Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Heitasti dagur sumarsins
var í fyrradag, síðan kom ennþá heitari gærdagurinn og þá fór allt í bál og brand. Þjóðin gekk af göflunum. Hver einasti rúmmetri í sundlaugum var fylltur af holdi, ísvélar bræddu úr sér og vinnustaðir lokuðu. Síðan datt landinn ærlega í það. Austurvöllur var eins og Herjólfsdalur um verslunnarmannahelgi. Allavega mætti mér megn bjórstybba um leið og ég gekk inn Pósthússtrætið og í fjarska mátti heyra Nínu spilaða á gítar. Síðar um kvöldið hélt gleðskapurinn áfram í Hljómskálagarðinum þar sem sundurleitur (en frekar fjölmennur) hópur ungmenna safnaðist saman, drakk, spilaði á bongótrommur og létu eins og þau væru á ofskynjunarlyfjum. Uppúr miðnætti fór að skyggja og gamanið kárnaði. Sumir urðu ofurölvi og ráfuðu um miðbæinn, aðrir höfðu einfaldlega ofkeyrt sig og látu óvígir undir sæng með sólbruna, vökvaskort og timburmenn á leiðinni. Það mætti segja að það hafi verið karnival stemning niðrí bæ í gær en mér fannst hún eiginlega bara frekar tribal. Það var allavega eitthvað afar frumstætt sem réði ferðinni. Án þess þó að ég geri lítið úr því, verandi hálfgerður hellisbúi sjálf.

Persónulega er ég skilgetið afkvæmi íslensks veðurs og koðna niður í of miklum hita (20+). Minn kjörhiti er 10-15 gráður, fari hitastigið yfir það fara frumur og vefir að deyja og blóðið í mér þykknar. Mér finnst samt sem áður sumarið vera yndisleg árstíð, en samt sem áður get ég ekki fyrir mitt litla líf tekið þátt í manískri hegðun landsmanna í hvert skipti sem hitamælirinn skríður upp fyrir tuttugu gráðurnar. Hjarðeðli höfðar ekki til mín. Ég viðurkenni fúslega að veðurfar hafi áhrif á skapgerð mína, en ég læt veðrið hins vegar ekki raska mínu óhagganlega jafnaðargeði.
Verandi sá þverhaus sem ég er, ákvað ég að njóta næturinnar í stað dagsins. Nú er nefnilega aftur farið að rökkva á kvöldin og frábært að geta setið úti í húminu á sandalabol og ermalausum skóm. Burt með klisjuna um bjartar íslenskar sumarnætur og alla þá vellu sem fylgir þeim í ljóðum og textum. Svartar íslenskar sumarnætur eru nýja trendið. Allavega ef þær halda áfram að vera svona hlýjar. Black is the new black.

Til að vega upp á móti ljóðrænunni í þessari færslu ætla ég að tilkynna lesendum að ég var stungin í rassinn af geitungi í dag. Það vildi svo til að ég ætlaði í sakleysi mínu að setjast á grasbala, en vissi ekki að geitungur einn hefði fengið sömu hugmynd og sest þar á undan mér. Hann launaði mér lambið gráa með því að stinga mig í afturendann. Ég mun sitja með fætur krossaðar til hægri þar til að vinstri rasskinn kemst í eðlilegt horf.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim