Til helvítis með Hallgrímskirkju........
úff púff.....ég sem hélt í barnslegri einlægni minni að vorið væri að koma. Þvílík sjálfsblekking, ég sit hér fyrir framan tölvunna og stari tómum augum útí myrkrið sem virðist ekki vera á neinu undanhaldi. Ég á mjög hægt um vik við skrif mín enda er hægri höndin á mér öll úr lagi gengin eftir laugardaginn. Hún hefur margfaldað ummál sitt og er í öllum regnbogans litum, ég hef ekki hugmynd um hvað kom fyrir en lýsi hér með eftir vitnum sem hugsanlega geta frætt mig um afdrif hægri handar minnar á aðfaranótt sunnudags. Hallast samt að því Hallgrímskirkja eigi einhvern hlut að máli. þegar hún vakti mig með sínum djöfullega klukknahljómi á sunnudeginum varð mér svo mikið um að ég held að ég hafi í skelfingu minni slegið hendinni í vegginn, hugsanlega með fyrrgreindum afleiðingum. Annars eru lætin í kirkjuklukkunum nú ekkert eðlilega mikil. Mér leið eins og það væri verið að hringja inn dómsdag í höfðinu á mér en Einar lét sem hann heyrði þetta ekki. Líklega orðinn heilaskemmdur og heyrnarlaus af öllum hávaðanum í gegnum tíðina. Ég votta þeim samúð mína sem þurfa að búa í innan við kílómetra radíus við þennan óskunda.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim