Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

fimmtudagur, maí 29, 2008

Klassískt dæmi um íslenska samræðulist

Ég var á hárgreiðslustofu, hvar varst þú?

miðvikudagur, maí 28, 2008

Hell just froze over....

Ég var sammála Stakasteinum Morgunblaðsins í gær. Hvað er að verða um litlu mig?

þriðjudagur, maí 27, 2008

Þrjú illkvenndi sem settu svip sinn á síðustu helgi

Gláp var með hæsta móti síðustu helgi. Bar þar allt að sama brunni, því allar myndirnar sem ég sá innihéldu illkvenndi af bestu gerð, eiginlega sama illkvenndið í mismunandi útgáfum.

Hér koma þær:

Fyrst ber að nefna Dr.Elsu Schneider úr Indina Jones myndinni um síðustu krossferðina. Gráðugt tálkvenndi og handbendi nasista. Klassísk ímynd varnarlausu konunar sem þarf sífellt að vera að bjarga. Þess á milli er hún kvennsnift sem svífst einskis. Sýndi samt vott af veikleika þegar hún felldi tár á bókabrennu nasista. Örlög Elsu voru þau að hún datt ofan í hyldjúpa gjá þegar hún reyndi að seilast eftir hinum heilaga kaleik sem lá á klettasyllu. Skömmu síðar stóð sjálfur Jones fyrir framan sama valinu en valdi frekar að komast lífs af. Skilaboð: Konur sem leita að hinu ómögulega detta ofan í holu.




Næst er svo Dr.Irena Spalko (það var Indiana Jones maraþon um helgina)Hún hefur hlotið flestar orður Ráðstjórnarríkjanna og var eftirlætis vísindamaður Stalíns. Hún er svo sannarlega ekki varnarlaus því hún kann að skylmast, skjóta af hverskyns byssum og jafnvel lesa hugsanir. Irena þráir allra manna og kvenna heitast að hljóta ótakmarkaða visku og þekkingu, en því miður brennur hún upp innanfrá þegar verur úr annarri vídd bjóðast til að veita henni aðgang að allri þekkingu alheimsins. Indiana var sjálfum boðinn slík þekking en afþakkaði pent. Skilaboð: Konur sem leita að meiri þekkingu en þær geta höndlað fuðra upp.

Mér fynnst Dr.Irena vera afar vel heppnað illmenni.

Annars ætla ég ekkert að fara útí kynjapælingar í Indiana Jones myndunum. Þær eru alveg jafn klisjukenndar og í öllum hinum ræmunum. Framleiðendum og handritshöfundum til hróss má þó segja að þær fáu konur sem bregða fyrir í myndunum breytast. Fyrst voru það varnarlausu söngkonurnar sem leið yfir í gríð og erg og Indiana þurfti að burðast með á öxlunum í gegnum eld og brennistein. Í þau fáu skipti sem þær stóðu í labbirnar gerðu þær einhverjar gloríur eða sögðu eitthvað hrikalega vitlaust svo að Indy og hinir kallarnir hlóu upphátt. Svo sáu þær mús eða skriðdýr og þá var kominn tími á annað yfirlið. Í þriðju myndinni fær kvennpersóna að spreyta sig á illmennisrullunni og þá dugar ekki að vera illa gefinn. Hinsvegar getur sentímentið alveg verið til staðar enda bjargar Indy Dr.Schneider frá rottum og sefur hjá henni skömmu seinna. Dr.Schneider fær samt að gjalda lasta sinna í lokinn og er það vel. Dauðdögum illmenna á ekki að mismuna á grundvelli kyns. Dr.Irena er hinsvegar
21.aldar illkvenndi og laus við allt sentíment. Aftur á móti hafði hún svo mikið sex appíl að hún hvorki blotnaði né svitnaði, öfugt við flestar aðrar persónur í myndinni, og fall niður þrjá fossa náði ekki að bletta gráa júníformið hennar, né aflaga hárið.



Síðast kynni ég Ilsu til sögunnar. Hún hefur bæði verðið kommúnisti og nasisti en einnig fangavörður í kvennabúri Olígana. Ilse hefur ekki gráðu í einu eða neinu eins og hinar dömurnar, enda er hún miklu meiri barbari en hinar tvær, blóðþyrstari, grimmari og graðari. Ég sá Ilsu sem kommúnista um helgina, en stefni á að fylgjast með henni sem nasista ef ég get einhvern tíman losað mig við klígjuna sem fyllir mig í hvert skipti sem ég sé of mikið af blóði á hvíta tjaldinu.

Hér er Ilsa:

mánudagur, maí 26, 2008

málstaðurinn, að þessu sinni hvorki feitletraður né með stórum staf

Seriously, you don't really believe what you wrote, do you? Whales are just sort of different. It's unexplainable really, but it's not the same as eating a cow, lamb, chicken or pig. I think you'll find that eating whale goes against some unspoken agreement throughout the world. This probably isn't a great explanation, and certainly not rooted in science. I fear the view of a handful such as yourself will cause people to shun iceland. Which is a shame and I;m embarrassed for you.

Botnar einhver eitthvað í þessu viðhorfi?
önspóken agríment þrúát ða vörld? viti þið um önnur svipuð dæmi um hnattræna vitund?

föstudagur, maí 23, 2008

Computer says No!!

Elskulega talvan mín gaf upp öndina rétt fyrir kaffipásu á Háskólatorgi föstudaginn 23.maí. Með henni dó þriðji kaflinn í ritgerðinni minni, nokkrar myndir, heill hellingur af dagbókarskrifum og fáránlega hátt toppskor í minesweeper.

Útförin verður haldin í kyrrþey. Ef einhver er að skipuleggja einhvern office space gjörning með tölvu skemmeríi býð ég mína fram.

Blóm og kransar vel þegnir

Þeim sem vilja minnast hennar er bent á að knúsa mig

Málstaðurinn, feitletraður og með stóru Emmi.

Enn á ný er ég farin í krossferð gegn staðleysum og kjánalegum hugsunarhætti. Efnistökin að þessu sinni, líkt og áður eru hvalveiðar. Eða öllu heldur þið-þarna-vitlausu-útlendingar(bandaríkjamenn)-hættið-að-tala-piss-um-hvalát.

Hvalkjöt er gott, hrefnur eru ekki í útrýmingarhættu og meðferðin á hvölum er miklu betri en t.d umgengin við dýrin á kjúklingabúum KFC. Hættiði svo að láta eins og himinn og jörð séu að farast þó svo að fáeinir hvalir séu skotnir í bakið. Hermenn í Írak, Afganistan og Darfur skjóta líka spendýr í bakið, bara miklu fleiri einstaklinga.

Hvalát gerir mig ekki að vitlausri mannætu (já, sumir setja samasem merki á milli hval og mannáts)sem er skítsama um lífríki sjávar, sveita og framtíð jarðar yfirhöfuð.

Fyrir peninginn sem var settur í frí villí verkefnið hefði verið hægt að grafa fullt af brunnum og veita heilu þorpi í þriðjaheiminum þokkalega skólamenntun. Villí hafði það bara fínt, eins og hvert annað gæludýr.

Ég skil samt sjónarmiðið um að ferðaþjónustan þéni meira á hvalaskoðun en sjávarútvegurinn á hvalveiðum og ég er í raun ekki hlynt því að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Engu að síður held ég að heimurinn sé á hraðferð til andskotans ef kjánalegum hugsunarhætti sé leyft að taka yfir umræðuna og ákvarðannatöku mótþróalaust.

Fiskistofnar í norðuhöfum eru í miklu meiri hættu á ofveiði en hvalir nokkru sinni.

Íslendingar voru fyrsta þjóðin í heiminum sem setti lög sem bönnuðu hvalveiðar til verndar hvalastofnum. Ekkert í málfluttningi né gjörðum ráðamanna (sama í hvaða flokki) bendir til þess að einlægur ásetningur þeirra sé að hreinsa höfin af hvölum.

Sem sé; við meigum veiða hval í friði fyrir alheimskarmanu.
Afhverju; Af sömu ástæðu og við drepum önnur dýr, við borðum þau, hvalkjöt er gott!!

Haldiði svo kjafti, öllsömul.

Einhvernmeign svona hljómar röksemdafærslan mín. Bara aðeins fágaðri.

Bréfunum rignir yfir mig, en engar líflátshótanir hafa borist í hús ennþá. Síðast þegar ég tók upp kyndilinn fékk ég nokkrar slíkar. Sumir eru meira að segja sammála mér í þetta skiptið. Allavega þeir sem reka síðuna eatwhale.com

Ég fór líka í herferð gegn þeim sem níðast á minnimáttar og skrifaði pistil um Downsara, sambærilegan færslunni sem ég skrifaði hér fyrir nokkrum dögum. Fullt af bréfum frá þakklátum foreldrum og einstaka Downsurum þar líka. Einnig frá mannfýlum sem útskýrðu fyrir mér hugtakið um náttúruval.

Um helgina ætla ég samt að gefa skynsama hlutanum af sjálfri mér frí og láta eins og ég sé 15 ára. Það er nebbla júró júró helgi og ísland á möguleika á 16.sætinu.

miðvikudagur, maí 21, 2008

Bra Bra Bra

Sumu fólki er illa við að heyra eigin rödd og ég er þar engin undantekning. Ískaldur aulahrollur hrislast niður bakið á mér þegar ég þarf undir einhverjum kringumstæðum að heyra í sjálfri mér. Ástæðan er sú að ég er frekar nefmælt og mér fynnst röddin mín alltaf hljóma eins og andakvak. Nú er ég kvefuð og hef aldrei verið and-mæltari. Þessvegna finnst mér hálf pínlegt að þurfa að eiga í munnlegum samskiptum við annað fólk og hef stungið hausnum undir væng ef ég þarf að eiga í óþarfa hyggesnakki. Til að bæta gráu ofan á svart var ég að byrja á nýjum vinnustað og vinnufélagarnir halda örugglega að ég sé komin af stokköndum. Ég veit ekki hversu lengi ég held út að hlusta á sjálfa mig kvaka.
---
þetta minnir mig á mýtu sem ég rekst oft á í "Ótrúlegt en satt" dálkum í vikublöðum, en það er að andakvak bergmáli ekki og enginn viti afhverju. Hvernig getur eitthvað eitt hljóð ekki bergmálað? Veit einhver hvort þetta er satt? Hafa Mythbusters verið settir í málið.....
---
Til að enda hugrennslið um endur ætla ég að skrifa niður einn fyndasta fimmaurabrandara allra tíma. Heiðurinn af honum á hún Halldóra sem hefur eitt besta skopskyn norðan Alpafjalla. Þennan brandara um endur sagði hún mér þegar við vorum í piknikk í Helsingi

,,Hvernig hafa endurnar á Tjörninni það?"
,,Þær hafa það bra!"

og hér er annar á svipuðu leveli sem var vinsæll í afmörðum hópi Kvennskælinga
Hvað kallast andafóður öðru nafni? SV: Andefni!!
Tilhugsunin um að fóðra Reykjarvíkur-endur á andefni þótti sjúklega fyndin árið 2004.

Annars hef ég sjálf það frekar bra og vona að þið hin séuð jafn bra og ég.

sunnudagur, maí 18, 2008

Kindarlegt



Síðustu helgi fór ég í sveitina. Kindurnar biðja ærlega kærlega að heilsa ykkur öllum (hohohoho)
Þegar við komum norður voru góð ráð dýr. Mörkin höfðu nefnilega tafist í pósti og voru að berast, en sauðburðurinn var löngu hafinn. Sem þýðir að tugir lamba sprikluðu um túnið ómerkt með öllu. Móðurtilfinningin hjá rollunum er ekki meiri en sú að þær eru í stökustu vandræðum með að greina sín afkvæmi frá öðrum og geta hæglega gleymt tilveru þeirra ef lamb og ær eru aðskilin svo sem eins og einn sólahring. Þessvegna er bráðanauðsynlegt að gata eyrun á greyjunum sem allra fyrst svo hægt sé að para saman rétt lamb pr. rollu.
Eitthvað var farið að hristast upp í hjörðinni þegar mörkin bárust í hús og hálfgert kindakaos í sumum girðingunum. Einmana lamb sem jarmaði inní fjárhúsi var í snarhasti parað saman við lamlausa á inní girðingu. Rollan vildi kannski kannast við lambið í korter en var síðan búin að króa það af útí horni og farin að stanga það. Þá varð að hafa snör handtök, vippa sér inní girðinguna, bjarga lambinu, og reyna aftur að finna lamblausa á sem mögulega vildi taka það að sér. Þrátt fyrir að vera ofsa loðin og sæt eru lömbin galtóm í hausnum og álíta að allt sé móðir sín svo framarlega sem það standi í innan við meters radíus við þau í meira en hálfa mínótu, lítil hjálp í þeim.

Svona gekk þetta koll af kolli þar til að fjárgleggstu menn lögðu blessun sína yfir stóðið og töldu að rétt lamb væri undir hverri á. Þá tók við að elta blessuð lömbin uppi enn eina ferðina til að pota markinu í eyrun á þeim. Einnig þarf að marka þau uppá gamla mátann, þ.e klippa stykki úr eyrunum á þeim og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það vekur mikla lukku hjá ungviðinu.

Sauðburðurinn hefur þó gengið stórslysalaust fyri sig so far. Að vísu dóu tvær rollur frá afkvæmum sínum með stuttu millibili þannig að það voru tveir móðurleysingjar á svæðinu sem þurfti að finna stað í tilverunni. Annar móðurleysingin, gimburin Jósefína var búin að vera fjarri samfélagi kinda það lengi að hún vildi ekkert kannast við að tilheyra tegund sinni og leit á sjálfan sig sem hund. Sjálfsmynd dýra sem alast ekki upp hjá eigin tegund á það til að klofna. Þá taka húsdýrin með brotnu sjálfsmyndina yfirleitt upp identity frá öðrum húsdýrum, oftar en ekki hundum. Ég man eftir gæsaunga sem ólst upp á bænum fyrir nokkrum árum sem var sannfærð um að hún væri hundur. Hún gerði meira að segja klaufalegar tilraunir til að smala með hundunum. Sjáfsmyndaruglingurinn hjá gæsinni gerði það að verkum að henni datt t.d aldrei í hug að fljúga, þrátt fyrir að ótkutin ég (11 ára) hafi ítrekað kastað henni ofan af bagga til fá hana til að fljúga. Seinna meir lærði hún þó að fljúga og þá lét hún vera sitt fyrsta verk að fljúga mig niður. Síðan elti hún hundana á röndum og beit þá. Síðan lenti hún í slysi. Ég frétti seinna meir að hún hefði verið góð undir tönn.
Ég þakka þó mínum sæla fyrir það að hundarnir fóru aldrei að halda að þeir væru gæsir. Ég hef heldur aldrei séð t.d kött eða hund ruglast á tegundum, þannig að ég dreg þá ályktun að kettir og hundar hafi sterkari sjálfsmynd heldur en önnur húsdýr t.d kindur, gæsir og endur.



Nú mætti gjarnan spyrja, hvað sjáum við á myndinni að ofan? Eðlilegast væri að segja að þarna væri ég ásamt hundi og lambi, en úr því að lambið álítur sig hund, væri þá ekki hægt að segja að það væru tveir hundar á myndinni? Snýst þetta ekki allt um að samfélagið samþykki þá sjálfsmynd sem einstaklingurinn samsvarar sig með? Ef svo er, þá er ekki úr vegi að fullyrða að á myndinni að ofan sé ég ásamt tveimur hundum.


Hundur eður ei... móðurleysingjum þarf að brynna

fimmtudagur, maí 15, 2008

Einsleitni

Ég ætlaði að skrifa blogg um sveitina og birta krúttlegar myndir með. Eftir að ég las Morgunnblaðið í morgunn ætla ég að fresta sveitasögunni um eina færslu og fella nokkur tár á bloggið mitt í staðin.

Halldóra nokkur skrifar lesendabréf í Moggan í dag sem ber yfirskriftina Mín skoðun. Halldóra þessi er með Downs syndróm. Hún byrjar lesendabréfið á að kynna sig og segja örlítið frá sjálfri sér og högum sínum. Síðan segir hún frá grein sem hún las sem gerði hana bæði leiða og reiða. Grein sem fjallaði um eyðingu fóstra sem greinast með auka litning. Þ.e litningagalla sem bendir til Downs heilkennis.

Eðli málsins samkvæmt er Halldóra ekki sátt við eyðingu fóstra með Downs heilkenni. Í restinni af greininni færir hún rök fyrir því afhverju ætti ekki að eyða fóstrum með Downs syndróm. Með öðrum orðum; afhverju ætti ekki að eyða manneskjum eins og henni af yfirborði jarðar.

Nú er það gömul og ný klisja að minnihlutahópar þurfa sífellt að vera að verja tilvistarrétt sinn, en skrif Halldóru hafa fært þessa klisju uppá nýtt level. Tilvistarrétturinn í máli Halldóru er ekki myndlíking, eða tilvist sjálsmyndar, skoðanna, útlits ect, heldur actual tilvist!

Mikið óskaplega er það dapurleg hugsun að tiltekinn hópur í þjóðfélaginu skuli þurfa að horfa uppá umræður um raunverulegan rétt þeirra til að koma í heiminn. Og þessar umræður væru varla í gangi nema af því að umræddur hópur getur ekki varið sig sjálfur þann hátt sem talinn er gjaldgengur, þ.e skrifa í blöðin, koma fram í sjónvarpi, stofna þrýstihópa osfr. Í allri umræðunni um eyðingu fóstra með litningagalla hefur verið sneytt framhjá þeim sem eru í raun með litningagalla. Þetta gengur upp því umræddur hópur á erfiðara með að láta heyra í sér heldur en flestir aðrir í samfélaginu og skoðanir þeirra og tilfinningar eru ekki metnar af verðleikum. Einhverstaðar las ég nú í bók að það ætti að skoða allar hliðar málsins, en sú regla virðist ekki vera algild. Allavega ekki þegar rætt er um gildi lífsins og kúgun minnihlutahópa í velferðarsamfélagi.
Þetta heitir að níðast á minnimáttar og ég las það í sömu bók og ég las þetta með að skoða allar hliðar málsins, að níðingsháttur væri mjög ó-kúl og einginlega hrikalega leim.

Vá hvað mér þætti allavega æðislegt að lesa um debat hvort að ætti ekki að eyða lesblindum fóstrum í móðurkviði. Sparar sko helling af launum sérkennara og svo þyrftu foreldar mínir ekki að hafa eins mikið fyrir að berja í mig lærdóminn eins og raun varð.

Svona mál kalla fram einhverja illa lyktandi grænleita slepju í hausnum á mér. Hún myndast við tilteknar aðstæður þegar mér fynnst* samtíminn vera vaxinn mér yfir höfuð og orðaforðinn minn nær ekki að skilgreina ástandið.

Næsta færsla verður krúttleg sveitasaga. Myndskreytt.

* Þegar mér er mikið niðri fyrir skrifa ég sögnina "að finnast" með ypsiloni. Geðþóttasafstettning. Ég brýt normið. Kálið mér.

föstudagur, maí 09, 2008

blóðugt

Ef fer fram sem horfir mun ég líklega verða fyrsta stelpan á Íslandi sem deyr úr túrverkjum... ef ég skildi nú mögulega skríða í eðlilegt horf ætla ég norður á land um helgina og fylgjast með lömbum koma í heiminn. Mitt hlutverk mun verða að halda þeim meðan þau fá sitt fyrsta piercing, sem er ekki jafn ljóðrænt.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Þessi maður






Er með hátt í 900.000 krónur í laun frá borginni á mánuði. Byltingarherinn í breiðholti (ég og mamma) reiknuðum út að mr.Magnet þarf að vinna frá 8-18.30 alla vinnudaga vikunar og ca. 8-10 tíma aðra hvora helgi til að ná þeim vinnustundum sem embættin hans leggja á hann og borgin greiðir fyrir.

Ég hef ýmislegt um Jakob Frímann að segja og ætla ekki að fara að tíunda það hér. Ég legg það í dóm borgarbúa og lesenda að dæma hvort að manni sem býr til svona plötu umslög sé treystandi fyrir miðborginni.

mánudagur, maí 05, 2008

Bókasafnstíðindi.

Í gær breyttist mitt heittelskaða bókasafn í helvíti á jörð. Hingað til hef ég talið það stjórnlausa lukku að fá að vinna á bókasafni. Afgreiða bækur í ró og næði, raða upp titlum og fynna stöðugt nýtt lesefni til að glugga í. Lesa svo upp valda kafla fyrir samstarfsfólk mitt og flissa. Allt á lágtsemdu nótunum samt, því það má ekki tala á bókasöfnum. Ég vinn um helgar, þannig að oftar en ekki er ég létt þunn, á bömmer, með helgarfiðring eða nýt þess einfaldlega að eiga frítíma á launum fjarri heimili, skóla og miðbæ.

Í gær snérist paradísin uppí andhverfu sína. Ég vann á neðstuhæðinni sem deilir inngangi með náttúrufræðistofu Kópavogs. Í andyrinu var vídjólistaverk af svamlandi flóðhestum við undirleik strengjasveitar og furðulegrar raftónlistar. Þetta var síðan á loop í fjóra tíma. Flóðhestarnir voru svo sem ágætir þar sem þeir veltu sér uppúr drullu og geispuðu en undirleikurinn var einskonar Jean Michel Jarre gone wrong. Eftir 2 tíma var ég búin að fá yfir mig nóg, eftir 3 tíma var mig virkilega farið að langa að myrða einhvern og eftir 4 tíma hljóp ég á brott með tárin í augunum og beint undir sæng. Mig sveið í heilabörkinn marga klukkutíma á eftir.

Annars uppgötvaði ég það um helgina að ferill minn sem II.flokks bókavörður (ófaglærðir eru II.flokks á launaseðli) er ekki eins flekklaus og ég hélt. Ég hefi nefnilega gert mig seka um að mismuna fólki eftir kyni þegar ég vinn í barnadeild. Með öðrum orðum, þá mismuna ég foreldrum eftir kyni.

Sem bókavörður í barnadeild fæ ég oft fyrispurnir frá foreldrum varðandi lesefni barna þeirra. Ævintýri, myndabækur, léttlesið efni, vinsælar bækur, einfaldar bækur á öðrum tungumálum, vísur, unglingabækur, you name it.

Lesefnislega hef ég staðið mig eins og hetja. Ég sneiði framhjá öllum bókum um bleikar prinsessur sem fara í gegnum hrikalegt útlitlegt make-over til þess eins að eignast prinsa og Enyd Blyton hefur fengið að rykfalla uppí hillu meðan ég fæ einhverju ráðið. Einu sinni kom til mín faðir með unga dóttur sína sem hafði mikinn áhuga á dýrum. Hann spurði hvort að ég gæti ekki sýnt henni einhverjar dýrabækur, helst um kettlinga eða svoleiðis. Ég fór með þeirri stuttu á stjá og við plægðum í gegnum dýrabækurnar. Eftir að hafa skoðað alla kosti vandlega valdi hún sér stóra myndabók um risaeðlur og aðra um fiska. Ha! hváði pabbinn þegar sú stutta hafði valið sér bókakost. Voru ekki til neinar bækur um kettlinga?? Ég hló inní mér.

Hinsvegar kem ég fram við foreldra á mismunandi hátt eftir kyni. Ef ábyrgur faðir kemur með börnum sínum á afgreiðsluna og biður um lestrarbækur fyrir dóttur sína í
2.bekk stend ég upp og sýni honum bókakostinn. Sjáðu, bækurnar eru merktar á kilinum eftir getustigi, gulur, rauður og blár. Bláu bækurnar eru hér, gulu í hillunni þarna og þær rauðu til hægri við þær. Sé pabbin að leita af einhverju skemmtilegu eftir Guðrúnu Helgadóttur sýni ég honum allan rekkan og tek fram að seríurnar séu númeramerktar.

Komi aftur á móti móðir á safnið með son sinn (og hér þarf ég ekki að skrifa "ábyrg" því mæður eiga auðvitað að vera ábyrgar, það er í eðli þeirra)og biður samskonar bónar bendi ég henni bara á bókakostinn. Það eru leiðbeiningar allt um safnið um merkingar og ég geri ráð fyrir að móðirinn kunni þetta bara eða sé fær um að lesa úr umhverfinu hvernig er best að bjarga sér. Viti hvernig lesefni hæfir hverjum hóp og þurfi ekki aðstoðar við. Sé útlærð í barnauppeldi og þ.a.l viti allt um barnabækur. Eitthvað sem ábyrgi pabbinn viti ekki og þurfi því leiðsagnar við. Ég sturlaðist af bræði útí sjálfa mig þegar ég komst að þessu. Nú fer ég milliveginn og álýt að foreldrar séu kynlausir.

Annars segir pabbi að þjónustuferlinu sé öfugt farið í raftækjaverslunum. Ég trúi honum alveg.

föstudagur, maí 02, 2008

Skilmisingur lífs míns.

Eftir vel heppnaða 1.maí göngu afhjúpaðist misskilningur lífs míns á veitingahúsinu Vegamótum á meðan ég borðaði sjávarrétta eitthvað af alltof litlum diski. Miskilingurinn fólst í því að ég hefi víst aldrei lært að nota hnífapör rétt.

Misskilingurinn afhjúpaðist þanning: Eitthvað gekk mér brösulega að matast þarna á Vegamótum, maturinn hrundi af gafflinum og allt fór í óttalega kássu. Sessunautur minn fylgdist með og hlustaði á mig röfla þar til að hún sagði; ,,Já en Hafdís, afhverju notar þú ekki gaffla-fúnksjónina í gafflinum?" Ha! hváði ég. Ég er að nota gaffalinn!!
Nei, sagði sessunautur. Þú notar gaffalinn eins og skeið, mokar uppá hann matnum og svo hrynur hann allur af því þú ert svo skjálfhent. Það er miklu betra að þræða matinn uppá gaffalinn, til þess er hann hannaður.

...og heimurinn hrundi. 23 ára og hefur ekki masterað notkunn hnífapara. Ég skil ekki hvernig svona getur gerst á 21.öldinni. Er ekki alminnilegt velferðarkerfi hér á landi eða hvað? Hvernig gat þetta átt sér stað.
Eftir að ég komst yfir sjokkið og æft mig að nota gaffal á nýjan og áhrifaríkari hátt fór ég að hugsa um alla hina földu vankanta sem ég á líklega í fórum mínum. Ég veit ég er ekkert sérstaklega góð í að skilja hægri/vinstri hugtökin og þarf yfirleitt smá umhugsun í slíkum tilvikum, (en ég er þeim mun betri að nota áttirnar) en líklega er enn einhver forskóla þekking sem ég bý ekki enn yfir. Mig hrýs hugur við tilhugsunina eina saman. Ef lesendur vita af einhverjum slíkum má viðkomandi senda mér hljóðlega meil og ekki segja neinum frá því.


Svona á að nota gaffal. Stinga honum í matinn, þræða hina ýmsu bita af diskum upp hann og stinga síðan upp í munn. Gafall er sem sé gerður fyrir lóðrétta notkunn ekki lárétta. Ég ætla að biðjast undan öllum matarboðum á næstunni, eða þar til að ég hef náð fullkomun tökum á lóðréttri göfflun.