Missjón akkomplíst
Hana! þá er ég búin að troða íslenskri náttúru niður í kokið á Norðmanninum. Henni fannst lítið til hraunsins koma en heillaðist mikið af hverasvæðunum. Sérstaklega þegar við vorum að keyra framhjá Haukadalnum og sáum gosin úr Strokki gægjast upp fyrir birkrihríslurnar úr fjarlægð.
Síðan kítuðum við á vinalegu nótunum um hvað væri skógur og hvað ekki. Samkvæmt hennar norska brjóstviti er ekki einn einansti skógur á Íslandi en aftur á móti nóg af runnum og lággróðri. Ég vildi aftur á móti meina að svæðið í kringum Þingvöll væri "skógi" vaxið.
Annars mæli ég eindregið með heimsókn til Hveragerðis um þessar mundir. Virknin á svæðinu er með einsdæmum og það rýkur upp úr hverri holu. Þegar litið er yfir bæinn dettur manni fyrst í hug að norðurhlutinn hafi nýlega orðið fyrir sprengjuárás og orðatiltækið rjúkandi rústir fékk skyndilega nýja merkingu. Nema þá að það voru engar rústir. Þegar ekið er í gegnum bæinn má sjá stóra þykka gufustróka í allar áttir, hvert sem litið er. Svo má sjá golfara í sínu asnalega golfátfitti leika sitt asnalega golf inná milli gufustrókanna. Mjög súrrealískt.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim