Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Spegill, spegill.....

Netið er náttúrulega ekkert annað en ruslakista. Því hef ég alltaf haldið fram. Safnhaugur af klámi, niðurhali (yfirleitt á klámi), málstofum fyrir rugludalla með samsæriskenningar, risavöxnum samskiptavefjum, mannskemmandi nafnleynd osfr.
Ég ætla samt ekkert að setja mig á háan hest og viðurkenni fúslega að ég er meðvirk í þessu öllu, nema kannski kláminu. Einu sinni tók ég þátt í nethryðjuverki í skjóli nafnleyndar, en trúið mér, það var blá saklaust og fórnarlambið átti það fyllilega skilið.

Minn prívat net pervertismi er fólginn í því að fylgjast með vinahópum sem ég þekki ekkert til. Til að byrja með var ég að fylgjast með hinum og þessum á linkalistum vina minna, en hætti því fljótlega og réri á önnur og fjarlægari mið. Núna fylgist ég með fólki sem mér finnst svo skrýtið að ég trúi varla að það sé í alvörunni til. Mitt uppáhalds um þessar mundir eru sann kristnir mogga bloggarar. Eins og boðberum fagnaðarerindisins er tamt eru þau hjartanlega á móti öllu sem mér finnst vera satt og rétt. Lífsskoðanir þeirra gætu ekki verið fjarri mínum eigin og stundum finnst mér erfitt að trúa að tveir einstaklingar af sömutegund geti upplifað og túlkað veruleikan með jafn ólíkum hætti.

Kristnu bloggararnir mínir eiga það sameiginlegt að vera hverju öðru leiðnlegri og óspennandi. Þau velta sér daginn út og inn uppúr heilagri ritningu en biblíutextinn verður að leðju í höndunum á þeim og saman tekst þeim að kreista úr honum allt líf. Útleggingar þeirra á annars ágætum versum eru fagurfræðilega séð álíka áhugaverðar og verðkannanir í lágvöruverslunum. Inninhaldslega nota þau torræð vers úr biblíunni í bland við einhverjar kannanir kristinna félagsfræðinga til að rökstyðja dapurlegt viðhorf sitt til tilverunnar á milli þess sem þau stæra sig af afburðarkunnáttu í grísku og latínu með að vitna til frumtexta.

Um daginn varð mér samt verulega brugðið. Ég var í einhverju net hangsi og ákvað að kíkja á krossfarana, mér til dægrastyttingar og viti menn. Þau hafa efnt til vinsældakeppni sín á milli um skemmtilegasta kristna bloggaran. Svona blogg ædol.

Sem sé: Þau álíta sjálf að þau séu skemmtileg. Þá krossbrá mér. Ég las yfir nokkra af kandídötunum í von um að koma auga á eitthvað sem skemmtilegt gæti talist, en hvernig sem ég rýndi í textan fann ég ekkert sem mögulega gæti lyft upp öðru munnvikinu. Nema hinum kristnu krossförum fynnist fordæming á öðrum, þrætubók um latínu eða blessunarorð skemmtileg.

Nú veit ég vel að ég og jesúkrakkarnir erum á fullkomlega sitthvorum endanum á hlaðborðinu, þau nær guði en ég nær sjónvarpinu og fjarstýringunni. Þar af leiðandi ætti að vera ómögulegt að ætla að "skemmtilegheit" þýddu það sama hjá báðum, en mér var samt brugðið.
Skyndilega fylltist ég skelfingu gagnvart þessu fólki sem ég hingað til taldi saklaust. Ef ég einhverntíman rekst á þau mun ég sennilegast hlaupa æpandi á brott.

Ég ætla að hætta að lesa þau og finna mér einhvern annan jaðarhóp til að njósna um.
Ef einhvern langar í ferð um undirheima þá opnast dyrnar hérna.

2 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

*hrollur*

3:11 e.h.  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég var næstum búin að skilja eftir komment á þessum bloggum með link á þessa færslu. Það væri samt nethryðjuverk
-aps

4:05 e.h.  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim