Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Afmælisbarn dagsins
...er hún ég! Ég óska sjálfi mér innilega til hamingju með daginn og rek upp þrefallt húrrahróp fyrir framan spegilinn. Afmælinu verður fagnað á svipaðan máta og undanfarin ár, þ.e ekki fagnað á nokkurn hátt. Ég verð alltaf svo dramatísk og brothætt í kringum afmælisdaginn minn þannig að ég vík mér undan veisluhöldum.
Þó þætti mér vænt um ef einhver byði mér á barinn í vikunni.

Í afmælisgjöf vil ég gjarnan fá þetta;
Mix-diska*: Ég er komin með yfir mig nóg af eigin tónlist og vil skoða nýjar víddir. Þetta þýðir að lesendur meiga gera tilraun til að þröngva eigin tónlistasmekk uppá mig.

Spilasessjón af Fimbulfambi: Ég hefi nefnilega aldrei spilað þetta margumtalaða og sívinsæla fimbulfamb, en mér segir svo hugur að mér þætti það skemmtilegt. Ekki væri verra ef meðspilararnir leyfðu mér að vinna í tilefni dagsins.

Meira var það nú ekki. Ég er nefnilega svo hógvær, sjáiði til.....

----

*það væri náttúrulega miklu meira old school og retro að biðja um mixteip, en ég á ekki fúnksjónal segulbandstæki, auk þess sem meirihlutinn af tónlistinni í eyrunum á mér er í boði iTunes.

...og þetta með hógværðina er náttúrulega bara bull. Maður á aldrei að vera hógvær á afmælinu sínu. Sem dæmi má nefna að þessi færsla er ekki nema 228 orð, en þar af eru heil 25 af þeim persónufornöfn í 1.persónu þ.e égummigfrámértilmín. Slíkt er ekki kallað annað en sjálfsdýrkun á háu stigi

sunnudagur, janúar 27, 2008

Tvö sýnishorn úr lífi mínu.

1. Ég ætla að brjóta gegn betri vitund (eins og ó svo oft áður) og segja ykkur öllum að fara í gyllta köttinn á últra útsölu. 3x kjólar, 2x lopahúfur og 2x yfirhafnir á 6.000 krónur. Held að þetta séu bestu kaup sem ég hefi gert á Íslandi. Maður þarf að fara til þriðja heimsins til að versla á svona verði.

2. Ég sit uppá safni og er pínu ósofin, pínu þunn og umhverfið er pínu úr fókus. Fjölskyldufólkið með helgarpabbana fremsta í flokki kemur yfirleitt á laugardögum, en í dag er sunnudagur og þá koma eldra fólkið, alþýðufræðimennirnir og skúffuskáldin. Yfirleitt fíla ég síðarnefnda hópinn betur, þau eru rólegri, smekkvísari, þolinmóðari og umfram allt hlaupa þau ekki um öskrandi og tæta síður úr kjölum.
Hinsvegar þarf oft á tíðum að hafa helling fyrir sunnudagskúnnahópnum. Þau eru kröfuhörð og vilja að bókaverðirnir stjani við þau. Yfirleitt nýt ég mín ágætlega í því hlutverki enda gefst mér þá tækifæri til að besservisserast svolítið þannig að lítið beri á og enginn sjái til.
Hinsvegar eru sunnudagskúnnarnir náttúrulega oft á tíðum furðufuglar upp til hópa. Ég tel mig vera ágætlega sjóaða í furðufuglum og kalla sko ekki allt Nönnu mína; Moggabloggari að leita að inspírasjón, taugaveiklaður og örlítið tipsí tónlistakennari sem dýrkar sönglög Gylfa Þ.Gíslasonar og að ég tali nú ekki um gömlukonuna sem kemur nánast hvern einasta sunnudag, biður um Lögfræðingatal M til S blaðar í því nokkra stund og fer svo.
Stundum keyrir samt um þverbak og það gerðist áðan. Inn kom par á óræðum aldri, líklega eitthvað um fimmtugt. Þau voru að leita af hinu og þessu og það kom í minn hlut að leiða þau um safnið. Þau virtust ekki hafa neinn skilning á því sem kallast persónulegt rými (Lebensraum) í samskiptum. Ekki nóg með að þau þverbrutu eðlilegar fjarlægðarreglur, þá voru þau líka bæði rangeygð. Hann horfði á vinstri öxlina á mér en hún á ennið meðan þau útlistuðu bókasafnsþarfir sínar. Á sama tíma stóðu þau svo nálægt mér að það tók að þykkna upp á gleraugunum mínum og ég varð að pússa móðuna af þegar þau loksins snéru sér frá mér til að blaða í bók.
Rúsínan í pylsuendanum var samt hin megna ólykt sem fylgdi þeim. Þá er ég ekki að tala um venjulegan mannaþef sem kemur í mis sterkum og mis góðum útgáfum, heldur þrúgandi stækju sem var eins og hjúpur í kringum þau. Ég hef aldrei fundið svona lykt af mannfólki áður, en svona fnyk tengi ég einna helst við hestús, eða hluti sem hafa verið lengi í hesthúsum. Samt var þetta ekki hestalykt, því hestalykt kemur af lifandi verum og er að einhverju leyti fersk. Þessi fnykur var sko allt annað en ferskur og ég átti bágt með að trúa að hann kæmi af lifandi fólki.
Mér var fljótlega óglatt í nærveru skötuhjúanna og ég fann hvernig maginn var að snúast á hvolf og innihaldið að leita uppá við. Á tímabili velti ég meiraaðsegja fyrir mér að gerast rosalegur pönkari og æla á gólfið fyrir framan parið. Mér þykir samt of vænt um starfið mitt til að láta reyna á þolmörk vinnuveitenda minna, þannig að ég lét það vera.

Ég verð hinsvegar til að enda þessa hversdagssögu á hörðum nótum. Mér bárust frekar slæm tíðindi til eyrna um daginn og því neyðist ég til að sýna klærnar og segja:
ÖLL SKRIF SEM BIRTAST Á ÞESSARI SÍÐU ERU EIGN HÖFUNDAR OG ENGRA ANNARRA. ÉG ÁSKIL MÉR ÖLL RÉTTINDI OG ENGUM LEYFIST AÐ VITNA Í ÞESSI SKRIF, EÐA BIRTA KAFLA NEMA MEÐ LEYFI HÖFUNDAR.
Yfirleitt tek ég höfundarétt ekkert of hátíðlega (líka minn eiginn) en þessi netskrif eru hálfgerð dagbók og hana vil ég eiga alveg sjálf. Virða þetta, bitte schön.

föstudagur, janúar 25, 2008

Feður! haldið dætrum ykkar innandyra!

...Hann Tommy Lee er sko að koma í bæinn. Blaðamaður guðmávitahvað blaðs sem ég las yfir jógúrtinni í morgun fannst sérstök ástæða að spyrja Tommy útí kvenhylli sína og koma með innslög um hversu viltar íslensku stelpurnar væru nú á djamminu. Á öðrum stað í blaðinu (eða öðru blaði á morgunverðarborðinu) var þetta sett í samhengi við komu Tarantinos til landsins um áramótin, en hann ku hafa komið hingað gagngert til að fá sér að ríða.
Þessi umfjöllun minnti mig strax á götublaðið Mónitor sem spyr allar rokkhljómsveitir sem koma í viðtal hvort að íslensku stelpurnar séu villtari en þær á meiginlandinu.
Það er sem sé alveg augljóst að Reykjavíkur stúlkan kann ekki fótum sínum forráð. Þær stelpur sem leiða karlmann heim af barnum á milli 04-05 eru greinilega ekki að taka sjálfstæða ákvörðun, heldur einfaldlega haga sér í takt við hópinn. Þetta er orðið að nomaliseraðri staðreynd og stórborgargoðsögn sem þykir sjálfsagt að festa í sessi með að viðra hana við hvert tækifæri sem gefst (how do you like Iceland? Have you slept with an Iceladic girl yet?)

Ofangreint dæmi legst síðan ofan á blaðaumfjöllunina um ,,skrílslætin" í ráðhúsinu, en þar var góðborgurum herfilega misboðið af framferði grunnskólabarna og menntskælinga. Rúv og Mbl gerðu sér sérstaklega far um að rissa upp mynd af múgsefjun krakka sem ekki eru enn komin til manns. Þegar Rúv talaði um ,,grunn og menntaskólanema" var kameran á hópi fólks sem ég þekkti ágætlega til. Þar mátti sjá lögfræðinema, kynjafræðing, tvo jafnaldra og bókmenntafræðinema. Þar með var sá hópur gerður auður og ógildur.
Einni konuni var svo misboðið að hún sagði við Rúv að hún væri fegin að þetta væru ekki sín börn. Ég tek undir með orðum Völíasardóttur og segi; pant ekki eignast börn með henni.

Tommy Lee og ráðhúsið hafa nú ýtt mér fram af brúninni og ég ætla hér með að framkvæma svolítið sem ég hef velt fyrir mér lengi.
Ég er komin í fjölmiðlabindindi sem mun standa fram á vor. Ég á eftir að skilgreina ,,fjölmiðil" með sjálfri mér og setja mér einhverjar vinnureglur, en ég get fullyrt að Mogginn, fréttó, 24 stundir og mbl verða ekki lesin af þeirri sem þetta ritar fyrr en vorar. Rúv horfi ég hvort eð er sjaldan á.
Endursagnir og túlkanir vina og vandamanna verða þó velkomnar.

fimmtudagur, janúar 24, 2008








Það sér hver maður/kona að þessar næríur (sem kallast c-string) eru nauðsynlegar í nærfataskúffu hverrar konu.
Samkvæmt framleiðanda eru þær afar þægilegar og nú getum við konur kvatt þessar teygur, þennan óþægilega bómul og hvaðeina. Hvað er líka ljótara heldur en teygjufarið sem þessar naríur sem ná utan um mittið mynda? Svo er náttúrulega hræðilegt til þess að hugsa að nærbuxnastrengur gæti gæst undan buxnastrengum.
Ég veit ekki með ykkur, en ég held að mannkynið hafi stigið enn eitt skrefið nær fullkomnun með þessari hugvitsamlegu uppfinningu.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Ergelsi

Ég ætla að halda áfram að pirrast útí janúarmánuð. Ég held að dagurinn í dag sé gráasti og fúlasti dagur ársins.

Það er komin nýr borgarstjóri úr flokki sem mér fynnst vera plága. Svona pólitík er fúl, þrátt fyrir að vera dramatísk, og hún minnir mig á hvað manneskjurnar geta verið ómerkilegar skeppnur. Ég byggi tilvist mína á sannfæringunni um að frumskógarlögmálið gildi ekki lengur og þoli ekki þegar mér er kippt niður á jörðinna.
Ísland tapaði í handbolta. Stórt.
Snjórinn fór og skildi mig eftir fótablauta í allan dag.

...sem betur fer nýt ég góðs af því hvað ég er efnilegur dagdreymari og er búin að eyða meginu af deginum handan við tíma og rúm. Efnislegi hlutinn af mér hefur hins vegar staðið sig ágætlega, lesið, glósað, mætt í vinnuna og svarað ef á hann var yrt.
Ef hversdagsleikinn heldur áfram að vera svona grár mun ég hugleiða varanlegan aðskilnað líkama og sálar.

sunnudagur, janúar 20, 2008

In memorian, eða ekki.

Þegar ég frétti að Bobby Fisjér væri allur fór ég strax að velta fyrir mér hvar hann yrði grafinn.
Mér datt strax í hug þjóðargrafreiturinn á Þingvöllum og flissaði með sjálfri mér yfir tilhugsuninni um að hola niður bandarískum gyðingahatara í Mekka íslenskrar þjóðrembu.
Daginn eftir las ég í blöðunum að ég var ekki sú eina sem velti þessu fyrir mér. Hinsvegar er fólkinu þarna úti alvara.
Nú munu líklega margir fara að rífast um þetta og ég nenni enganveginn að taka þátt í því. Ég ber takmarkaða virðingu fyrir ritúölum íslensks þjóðernis og það sama gildir um skákmeistara. Mín vegna meiga Íslendingar búa til hetju úr Fisjér sjálfum sér til upphafningar og grafa hann hvar á landi sem er, en vá, hvað mér stendur á sama.

Ég er hræðileg í skák...ég er stundum að reyna að leysa þessa skákþraut á netinu en hef aldrei komist nálægt því. Ef einhver fattar trikkið, má hann/hún senda mér leiðbeiningar í pósti.
Ég hef heldur aldrei getað nema tvær hliðar á rúbiks kjúb og aldrei leyst sunnudagskrossgátuna. Afturámóti gat ég auðveldlega leyst Einstænísku gátuna um hver ætti fiskinn. Einhver sagði mér að allir starfsmenn Microsoft yrðu að geta leyst þá gátu. Örugglega flökkusaga samt.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Tiltekt....

Janúar er súrasti mánuður ársins. Hann er dimmur, langur og fátt um að vera. Febrúar er í raun ennþá tíðindaminni en er afturámóti styttri og bjartari.
Ég ætti að vera að vinna að ritgerð eða einhverju öðru námstengdu, en í staðinn sinni ég minniháttarverkefnum sem hafa setið á hakanum í marga mánuði. Í gær tók ég til í inboxinu mínu, en þar mátti fynna meil frá 2004. Ég tók nostralgíu kast með eftirsjá-yfirbragði meðan ég skrollaði í gegnum ferðasögur, slúður, hi-nem tilkynningar og bréf frá mömmu. Fann meðal annars bréf frá fyrverandi tengdamóður minni þar sem hún biður mig um að skila sér skóm sem ég stal/fékk lánaða hjá henni á meðan hún dvaldi erlendis. Ég skilaði skónum aldrei.
Mér var svo allri lokið þegar ég komst að því um dagin að téð tengdó er farin að vinna á skrifstofu hugvísindadeildar. Það hvarlaði jafnvel að mér að finna skóparið og skila til að tryggja að hún leyfi mér að útskrifast í vor.
Ég hætti þó við það þegar ég sá að hún er búin að slá eign sinni á trefil sem ég útbjó handa Fyrverandi í jólagjöf fyrir einhverjum árum. Nú gildir þögult samkomulag okkar á milli um kaup kaups.

Annar og huglægari hluti af tiltekt minni felst í því að grafa upp vini sem ég hef týnt sl.mánuði/ár. Ég er arfaslöpp í því sem kallast "að halda sambandi" og týni fólki um leið og það hverfur úr minni daglegu rútínu. Ég skrifaði löng og ítarleg bréf til allra sem ég þekki erlendis, boðaði gamla vini í mat og enn eldri vini á kaffihús. Grand-finale-ið verður svo leiðangur uppí Norðurárdal, en þar býr vinkona sem lét barna sig á fyrstu önn í háskóla og stofnaði fjölskyldu í kjölfarið.

Einu sinni heyrði ég skemmtilega flökkusögu frá Bifröst (ekki frá móðurinni samt) hún var einhvernmegin svona:
Á skólasvæðinu á Bifröst er risastórt sameginlegt þvottahús sem er staðsett í kjallara. Í þessum kjallara, einhverstaðar í bakherbergi eða bak við hurð, er lítil svört bók*. (Farið að hljóma kunnulega?) Í hana eru skráð öll nöfn kvenna sem stunda nám á Bifröst. Þegar námspiltur við Bifröst sængar hjá einhverri af samstúdínum sínum, merkir hann samviskusamlega við það í bókina. Eldri námspiltar sjá svo um að halda bókinni til haga, öpdeita hana reglulega, gera upp í lok árs og sjá til þess að tilvist hennar fari leynt.

sel þetta pottþétt ódýrara en ég keypti það, en engu að síður skemmtilegt.

*Satt að segja hef ég heyrt þessa sögu tvisvar, en í hinni útgáfunni var bókhaldsgræjan ekki lítil svört bók, heldur veggspjald. Ég ákvað samt að notast við svörtubókar útgáfunna af sögunni. Sú útgáfa hæfir betur flökkusagnaforminu.

mánudagur, janúar 14, 2008

Ég fór í bíó. (æsispennandi)

Á tímum kóleru og niðurhals eru bíóferðir orðnar lúxus sem maður leyfir sér sjaldan. Ég er samt svo mikið barn að ég dýrka bíóferðir. Að vísu er ég hundfúl yfir því að Háskólabíó (og mögulega önnur kvikmyndahús) séu hætt að gefa manni alminnilegan bíómiða. Í staðin fyrir þennan gamla ljótgræna miða með afrifu og afsláttartilboði aftan á, fær maður kassakvittun í staðin. Ég hef lagt það í vana minn að halda til haga bíómiðum af góðum myndum (Dangerous Mindes, 1993, var sá fyrsti) og ég myndi líka safna bíóprógrömum ef þau hefðu ekki verið fyrir mína tíð.
Það kemur aftur á móti ekki til greina að ég fari að safna kassakvittunum. Sem er synd, því gærdagsmyndin átti það skilið.
Eftir að hafa nöldrað í nánustu vinum yfir bíóferðaleysi og skorið upp herör gegn niðurhöluðum myndum tókst mér með gylliboðum að verða mér úti um bíófélaga í gær. Ferðinni var heitið á Persepolis, teiknimynd eftir sögu sem flestir af mínu sauðahúsi dýrka og dá.
Myndin stóðst fullkomlega allar væntingar og sérstaklega fannst mér tónlistin vera æði.
Ég ætla ekki að breyta þessari færslu í kvikmyndamyndarýni og læt því duga nokkur yfirborðskennd lýsingarorð á borð við; frábær, æði ect.
Það sem var ekki æðislegt var hinsvegar maðurinn sem sat á næsta bekk fyrir ofan okkur. Hann hraut. Nú veit ég að kvikmyndir sem eru sýndar á frönskum kvikmyndahátíðum hafa oft svæfandi áhrif, en hversu sálar-og hjartalaus er sá sem sofnar yfir örlögum borgara í Terehan á tímum íslömsku byltingarinnar???
Ég reyndi að henda í hann poppkornum svo lítið bæri á, en hitti illa og varð mér til skammar.
Ég hef að vísu sjálf sofað í bíó, en ég legg ekki Borne Identity að jöfnu við myndir á borð við Persepolis. Auk þess sem ég er svo smekkleg að ég myndi aldrei hrjóta hátt og snjallt í bíó, þó svo að mér dytti ég hug að hvíla augun.

föstudagur, janúar 11, 2008

Það er leiðindaávani að rústa helgarfríinu á fimmtudegi.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Spegill, spegill.....

Netið er náttúrulega ekkert annað en ruslakista. Því hef ég alltaf haldið fram. Safnhaugur af klámi, niðurhali (yfirleitt á klámi), málstofum fyrir rugludalla með samsæriskenningar, risavöxnum samskiptavefjum, mannskemmandi nafnleynd osfr.
Ég ætla samt ekkert að setja mig á háan hest og viðurkenni fúslega að ég er meðvirk í þessu öllu, nema kannski kláminu. Einu sinni tók ég þátt í nethryðjuverki í skjóli nafnleyndar, en trúið mér, það var blá saklaust og fórnarlambið átti það fyllilega skilið.

Minn prívat net pervertismi er fólginn í því að fylgjast með vinahópum sem ég þekki ekkert til. Til að byrja með var ég að fylgjast með hinum og þessum á linkalistum vina minna, en hætti því fljótlega og réri á önnur og fjarlægari mið. Núna fylgist ég með fólki sem mér finnst svo skrýtið að ég trúi varla að það sé í alvörunni til. Mitt uppáhalds um þessar mundir eru sann kristnir mogga bloggarar. Eins og boðberum fagnaðarerindisins er tamt eru þau hjartanlega á móti öllu sem mér finnst vera satt og rétt. Lífsskoðanir þeirra gætu ekki verið fjarri mínum eigin og stundum finnst mér erfitt að trúa að tveir einstaklingar af sömutegund geti upplifað og túlkað veruleikan með jafn ólíkum hætti.

Kristnu bloggararnir mínir eiga það sameiginlegt að vera hverju öðru leiðnlegri og óspennandi. Þau velta sér daginn út og inn uppúr heilagri ritningu en biblíutextinn verður að leðju í höndunum á þeim og saman tekst þeim að kreista úr honum allt líf. Útleggingar þeirra á annars ágætum versum eru fagurfræðilega séð álíka áhugaverðar og verðkannanir í lágvöruverslunum. Inninhaldslega nota þau torræð vers úr biblíunni í bland við einhverjar kannanir kristinna félagsfræðinga til að rökstyðja dapurlegt viðhorf sitt til tilverunnar á milli þess sem þau stæra sig af afburðarkunnáttu í grísku og latínu með að vitna til frumtexta.

Um daginn varð mér samt verulega brugðið. Ég var í einhverju net hangsi og ákvað að kíkja á krossfarana, mér til dægrastyttingar og viti menn. Þau hafa efnt til vinsældakeppni sín á milli um skemmtilegasta kristna bloggaran. Svona blogg ædol.

Sem sé: Þau álíta sjálf að þau séu skemmtileg. Þá krossbrá mér. Ég las yfir nokkra af kandídötunum í von um að koma auga á eitthvað sem skemmtilegt gæti talist, en hvernig sem ég rýndi í textan fann ég ekkert sem mögulega gæti lyft upp öðru munnvikinu. Nema hinum kristnu krossförum fynnist fordæming á öðrum, þrætubók um latínu eða blessunarorð skemmtileg.

Nú veit ég vel að ég og jesúkrakkarnir erum á fullkomlega sitthvorum endanum á hlaðborðinu, þau nær guði en ég nær sjónvarpinu og fjarstýringunni. Þar af leiðandi ætti að vera ómögulegt að ætla að "skemmtilegheit" þýddu það sama hjá báðum, en mér var samt brugðið.
Skyndilega fylltist ég skelfingu gagnvart þessu fólki sem ég hingað til taldi saklaust. Ef ég einhverntíman rekst á þau mun ég sennilegast hlaupa æpandi á brott.

Ég ætla að hætta að lesa þau og finna mér einhvern annan jaðarhóp til að njósna um.
Ef einhvern langar í ferð um undirheima þá opnast dyrnar hérna.

mánudagur, janúar 07, 2008

Fuglager

Jólin voru afar ljúf í ár. Jólaboð voru í sögulegu hámarki og það sem meira er, jólaboð þar sem vel var veitt voru einnig í hámarki. Ég var hálfgerður heimalingur yfir jólin, svona til að bæta upp alla fjarveruna á aðventunni, og hef eytt tímanum í hangs, lestur og hyggesnakk við familíuna. Á slíkum tímum leti og áhyggjuleysis fæ ég sérstakan áhuga á fuglalífinu í kringum mig. Fuglar hverfisins eiga sér fast hæli í garðinum okkar yfir jólin. Þröstunum er gefið epli og brauð úti á verönd, en krumma er gefið fituafgangar og hangikjötsleyfar í bakgarðinum. Liggi sérstaklega vel á mér, er gæsum gefið brauð útí móa. Snjótitlingar hafa lítið verið á sveimi í vetur en hér er til fuglakorn á lager, detti þeim í hug að láta sjá sig. Fjölskyldumeðlimir skiptast svo á að stugga köttum í burtu eftir þörfum. Sérstaklega þessum svarta sem býr á númer 7. Hann er bjöllulaus fjandi og líklegur til að gera usla.

Akkúrat núna var feitasti og frekasti þrösturinn að reka hina síðustu burt með yfirgangi, frekju og stéltogunum. Hann situr nú einn að eplinu og gargar ef einhver nálgast. Hinir sem biðu lægri hlut hafa raðað sér á gaflinn á næsta húsi og bíða þolinmóðir eftir að sá feiti ljúki sér af.

Ég er í afar blíðu skapi í dag, vissulega fylgja nokkrir timburmenn jólunum, en þeir hafa oft verið fleiri, verri og grimmari. Það má segja að síðan í gær hafi ég verið mjög post-jóla-zen. Hafi einhver lesenda/lesönda/lesanda minna eitthvað erindi við mig, jafnvel eitthvað sem krefst einhvers ómaks af minni hálfu, er rétti tíminn núna.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Annales

Þegar ég lít um öxl sé ég þetta:
Tár, bros en engir takkaskór. Varð sjálfri mér oft til skammar og öðrum til ama en gleymdi því jafnóðum. Lauk prófum. Svaf sumarið af mér. Eyddi páskunum við Eystrasaltið annað árið í röð. Átti merkilega góðar stundir við Arnarhól. Fékk 831 hate-mail á einni viku útaf greinarskrifum, þar sem mér var m.a hótað lífláti. Gerði tvær tilraunir til að drekka kaffi. Net tengdi tölvu alveg sjálf. Sannfærði stórabróður um að flytja að heiman svo ég gæti fengið kjallarann.

Mikilvægara er þó að horfa framávið og það ætla ég að gera í formi áramótaheita. Ég strengi venjulega aldrei áramótaheit en nú er nauðsyn.
Áramótaheitin eru;
1. útskrifast
2. hætta að reykja í eitt skipti fyrir öll.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Ég er þjóðníðingur....

Ég horfði ekki á áramótaskaupið í gær.