Klerkurinn og ég.
tvö búin, eitt eftir og ritgerð sem ég er ekki byrjuð á. Drekk tvo lítra af kóki á dag og vaki frameftir í Lögbergi. Drekk í mig íslandssöguna með kókinu, allt frá hugleiðingum og getgátum fræðimanna um hvað Þorgeir Ljósvetningagoði hafði verið að gera undir feldinum allan þennan tíma til gengisfellinga viðreisnarstjórnarinnar. Ég þarf að hafa mig alla að eftir próf að gleyma þessari vita gagnslausu staðreyndasúpu sem fyrst því ég þarf að rýma til í hausnum á mér því nú skal sko söðlað um. Fékk nefnilega þennan fína fína póst áðan frá kaupmannarhafnarháskóla þar sem mér var boðin skólavist í department of Cross cultural and regional studies. Ég held ég taki boðinu...
Ég hitti fermingarprestinn minn, hann séra Valgeir um daginn. Það var merkilegt. Hann og hún mútta mín vinna saman að einhverju kristilegu verkefni saman og ég hitti hann uppí vinnu hjá mömmu. Mér hefur alltaf fundist Valger ágætur af presti að vera. Hann heilsar manni alltaf með þéttingsföstu handabandi og er líklega einn af þeim sem gengur með þær ranghugmyndir í kollinum að sálrænt atgerfi manna og staðfestu megi áætla út frá styrk handabandsins. Ég kannast vel við slíkar kreddur úr sveitinni og legg mig alltaf fram við að kreista lúkuna á presti eins fast og ég get þegar hann réttir mér spaðan. Hann skal sko ekki væna mig um aumingjaskap. Að vísu rýrnaði álit mitt á séra Valgeiri til muna eftir að DV birti einhverja æsifrétt um að hann legði hendur á fermingarbörn. Það gæti þó verið að þarna hafi verið á ferð franskbrauðsæska sem ekki þoldi eða skildi þéttingsfasta handabandið hans séra Valgeirs og klagað í foreldra. Allavega, þá fórum við Valgeir að ræða saman um dagin og vegin eins og fólk gerir þegar það hittist á opinberri samkomu leikskóla Reykjavíkur. Séra Valgeir var ofsalega ánægður að heyra að ég væri í sagnfærði, ,,Því sagnfræði er yndislegt fag" svo ég vitni beint í hann sjálfan. Svo fór hann að básúna yfir mig birtingamyndir guðs og félaga í gegnum söguna og viðraði þá kenningu að þegar saga mannkyns er lesin og atburðir settir í samhengi hvor við annan (sem sagnfræði gengur voða mikið útá) þá skíni verk guðs í gegn. Ég hvað ég gerði til að verðskulda þennan lestur. Kannski hef ég í gegnum tíðina tekist að villa á mér heimildir með traustvekjandi handabandi og vel sannkristinni móðurætt, en hversu veruleikafirrtur getur maður verið að halda því fram að í gegnum sögu mannkyns skíni náð og miskun guðs. Mér tókst að eyða talinu fljótlega, enda vildi ég ekki gera móður minni það að lenda í rifrildri við prest um náð og miskun guðs fyrir framan saklausu börnin.
Hef ég kannski ekki verið nógu dugleg við að lesa á milli línanna um náð guðs eða eru prestar veruleikafirrtir rugludallar? Það eina sem ég get lesið úr sögunni er; mannskepnan er fífl, og vinstri er betra en hægri! Ég þarf að fara að kryfja þetta nánar!