Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

sunnudagur, september 25, 2011

Fjallarómans


Á laugardaginn fór ég í mína fyrstu Alpaferð. Ég hef alltaf haft afar rómantískar hugmyndir um Alpannna sem hafa örugglega eitthvað að gera með linnulaust áhorf á Heidi í æsku. Að vísu sá ég engar ljóshærðar hnátur með fléttur sem áttu heima í fjallakofa og þeim mun færri geitur en að því unanskildu var þetta allt saman hið krúttlegasta.

Samfeðakonur mínar vildu hinsvegar meina að þetta væru nú engir sérstakir Alpar, bara svona smá upphækkun og engin ástæða til að fara á límingunum, en þar sem tindurinn sem við klifum var í um 2500 metra hæð fannst mér ástæðulaust til að vera hógvær yfir afrekinu og tók ekki annað í mál en að kalla þetta Alpa. Það tók um fimm tíma að klöngrast allaleið upp snarbrattan tindinn og allar hugmyndir um rómantískar gönguferðir í fjalllendi gufuðu snarlega upp í svitakófi og aumum fótum. Ég sá sárlega eftir því að hafa skilið gönguskóna mína eftir heima því að Conversskór eru vita vonlaus fótabúnaður í fjallaferð. Þegar við áttum um hundrað metra eftir ófarna tók við tuttugu metra hátt klettabelti með tilheyrandi klifri, eða brölti öllu heldur. Tilburðirnir voru nú ekkert of glæsilegir hjá undirritaðri. Miðjavegu í klettabeltinu var ég vör við einhverja hreyfingu á nálægri klettaskyllu. Og viti menn, birtist ekki þessi huggulega slanga rétt við höndina á mér og gerði sig líklega til að slöngva sér (eða hvað gera annars slöngur, varla labba þær né skríða, til þess þarf fætur) óþægilega nálægt hægri höndinni minni. Ekki gat ég sleppt takinu því þá hefði ég runnið á rassin niður klettaspunguna sem hefði líklega haft mar og hugsanlegt beinbrot í för með sér, en ég mig langaði samt afar takmarkað til að stofna til náinna kynna við slönguófétið, þótt lítil væri. (svona um fimmtíu cm). „Hafð ikki áhyggjur ´skan!“ galaði ein samferðakonan til mín, „Þetta er bara ungviði, þær geta alveg orðið þrír metrar þessar og þær bíta eiginlega aldrei. Svo getur þetta ekkert bitið hvort eð er“! Mér fannst þetta ekki alveg nógu uppörvandi og hékk frosin í mjög afkáralegri stellingu og vonaði að slöngumamma væri víðs fjarri. Sem betur fer lét ungviðið sér nægja að hissa letilega í áttina að mér og hvarf svo í nærliggjandi gjótu. Ég þaut upp restina af klettunum á ljóshraða á meðan samferðakonurnar skiptust á slöngusögum og hlóu að mér. (Mannstu þegar þú fannst þessa stóru í bakpokanum þínum í páskaferðinni ´98? Ha! Jiii, hvað það var fyndið.)

Þegar upp var komið tók við háslétta með útsýni til allra átta. Þar blöstu við mér hinir „raunverulegu“ Alpnar. Tröllvaxinn fjallgarður sem reis upp í vesturátt. Fyrir utan að fyllast hefðbundinni lotningu yfir slíkri náttúrufegurð örlaði einnig á hálfgerðum pirringi af minni hálfu. Samkvæmt mínu íslenska brjóstviti skilar fimm tíma fjallganga (og hér má bæta við að ég geng ekki á fjöll, ég arka) manni yfirleitt upp á hæstu nærliggjandi tinda og lítil ástæða til að finna til smæðar sinnar en í þessu tilfelli náði ég rétt svo að komast í tæri við stóru fjöllin eftir allt puðið. Ég steytti hnefann í áttina að Ölpunum í huganum og lofaði mér að næst færi ég lengra, jafnvel þó að ég þyrfti að vaða slöngur upp að hnjám.

Upp á hásléttunni var fjallakofi og ef ég pírði augun gat ég séð glitta í annan fjallakofa í fjarskanum. Samferðakonurnar uppfræddu mig um að þessi hluti „míní“ Alpanna væri varður fjallakofum og það væri í raun hægt að ganga dögum saman frá kofa til kofa. Eftir að ég sá mat og drykkarseðilinn í kofanum varð sú tilhugsun alls ekki óaðlaðandi. Bjórúrvalið þætti til prýði á íslenskum bar og jafnvel þó að ég hafi mínar efasemdir um miðevrópskan mat sem er yfirleitt saltur,feitur og djúpsteiktur var hann afar girnilegur eftir allt puðið. Ég fannst viðeigandi að pannta mér mitt fyrsta snitzel síðan ég kom til Austurríkis og kjamsaði á djúpsteiktum herlegheitunum með Alpanna í bakið og víðáttuna í fangið. Ég hefði þó betur látið bjórinn vera. Ég fann á mér undireins, fékk rautt nef, byrjaði að hiksta og var örlítið reikul í spori á niðurleiðinni. Til allar guðs lukku römbuðum við fljótlega á kláf sem húrraði okkur niður á bílastæði en þá var kvótinn fyrir náttúruupplifun búinn. Ég steinsofnaði um leið og ég settist niður og hraut alla leiðina heim.

Enn og aftur endurreisn...

Ég byrjaði að blogga árið 2003. Þetta var fyrir tíma fésbókar, twitter, mæspeis og hvað þetta heitir nú allt og flest rafræn samskipti fóru fram í gegnum ímeil. Ég man að á þeim tíma spruttu blogg eins og gorkúlur útum allt net og flestir sem þekkti blogguðu. Mis mikið og mis lengi þó. Ég sá alltaf svolítið eftir blogg æðinu eftir að fésbókin tók við sem alsherjar samskiptamógúll, þar sem mér þóttu bloggin í raun mun skemmtilegri, þótt að þau væri færri og ekki uppfærð jafn oft. En Fésbókin tók yfir hægt og rólega með sínu gríðar mikla flæði af upplýsingum og fréttaveitu.

Ég hef tekið mér margar og langar bloggpásur, en hef í raun aldrei gefið bloggið upp á bátin og mér dytti ekki í hug að eyða því þrátt fyrir að sum vitleysan frá því að ég var 18 ára væri líklegast best gleymd. Samfara blogg pásunum liggur í hlutarins eðli að þeim fylgi endurvakning og nú er komið að einni slíkri...