Tilkynning til lesenda: Ekki vera plebbar, fallbeygið titla.
,,Ég ætla að fá einn miða á sá ljóti"
,,Ég sá Brúðguminn í gær"
Einhverra hlutavegna virðist það algengara að fólk gleymi að fallbeygja titla á bíómyndum, leikritum og öðru sjónrænu heldur en bókum. Ég hef allavega ekki enn heyrt neinn sagst hafa lesið Djöflaeyjan, Ilmurinn eða þar fram eftir götunum.
Ég veit ekki hvort fer meira í taugarnar á mér; titlar sem virðast vera fastir í nefnifalli í kjöftunum á fólki eða þegar titlar á ekki-enskumælandi myndum eru þýddir á ensku, en ekki íslensku. Gott dæmi um þetta er myndin um síðustu daga Hitlers, Der Untergang, sem skyndilega hét The Downfall í öllum fjölmiðlum. Der Untergang er ekki sérstaklega flókið í framburði, þannig að þýski titilinn hefði líklega getað staðið einn og sér, en óekki, Ða dánfoll skyldi það vera. Ég man ennþá eftir skilningsvana afgreiðslustúlkunni sem hváði þegar ég bað um tvo miða á Fallið.
Annað dæmi um þetta er franska myndin Un long dimanche de fiançailles, sem er náttúrulega ómögulegt að bera fram hafi maður engann grunn í frönsku, líkt og ég. Titilinn útlegst á íslensku ,,Trúlofunin langa" en jafnvel Lesbók moggans tók þátt í sköllinu í þetta skiptið og einhver menningarvitinn skrifaði langan ítardóm um frönsku kvikmyndina ,,A very long Engagement".
Börnin í 92 í Hólabrekkuskóla súmma þetta alveg upp þegar við vorum að ræða Snorra-Eddu.
Barn: Vá, rosalega mikið af nöfnunum hérna eru líka í Lord of ða ríngs.
Ég: Já, Tolkien sótti mikið í Snorra-Eddu þegar hann skrifaði Hringadróttins sögu.
Barn: Ha, skrifaði hann hana líka?
Þessi pirringur er svo sem engar nýjar fréttir. Ég er búin að jagast yfir þessu við alla sem vilja heyra í nokkur ár og ennþá fleiri sem ekki vilja heyra. Ástæðan fyrir því að þetta er mér hugleikið í dag er sú að ég sá Þann ljóta í gær í Þjóðleikhúsinu. Í miðaröðinni heyrði ég ekki annað en "ég ætla að fá miða á Sá ljóti" Líklega hefur ábendingafornafnið "sá" staðið í fólki, enda afbrigðileg beyging.
Þeir í Hollandi eru búinir að fynna lausn á þessu máli. Ef eitthvað tiltekið málfræðiatriði kemur illa út á samræmdum prófum hjá unglingum (ca.15-16ára) í einhvern ákveðin árafjölda verður tungumálinu breytt í takt við það og kallað eðlileg breyting tungumáls. Sé þetta yfirfært á Ísland værum við löngu hætt að hlakka til neins, ég myndi aldrei framar kvíða neins í nefnifalli, heldur bara lásí þolfalli, eða jafnvel þágufalli. Það vita það allir sem hafa reynt að tilhlökkun í aukafalli kemst ekki í hálfkvisti til tilhlökkun í nefnifalli. Sauðfjársbændur ættu hvorki ær né kýr lengur, bara beljur og rollur og þar fram eftir götunum.
Ég er mjög hrifinn af líberalismanum í Hollandi, en þarna fara þeir yfir strikið.
Annars var Sá ljóti bara mjög skemmtilegur. Ég er mestmegnis sammála félaga Unni sem skrifaði þennan leikdóm á Kistuna. Þó svo að mér fyndist stundum bera á ofleik, þá sérstaklega einræða Lárusar við spegilmyndina undir lokin.
Ég er búin að fynna leið til að kála mánudagsleiðindum. Júhú. En ég ætla ekki að segja hver sú leið er....
4 Ummæli:
Haha, þú ert allavega búin að kála mínum. Og mig grunar einnig hverju þú ert að kála, jafnvel í þessum rituðu orðum, undir stiganum...
Jú, það er reyndar rétt, spegilmyndarlyftuatriðið missti gersamlega marks hjá mér. Mér fannst það einmitt leim og yfirdrifið. Hinsvegar fannst vinkonu minni það töff svo ég ákvað að nöldra ekki sérstaklega yfir því í dómnum. Ég fór líka að hugsa eftir á, Lárus er svo klénn karakter orðinn eftir umbreytinguna að ég er ekkert viss um að hann hefði getað túlkað eigið taugaáfall öðruvísi en á yfirdrifinn séð og heyrt klisjuhátt.
Meira af athugasemdum... Ég er sammála þér um fallbeygingarnar. Hinsvegar lenti ég sjálf í skemmtilegri klemmu með titil leikritsins, það breytist það mikið við fallbeygingu að ég hafði fyrir því að skrifa dóminn þannig að titillinn lenti hvergi í mótföllum, nema í lokamálsgreininni þar sem jafnvel tregustu lesendum ætti að vera orðið ljóst um hvaða leikrit er að ræða.
Mamma t.d. saup hveljur þegar hún spurði hvað ég ætlaði að gera þetta kvöld ég sagðist ætla að fara og sjá Þann ljóta. (upphafsstafir skila sér illa í gegnum síma.)
hehehe..... það hljómar eins og þú ættir stefnumót við skrattann.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim