Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

sunnudagur, apríl 27, 2008

Kreppa?

Ég hefi lent í því æ oftar uppá síðkastið að matur sem ég panta mér á veitingahúsum er ekki til. Þ.e.a.s að eitthvað hráefni sé búið þannig að rétturinn falli um sjálfan sig. Ekkert pestó á kofanum, engin lúða á kaffi París, engin piparostur á Vegamótum, ekkert loft á prikinu og ekkert líf á Hressó. Annað hvort eru innkaupastjórar í Reykjavík vanhæfir í starfi eða þá að kreppan er alvarlega farin að herða að. Nú er lúxusfólkið sem étur á veitingahúsum á uppsprengdu verði farið að líða fyrir lóðrétt fall krónunar. Herregud.
Annars neita ég að taka þátt í kreppuhjali. Ég keypti mér hræ billegt hjól um daginn og spara mér nú töluverðan eldsneytiskostnað með því að hafa tvo bíllausa daga í viku. Samkvæmt slumpureikningum greiði ég því 123 krónur fyrir líterinn í mestalagi ef hjólasparnaðurinn er reikanður með. Ekki þarf ég að loka neinum akreinum.
Til að sýna andstöðu mína við þessari kreppuvitleysu kjaftaði ég niður gengi krónunar á öllum helstu börum bæjarins um helgina.

Annars er ég í afskaplega blíðu skapi í dag, líklega vegna þess að ég át yfir mig í gær. Ættgarðurinn að austan var pa besög og þá er alltaf borðað vel, lengi og oft. Kvennleggurinn gerði sér bæjarferð í gær til að stela prjónauppskriftum og sniðum af rándýrri íslenskri hönnun. Sem betur fer var móðirsystir mín ekki með í för í þetta skiptið, en hún er einn svæsnasti steliþjófur sem ég þekki. Síðast þegar við fórum í bæinn saman gerðum við okkur ferð inní einhverja búðina sem selur íslenska hönnun og ég var látin máta nær allan lagerinn á meðan móðir og móðirsystur töldu lykjur og úrfellingar utan á mér og lögðu mynstur á minnið. Á bak við búðarborðið var svo hönnuðurinn sjálfur, súr á svip enda var verið að brjóta eigin höfundarrétt fyrir framan nefið á henni. En nú á ég líka sallafína lopapeysu, lopakjól og önnur peysa á leiðinni. Þegar búðin fór svo á hausinn skömmu seinna gat ekki annað en leitt hugan að því hvort að konur eins og móðursystir hefðu átt óbeinan hlut að máli.

Í gær fórum við á einhverja sýningu á íslenskri fatahönnun. Ættgarðurinn var nú ekkert yfir sig hrifinn, en niðurstaðan varð samt sú að þær gætu sko alveg gert þetta allt sjálfar ef þær nenntu. Hápunktur sýningarinnar var þegar þær spottuðu sjálfa Rannveigu Rist í krátinu. Þær dáðust að henni úr fjarlægð og mærðu hana langleiðina frá Hafnarhúsi að kaffi París. ,,Enda er hún nú engin alþýðudrusla" svo ég vitni orðrétt í eina frænkuna. Á þessum tímapunkti er gott að minnast á að móðurfjölskyldu minni liggur mjög hátt rómur.
Til að bæta upp fyrir vonbrigðin með íslenska hönnun fórum við í Gyllta Köttin þar sem við böðuðum okkur í pallíettum og glimmeri og glysgjarni hlutinn af frænkustóðinu keypti sér kjóla. Framundan eru svo rigerðarskrif og bollaleggingar fyrir leik og störf í sumar.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim