Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

sunnudagur, september 25, 2011

Fjallarómans


Á laugardaginn fór ég í mína fyrstu Alpaferð. Ég hef alltaf haft afar rómantískar hugmyndir um Alpannna sem hafa örugglega eitthvað að gera með linnulaust áhorf á Heidi í æsku. Að vísu sá ég engar ljóshærðar hnátur með fléttur sem áttu heima í fjallakofa og þeim mun færri geitur en að því unanskildu var þetta allt saman hið krúttlegasta.

Samfeðakonur mínar vildu hinsvegar meina að þetta væru nú engir sérstakir Alpar, bara svona smá upphækkun og engin ástæða til að fara á límingunum, en þar sem tindurinn sem við klifum var í um 2500 metra hæð fannst mér ástæðulaust til að vera hógvær yfir afrekinu og tók ekki annað í mál en að kalla þetta Alpa. Það tók um fimm tíma að klöngrast allaleið upp snarbrattan tindinn og allar hugmyndir um rómantískar gönguferðir í fjalllendi gufuðu snarlega upp í svitakófi og aumum fótum. Ég sá sárlega eftir því að hafa skilið gönguskóna mína eftir heima því að Conversskór eru vita vonlaus fótabúnaður í fjallaferð. Þegar við áttum um hundrað metra eftir ófarna tók við tuttugu metra hátt klettabelti með tilheyrandi klifri, eða brölti öllu heldur. Tilburðirnir voru nú ekkert of glæsilegir hjá undirritaðri. Miðjavegu í klettabeltinu var ég vör við einhverja hreyfingu á nálægri klettaskyllu. Og viti menn, birtist ekki þessi huggulega slanga rétt við höndina á mér og gerði sig líklega til að slöngva sér (eða hvað gera annars slöngur, varla labba þær né skríða, til þess þarf fætur) óþægilega nálægt hægri höndinni minni. Ekki gat ég sleppt takinu því þá hefði ég runnið á rassin niður klettaspunguna sem hefði líklega haft mar og hugsanlegt beinbrot í för með sér, en ég mig langaði samt afar takmarkað til að stofna til náinna kynna við slönguófétið, þótt lítil væri. (svona um fimmtíu cm). „Hafð ikki áhyggjur ´skan!“ galaði ein samferðakonan til mín, „Þetta er bara ungviði, þær geta alveg orðið þrír metrar þessar og þær bíta eiginlega aldrei. Svo getur þetta ekkert bitið hvort eð er“! Mér fannst þetta ekki alveg nógu uppörvandi og hékk frosin í mjög afkáralegri stellingu og vonaði að slöngumamma væri víðs fjarri. Sem betur fer lét ungviðið sér nægja að hissa letilega í áttina að mér og hvarf svo í nærliggjandi gjótu. Ég þaut upp restina af klettunum á ljóshraða á meðan samferðakonurnar skiptust á slöngusögum og hlóu að mér. (Mannstu þegar þú fannst þessa stóru í bakpokanum þínum í páskaferðinni ´98? Ha! Jiii, hvað það var fyndið.)

Þegar upp var komið tók við háslétta með útsýni til allra átta. Þar blöstu við mér hinir „raunverulegu“ Alpnar. Tröllvaxinn fjallgarður sem reis upp í vesturátt. Fyrir utan að fyllast hefðbundinni lotningu yfir slíkri náttúrufegurð örlaði einnig á hálfgerðum pirringi af minni hálfu. Samkvæmt mínu íslenska brjóstviti skilar fimm tíma fjallganga (og hér má bæta við að ég geng ekki á fjöll, ég arka) manni yfirleitt upp á hæstu nærliggjandi tinda og lítil ástæða til að finna til smæðar sinnar en í þessu tilfelli náði ég rétt svo að komast í tæri við stóru fjöllin eftir allt puðið. Ég steytti hnefann í áttina að Ölpunum í huganum og lofaði mér að næst færi ég lengra, jafnvel þó að ég þyrfti að vaða slöngur upp að hnjám.

Upp á hásléttunni var fjallakofi og ef ég pírði augun gat ég séð glitta í annan fjallakofa í fjarskanum. Samferðakonurnar uppfræddu mig um að þessi hluti „míní“ Alpanna væri varður fjallakofum og það væri í raun hægt að ganga dögum saman frá kofa til kofa. Eftir að ég sá mat og drykkarseðilinn í kofanum varð sú tilhugsun alls ekki óaðlaðandi. Bjórúrvalið þætti til prýði á íslenskum bar og jafnvel þó að ég hafi mínar efasemdir um miðevrópskan mat sem er yfirleitt saltur,feitur og djúpsteiktur var hann afar girnilegur eftir allt puðið. Ég fannst viðeigandi að pannta mér mitt fyrsta snitzel síðan ég kom til Austurríkis og kjamsaði á djúpsteiktum herlegheitunum með Alpanna í bakið og víðáttuna í fangið. Ég hefði þó betur látið bjórinn vera. Ég fann á mér undireins, fékk rautt nef, byrjaði að hiksta og var örlítið reikul í spori á niðurleiðinni. Til allar guðs lukku römbuðum við fljótlega á kláf sem húrraði okkur niður á bílastæði en þá var kvótinn fyrir náttúruupplifun búinn. Ég steinsofnaði um leið og ég settist niður og hraut alla leiðina heim.

Enn og aftur endurreisn...

Ég byrjaði að blogga árið 2003. Þetta var fyrir tíma fésbókar, twitter, mæspeis og hvað þetta heitir nú allt og flest rafræn samskipti fóru fram í gegnum ímeil. Ég man að á þeim tíma spruttu blogg eins og gorkúlur útum allt net og flestir sem þekkti blogguðu. Mis mikið og mis lengi þó. Ég sá alltaf svolítið eftir blogg æðinu eftir að fésbókin tók við sem alsherjar samskiptamógúll, þar sem mér þóttu bloggin í raun mun skemmtilegri, þótt að þau væri færri og ekki uppfærð jafn oft. En Fésbókin tók yfir hægt og rólega með sínu gríðar mikla flæði af upplýsingum og fréttaveitu.

Ég hef tekið mér margar og langar bloggpásur, en hef í raun aldrei gefið bloggið upp á bátin og mér dytti ekki í hug að eyða því þrátt fyrir að sum vitleysan frá því að ég var 18 ára væri líklegast best gleymd. Samfara blogg pásunum liggur í hlutarins eðli að þeim fylgi endurvakning og nú er komið að einni slíkri...

föstudagur, febrúar 19, 2010

Hah! úr því að ég man ennþá passwörtið fer ég kannski aftur að blogga

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Hóflegt og látlaust.

Óskarsverðlaunahátíðin í ár var víst hógvær og látlaus, sögðu fjölmiðlarnir. Sökum yfirstandandi efnahagsþrenginga ákvað akademían sem og hollívúdd jet-setið að sýna lit með því að sýna minni lit en venjulega. Rauði dregilinn var syttur um nokkra metra og aðeins dumbrauðari en venjulega, kjólarnir voru svartir og "yfirbragðið hið látlausasta" svo ég vitni í einn vef-miðilinn.
Síðasta látlausa óskarsverðlaunahátíð var að mig minnir 2003 eða 2004, þegar Íraksstríðið var í hámæli. Þá þótti við hæfi að vera hógvær framkomu og látlaus í klæðaburði til að minnast þeirra sem féllu í stríðinu. Það fór svo eftir pólitískum smekk hvers og eins hverra megin samúð þeirra lá. En það er önnur saga.

Ætli þeim í kvikmyndaakademíuni hafi aldrei dottið í hug að taka hógværðina og látleysið alla leið og láta steypa kvennstyttur úr bronsi til að afhenta á annus horribilis hátíðum?

fimmtudagur, október 30, 2008

Eitt samsæri á dag kemur skapinu í lag

Sko, krakkar! Við skulum ekkert vera hissa á því að hér sé allt farið til fjandans. Málið er nefnilega það að valdaelítan á Íslandi er demónísk, nátengd djöflinum og hefur verið það um aldur og ævi.

Viljiði sönnun?

Framan á þinghúsinu okkar er letrað ártalið 1881 stórum stöfum. Þversumman af þessu ártali er 18, sem er margfeldi af 3x6, eða þrjár sexur 6 6 6 sem er einmitt tala djöfulsins. Til að undirstirka það þá eru líka þrjár sexhyrntar stjörnur á milli tölustafana í ártalinu, þ.e 1*8*8*1 og þar birtist aftur sama tilvísunin í 666.

Ég tísti af kátínu þegar ég las þetta á kristinni heimasíðu fyrr í dag. Pistlahöfundur var ákaflega innblásin af Dan Brown of fannst honum hafa heiminn höndum tekið. Málstaðurinn í greininni var að benda á djöfulleg einkenni mustera mammons (opinberra bygginga) og færði hann meðal annars sönnur fyrir því að höfuðstöðvar EB í Brussel væru byggðar eins og Babelsturninn. Ég myndi linka á greinina ef hún hefði ekki verið tekin af netinu fyrr í dag.

Megi þessi óguðlegi fróðleikur fylgja ykkur inní Hrekkjavöku og allraheilagramessu helgina.

þriðjudagur, október 28, 2008

Kreppuhjalið er orðið svo yfirgnæfandi að það er búið að grafa sig varanlega inní heilabörkinn á mér. Í nótt dreymdi mig að ég væri fundarritari á inngöngufundi Íslands í Evrópubandalagið. Draumnum lauk með því að ég reiddist einum stjórnmálamanni svo mikið að ég sleit upp lyklaborðið og lamdi hann í hausinn.
Ég var grautfúl þegar ég vaknaði, því venjulega tekst mér að flýja raunveruleikan í draumheimum.

þriðjudagur, október 21, 2008

Þeir segja víst að kreppan verði tími afreka á sviði andans. Þessi orðrómur af götunni var staðfestur í lesbók Morgunblaðsins um helgina. Nú getum við bara setið með hendur í skauti og beðið. Meistaraverkin munu von bráðar hrúgast inn, því svo mælir söguleg efnishyggja. Úr öskustónni mun alltaf rísa nýr fönix.
En fyrst þarf að ganga af krúttkynslóðinni dauðri. Hún var afsprengi góðæris sem fæddist í borg Davíðs og nú er hennar tími búinn.

óskapleg sjálfhverfa er þetta að þurfa sífellt að vera að horfa í spegill í stæsta (eina) dagblaði þjóðarinnar og spyrja sjálfan sig "Hver er ég" Horfa svo í augun á næsta manni í röðinni á klósettið á barnum og spyrja "Hver ert þá þú?" Ég held að það þurfi leita aðeins dýpra og annað en í yfirborðið á eigin veruleika ef ætlunin er að skapa þúsund ára ríki andlegrar útópíu á Íslandi, úr því að draumurinn um bakna útópíuna og ríkasta land í heimi (sbr, titill á einni af bókum Hannesar H.Gissurarsonar) fuðraði upp í innistæðulausum millifærslum.

Ég hef alltaf haft horn í síðu samtíðarfólks míns fyrir hina óskaplegu þrá til að skapa sér eigin kynslóð, kúltúr og menningarkima til að tilheyra. Kúltúrinn hefur í rauninni aldrei þrifist nema á pappírnum og þá í þeirra eigin skrifum um sjálft sig og bloggin hjá vinum sínum. Þau munu líklega halda áfram að elta sitt eigið skott þar til þeim sortnar fyrir augun á Kaffibarnum. Síðan má jú alltaf vona að einhver ranki við sér, finni sér annan bar og haldi partýinu gangandi.

mánudagur, október 20, 2008

Það er til svo mikið af sturlun í heiminum....

Til dæmis þetta hér

furðulegt að stærsti vef-miðill landsins skuli leggja nafn sitt við það.


Hugmyndin um heimsendi í nálægri framtíð er samt ágæt dægradvöl til að velta sér uppúr þegar maður hefur ekkert betra að hugsa um. Mér finnst samt kreatívara og skemmtilegra að nota si-fi þannkagang sem útgangspunkt heldur en refsivönd guðs.
Og ólíkt henni Vopna-Rósu (sem er uppáhalds and-hetjan mín í netheimum)trúi ég ekki á heimsendi í náinni framtíð, hvort sem það er CERN krádið eða himnafaðirinn.

og úr því að ég er komin á þessar slóðir ætla ég að birta mynd af barnastarfinu í Krossinum...þar er greinilega líf og fjör.

(mynd fengin af heimasíðunni krossinn.is)

Tíu sig fyrir þann sem fattar samlíkinguna við ákveðna heimildarmynd.