Andvökur
Í nótt gat ég ekki sofnað eins og svo oft áður. Um þrjúleytið tóku síðan augnalokin að þyngjast og ég greip í náttborðsbókina og fór að lesa. Bókin er einskonar sjálfsævisaga Kurt Vonnerguts og ég mæli með henni. Í einum kaflanum fór hann að tala um bandaríska sósíalista á fyrrihluta tuttugustu aldar. Ég er mjög hrifin af bandarískum sósíalistum vegna þess að þeim er ekki ætlað að vera til. Ég man alltaf eftir málsgrein í samfélagsfræðibók sem var lesin í tíundabekk. Þar var klausa sem hljómaði eitthvað á þessa leið: ,,Vinstri stefna og sósíalismi hafa aldrei náð að skjóta föstum rótum meðal fólks í Bandaríkjunum. [...] Bandaríkin eru eitt ríkasta land í heimi og bandaríska hagkerfið er það stæsta í heimi."
Allavega, klausan um sósíalistanna minnti mig á bók sem ég hafði áður lesið. Hún var gefin út rétt eftir aldamótin 1900 í Bandaríkjunum og var sósíalískur áróður út í gegn. Samt sem áður sló hún í gegn meðal almennings og var jafnframt þýdd á íslensku um 1905 af útgáfufélagi á Stokkseyri sem hét því hógværa nafni Fjelag eitt. Þýðingin var samt ein sú allra versta sem ég hef lesið og er vel þess virði að lesa með því hugarfari. En nú stóð hnífurinn í kúnni. Hvernig sem ég reyndi að grúska í kollinum á mér gat ég ekki munað hvað bókin hét, né höfundurinn eða þá íslenska þýðingin. Ég lá í rúminu og reyndi að fletta í gegnum alla titla og höfunda sem mögulega gætu passað við bókina en allt kom fyrir ekki. Eðlilegast hefði verið að snúa sér á hina hliðina, gleyma þessu og fara að sofa eða í versta falli lofa sjálfum sér að komast að þessu á morgun. En fyrst að það var búin að kvekja á þráhyggjunni velti ég mér fram úr, trítlaði í tölvuna og fletti í gegni. Bókin hét The Jungle og er eftir Upton Sinclair. Á íslensku fékk hún hið stórglæsilega nafn Á refilstigum. Ég fann hvernig heiladingullinn losaði um stóran skamt af endófíni þegar ég var búin að fá botn í málið. Í gleðivímunni fór ég samt að velta fyrir mér hvort ég hefði farið yfirum hefði væri ég ekki svo heppin að búa á sí nettengdu heimili. Þegar ég var svo aftur komin uppí rúm og farin að hjúfra mig niður fór ég að velta því upp hvort að þetta ótakmarkaða aðgengi að upplýsingum myndi ekki gera útaf við komandi kynslóðir. Ég náði ekki að klára þann þankagang því skyndilega var mjálmað fyrir utan gluggann. Læðan sem heldur að hún eigi heima hjá okkur var komin í kvöldheimsókn og linnti ekki látunum fyrr en hún fékk að koma inn í þvottahús og lét mig klóra sér á maganum. Eftir að ég henti kettinum út gat ég loksins sofnað. Mjúkir ferfætlingar eru náttúrulega lausnin á öllum heimsins vandræðum þegar öllu er á botninn hvolft.
1 Ummæli:
Ég geri mér grein fyrir því að síðasta málsgreinin var líklega til þess eins rituð að fá mig til að kommenta og hrópa: Það er rétt Hafdís! Þú hefur svo rétt fyrir þér! Ef aðeins allir væru svona skynsamir! :)
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim