum tungumálum, vísur, unglingabækur, you name it.

Lesefnislega hef ég staðið mig eins og hetja. Ég sneiði framhjá öllum bókum um bleikar prinsessur sem fara í gegnum hrikalegt útlitlegt make-over til þess eins að eignast prinsa og Enyd Blyton hefur fengið að rykfalla uppí hillu meðan ég fæ einhverju ráðið. Einu sinni kom til mín faðir með unga dóttur sína sem hafði mikinn áhuga á dýrum. Hann spurði hvort að ég gæti ekki sýnt henni einhverjar dýrabækur, helst um kettlinga eða svoleiðis. Ég fór með þeirri stuttu á stjá og við plægðum í gegnum dýrabækurnar. Eftir að hafa skoðað alla kosti vandlega valdi hún sér stóra myndabók um risaeðlur og aðra um fiska. Ha! hváði pabbinn þegar sú stutta hafði valið sér bókakost. Voru ekki til neinar bækur um kettlinga?? Ég hló inní mér.

Hinsvegar kem ég fram við foreldra á mismunandi hátt eftir kyni. Ef ábyrgur faðir kemur með börnum sínum á afgreiðsluna og biður um lestrarbækur fyrir dóttur sína í
2.bekk stend ég upp og sýni honum bókakostinn. Sjáðu, bækurnar eru merktar á kilinum eftir getustigi, gulur, rauður og blár. Bláu bækurnar eru hér, gulu í hillunni þarna og þær rauðu til hægri við þær. Sé pabbin að leita af einhverju skemmtilegu eftir Guðrúnu Helgadóttur sýni ég honum allan rekkan og tek fram að seríurnar séu númeramerktar.

Komi aftur á móti móðir á safnið með son sinn (og hér þarf ég ekki að skrifa "ábyrg" því mæður eiga auðvitað að vera ábyrgar, það er í eðli þeirra)og biður samskonar bónar bendi ég henni bara á bókakostinn. Það eru leiðbeiningar allt um safnið um merkingar og ég geri ráð fyrir að móðirinn kunni þetta bara eða sé fær um að lesa úr umhverfinu hvernig er best að bjarga sér. Viti hvernig lesefni hæfir hverjum hóp og þurfi ekki aðstoðar við. Sé útlærð í barnauppeldi og þ.a.l viti allt um barnabækur. Eitthvað sem ábyrgi pabbinn viti ekki og þurfi því leiðsagnar við. Ég sturlaðist af bræði útí sjálfa mig þegar ég komst að þessu. Nú fer ég milliveginn og álýt að foreldrar séu kynlausir.

Annars segir pabbi að þjónustuferlinu sé öfugt farið í raftækjaverslunum. Ég trúi honum alveg.

5 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Þarna misstir þú af Pun-möguleikanum; Jean Michel Jarring.

Hver veit hve lengi veröldin bíði með að bjóða aftur upp á aðstæður sem leyfa þennan orðaleik. Synd.

12:27 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Æ,æ enn ein gæsin kúl pönslæna flogin mér úr greipum.
Annars held ég að þetta pun geti boðist aftur innan tíðar. Ég er svo illa að mér í ákveðinni tegund tónlistar að J.M.J er ákveðið landmark sem ég vísa oft í.
Þú mátt samt eiga pun-ið, væri rangt af mér að nota það hér eftir.
Annars átti ég frekar von á kommenti um flóðhesta frá þér. (frekar en femínisma hins daglega lífs, hjálpi mér!)
HH

11:13 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Nú er náttúrulega borðleggjandi að dúndra út skemmtilegu viðbrigði við klassískan karlrembubrandara, og segja að feministar séu einmitt iðulega flóðhestar. (Í yfirfærðri merkingu, sjáiði til).

Annars var þetta mjög skammarlegt af þér og villa sem ég held ég hefði ekki vaðið sjálfur, því í mínum heimi kann enginn inná bókasöfn, né fara þangað yfirleitt, hafi þeir wikipediu-aðgang.

1:43 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Pabbi þinn hefur rangt fyrir sér. Ég fæ oft sérdeilis lélega þjónustu í raftækjabúðum því afgreiðslufólkið reiknar með ég viti ekkert um raftæki. Nema í Miðbæjarradíói, þar fá allir góða þjónustu!

11:47 f.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þú vinnur á sama stað og mamma, en hún er einmitt að vinna á Náttúrufræðistofu Kópavogs.

9:50 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim