Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

mánudagur, september 29, 2008

Heimsósómi á mánudegi III

Ég vatt mér inní Eymdunson um helgina og skoðaði nýjustu bækurnar sem nú fara að hrannast inn fyrir jólabókaflóðið. Mér til mikillar armæðu er sjálfshjálpar litteratúrinn alsráðandi og mér kæmi ekkert á óvart ef sjálfshálparbækur yrðu yfir helgmingur af öllum þýddum bókum innan fárra ára. Sem betur fer eru íslenskir höfundar aftarlega á merinni og halda ennþá að glæpasögur séu the new black og hafa ekki enn snúið sér að ritun fimmaura sálfræði að neinu ráði.

Í fyrra kom út bók sem heitir Franskar konur fitna ekki. Undirtitillinn sem fylgdi var eitthvað á þá leið að franskar konur borðuðu en fitnuðu ekki því þær borðuðu svo lítið Nú er komin út bókin Japanskar konur eru grannar og hraustar. Undirtitill: Í Japan er offituhlutfall kvenna það lægsta í heiminum, 3% Þessum bókum er stillt upp hlið við hlið í Eymundsson í Austurstætinu og verða örugglega seldar tvær fyrir eina á útsölu. Ég veit ekki alveg hversu mikil sjálfshjálp er fólgin í því að ala á minnimáttarkennd, en mögulega er hér um öfuga sálfræði að ræða. Í rauninni stendur mér samt nokk á sama.

Ég er að pæla í að skella í bók fyrir næsta fólajólafljóð og hún á að heita:
Íslenskar konur eru stútfullar af transfitusýrum og kólestróli en ég elska þær samt

miðvikudagur, september 24, 2008

Stjörnustríð

Dæmi um nöfn á uppskriftum úr Starwars Cookbook:

Yoda Soda
Han-burgers
Darkside Salsa
Wookie Cookies

ég held ég ætli að bjóða í mat fljótlega.....

mánudagur, september 22, 2008

Hanna, Gústaf og Ike

Það er reimt í herberginu mínu. Um daginn fór ég að heyra undarlegt hátíðnisuð í einu horninu. Ég kannaðist við hljóðið og eftir að hafa leitað vandlega í öllum hljóðskrám í hausnum á mér komst ég að því að hátíðnisuðið í S-A horni kjallarans er ekki ósvipað því hvernig hvín í háspennulínum í roki. Samfara þessu hafa raftæki í kjallaranum farið að hegða sér undarlega. Síminn minn gat ekki ákveðið sig hvort hann væri hlaðinn eða ekki og sendi frá sér hver skilaboðin á fætur öðru um að hann væri annaðhvort galtómur eða fullhlaðin. I-podin minn kveikti skyndilega á sér og spilaði fyrir mig skadinavíska popptónlist og svona mætti lengi telja. Allar þessar uppákomur eiga sér stað á meðan hvín og syngur í S-A horninu.

Til að bæta gráu ofan á svart er ég farin að sofa verr en ellegar. Ég er þeirri náðargáfu gædd að sofna yfirleitt um leið og ég legg höfuð á kodda, en undanfarið hef ég legið og starað uppí loftið klukkutímum saman áður en ég festi svefn. Draumalandið er mun blóðugra en venjulega og um daginn vaknaði ég við eigið óp. Botninn tók svo út þegar mér fannst ég finna fyrir einhverjum við hliðinna á mér í rúminu og skildi ekkert í afhverju mamma eða einhver annar fjölskyldu meðlimur sævi í rúminu mínu. Tilfinningin var svo sterk og greinileg að mér fannst ég finna fyrir allri snertingu og heyra andardrátt. Þegar ég snéri mér við til að athuga hver þetta væri, var þar auðvitað ekki neinn. Þá rak ég upp vein.

Á síðustu viku hef ég sem sagt orðið svo bylt við í eigin kjallara að ég hef rekið upp samtals 2 vein og þrisvarsinnum hef ég staðið á öndinni.
Ég nenni samt ekki að verða móðursjúk og ég kenni rokinu undanfarna daga um þetta allt.

Í kvöld ætla ég að horfa á myndir sem ég er búin að ætla að horfa á lengi, shooting fish, story telling og persona. Ég á allt eins von á því að sogast inní sjónvarpið, eins og í Poltergeist og verða ærsladraugur. Ég tilkynni hér með, að ef svo verður mun ég ásækja ykkur öll....

mánudagur, september 15, 2008

Þegar ljósmæður fara í verkfall....



er ekki skrýtið að óskabarn þjóðarinnar deyji. Til að sporna við kreppunni (sem ég hef hingað til talið merkingalaust hjal)hef ég ákveðið að smyrja mér nesti í skólan þar til að erlendir markaðir fara að rétta úr kútnum.

sunnudagur, september 14, 2008

1998

Á krárarrölti helgarinnar rambaði ég á æskuástinna frá síðastliðnni öld. Ég stóð í makindum mínum fyrir utan skemmtistað með vinkonu sem langaði að finna sér strák til að fara í sleik við, þegar ég sá kunnulegt andlit í mannhafinu. Næstu klukkutímar urðu hálf súrrealískir.
Æskuástin veinaði upp yfir sig, olbogaði sig í gegnum þvöguna og heilsaði mér með virktum. Hún var með áfengisglampa í augum, reikul í spori og búin að missa nokkrar skrautfjaðrir frá því síðast, en engu að síður heillandi. Svo teymdi hún mig á barinn og við fórum að rifja upp gamla tíma. Hvað annað getur maður gert þegar maður hittir manneskju sem maður hefur ekki séð í rúman áratug og veit ekki nokkrun skapaðan hlut um annað en það sem facebook segir manni?

Nostralgían náði samt hvorki langt né djúp, og ekki náðum við að ræða samtíman að neinu viti því æskuástin þurfti sífellt að rjúfa samræðurnar til að tilkynna mér hvað ég væri æðisleg og ausa á mig lofi. Ég er nú ekki svo mikill þumbi að mér hafi aldrei verið hrósað, en yfirgengislega lofræðan sem dundi á mér næsta klukkutíman tók út fyrir allan þjófabálk. Mikið óskaplega hefði ég samt notið þess að fá að heyra þessi orð fyrir áratug síðan, en ég geri mér grein fyrir að þá voru aðstæður aðrar. Undir lokin voru aðstæðurnar orðan hálf pínlegar fyrir mig því að æskuástin var farin að sannfæra nærstadda gesti um ágæti mitt á meðan ég ranghvolfdi í mér augunum og bölvaði vinkonunni sem ég kom með upphaflega fyrir að vera stungin af ofan í kokið á einhverjum stráksa. Þá kvaddi ég og lofaði öllu fögru um kaffihúsaferðir og áframhaldandi upprifjun á gömlum tímum. Fat chance....

Ég hafði samt lúmst gaman af þessu og þegar ég rölti heim frann ég fyrir sterkri meirimáttarkend, sem er tilfinning sem bærist sjaldan í mínu brjósti.

fimmtudagur, september 11, 2008

Til ykkar sem kunnið á tölvur

Ég er í bobba og nethjálp microsofts virðist ekkert getað aðstoðað mig.

Málið er svona: Ég er með skjal uppá 35 blaðsíður sem ég var að fá úr prófarkalestri. Síðan sendir höfundur skjalsins mér sínar eigin leiðréttingu á skjalinu og segist hafa lagað ,,Ýmislegt smálegt, orðaröð og bætt inn einstöku útskýringum" Get ég fengið Word til að bræða skjölin saman og benda mér á hvar skilur á milli? Höfundurinn notaði nefnilega ekki track changes í þegar hann sendi mér leiðréttingarnar þannig að til þess að sjá þær þyrfti ég að leggjast grundigt yfir báða textanna, orð fyrir orð. Því vildi ég gjarnan komast hjá.

Til að bæta gráu ofan á svart bilaði messengerinn minn og þar með samband við mér tölvufróðari menn og konur. Þeir sem vita hvaða word fítus ég er að tala um, endilega hendiði inná kommentakerfið, annars veður þessi lestur helgarhobbíið mitt og því nenni ég hreinlega ekki.

Á gufunni er verið að spila Somewhere over the rainbow með dönskum texta. Stundarkorni síðar hljómaði Hit the road, Jack á sænsku. Að læra við eldhúsborðið heima á fallegum haustdegi er stórkostlega vanmetið.

mánudagur, september 08, 2008

Hvar bjó ég??

Vísir.is segir frá vaxandi spennu milli glæpagengja í Kaupmannahöfn í dag. Samkvæmt fréttini eru fimm til sex glæpagengi farin í hár saman og skjóta hvort á annað þegar tækifæri gefst. Meðal þeirra glæpagengja sem talin eru upp í fréttinni er ,,hin alræmda Blågårds-plads klíka". Í minni Kaupmannarhafnartíð hékk ég mikið á Blågårds-plads. Það er rólegt og kósí torg inní Norðurbrú og þar var m.a nepalskur veitingastaður sem seldi hræ ódýran mat. Ég átti drykkuvini sem bjuggu í hálfgerðri kommúnu þarna rétt hjá og eyddi ófáum kvöldum þar. Síðan hjólaði ég heim, yfir áðurnefnd Blágardspláss og stundum settist ég þar niður og fékk mér eina sígó og valdi playlista á i-podinum mínum áður en ég hjólaði mína 5 kílómetra í úthverfið mitt. Aldrei man ég eftir að hafa orðið vör við glæpastarfsemi þar, eða bara í Kaupmannahöfn yfirhöfuð. Að vísu varð ég líkja mjög hissa þegar ég las í Metro einn morgun að maður hefði verið afhöfðaður á Gammel Kongvej, sem var hjólaleiðin mín, nokkrum mínútum eftir að ég hjólaði þar fram hjá.

Ég held að þessi saga sanni það sem mig hefir svo sem lengi grunað. Ég er fáránlega blind á mitt nánasta umhverfi og er líklega ekki fær um að meta aðstæður rétt. Samt sem áður er ég viss um að það sé einmitt þetta ingnorance sem reddi mér alltaf fyrir horn. Á öllum mínum þvælingi um dimmar borgir seint um nótt hef ég aldrei lent í neinu böggi og það hefur aldrei hvarlað að mér að ég væri ekki örugg. (7-9-13)
Foreldrar mínir spyrja mig reglulega um hvort ég sé ekki alltaf að verða vitni af hærðilega ofbeldinu í 101 Rvík sem þau lesa um í blöðunum á mánudögum. Nei, segi ég, af fullri hreinskilni. Á öllum mínum bar nóttum í bæjnum held ég að ég hafi séð innan við 5 slagsmál. Þetta segir líka kannski sitt hvað um þá staði sem ég sæki og þá staði sem ég sæki ekki.

Ég veit að þetta er brothætt heimsmynd sem á líklega eftir að splundrast fyrr eða síðar, en þangað til; ingnorance is blizz!

sunnudagur, september 07, 2008

Réttir


Því miður ákvað minniskortið í myndavélinni okkar að bila þannig að ég gat ekki tekið neinar myndir í réttunum. Þess í stað læt ég fylgja með mynd af mér í þessum sömu réttum þegar ég var 11 ára. Myndin birtist í Bændablaðinu.

Réttahöldin voru skemmtileg að venju. Við drógum hátt í 700 fjár í dilka og svo rákum við alla hersinguna heim. Um það bil helmingurinn af þessum 700 rollum sá sér ástæðu til að stanga mig og ég er búin að telja meira en 40 marbletti fyrir neðan mitti. Þeir stæstu hafa runnið saman í eitt meiginland sem þekur innanverð lærin á mér. (Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvernig það má til, þá eru rollur dregnar í dilka með því að standa klofvega yfir þeim, grípa í horn eða reifi og mjaka þeim áfram. Fæstar rollur eru hrifnar af þessu fyrirkomulagi og brjótast um á hæl og hnakka.)Auk hefðbundins hornapots letni ég líka í tveimur brútal árásum sem skiluðu um 5-6 marblettum hvor. Ef ég lít á sjálfa mig í spegli dettur mér helst í hug að þarna sé á ferðinni kona sem hafi lent í frekar grófu ofbeldi. Í fyrsta skipti á ævinni er ég hálf feimin við að berhátta mig í almenningsbúningsklefum og skammast mín fyrir hvernig ég lít út án fara.

mánudagur, september 01, 2008

Vefarinn litli frá Kasmír

Fyrir nokkrum árum fóru köngulær að venja komu sína í eldhúsgluggan heima. Þar sem köngulær eru ekki uppáhaldsdýr fjölskyldunnar var þessum komum tekið með varúð til að byrja með. Í hittífyrra gerðum við móðir munnlegan málefnasamning við köngulóna sem spann vefinn sinn það árið. Hún mætti eiga gluggan utanfrá, en ef hún svo mikið sem færði einn fót inní eldhús myndi hún gjalda þess með lífi sínu. Köngulóin hefur staðið við sinn hluta samningsins (þetta eru víst svokallaðar klettaköngulær, en þær leita ekki inní mannabústaði) og við höfum staðið við okkar. Í fyrra gaf ég henni nafn og heitir hún nú Vefarinn litli frá Kasmír. Vefarinn hefur með tímanum orðið einskonar gæludýr fjölskyldunar. Við fylgjumst með honum spinna vefin sinn á meðan við hrærum í pottum og hnoðum deig og þegar hann veiðir flugu safnast öll fjölskyldan saman og fylgist með þegar bráðin er vafinn inn og étin. Vefarinn hefur braggast vel í sumar og er orðinn feitur og pattaralegur. Um daginn át hann heila hrossaflugu á innan við tveimur mínótum. Geri aðrir betur.

Það vottar meira segja á umhyggju fjölskyldunar í garð vefarans. Eldhúsglugganum er alltaf lokað með varúð (einu sinni skellti ég honum aftur í fáti og grey vefarinn hrundi niður úr vefnum) Eftir rigningardaga eða strom er það mitt fyrsta verk að athuga hvernig vefarinn hafi það. Eldhúsglugginn stendur vel að vígi gagnvart veðri og vindum og vefarinn kúrir yfirleitt útí horni á meðan veðrið gengur yfir.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn fyrir hlýjum tilfinningum í garð einhvers sem hefur fleiri en fjóra fætur. Ég á eftir að sakna vefarnas í vetur og hlakka til að hitta hann aftur næsta sumar.


Vefarinn í allri sinni dýrð


Ég og gæludýrið mitt