Heimsósómi á mánudegi III
Ég vatt mér inní Eymdunson um helgina og skoðaði nýjustu bækurnar sem nú fara að hrannast inn fyrir jólabókaflóðið. Mér til mikillar armæðu er sjálfshjálpar litteratúrinn alsráðandi og mér kæmi ekkert á óvart ef sjálfshálparbækur yrðu yfir helgmingur af öllum þýddum bókum innan fárra ára. Sem betur fer eru íslenskir höfundar aftarlega á merinni og halda ennþá að glæpasögur séu the new black og hafa ekki enn snúið sér að ritun fimmaura sálfræði að neinu ráði.
Í fyrra kom út bók sem heitir Franskar konur fitna ekki. Undirtitillinn sem fylgdi var eitthvað á þá leið að franskar konur borðuðu en fitnuðu ekki því þær borðuðu svo lítið Nú er komin út bókin Japanskar konur eru grannar og hraustar. Undirtitill: Í Japan er offituhlutfall kvenna það lægsta í heiminum, 3% Þessum bókum er stillt upp hlið við hlið í Eymundsson í Austurstætinu og verða örugglega seldar tvær fyrir eina á útsölu. Ég veit ekki alveg hversu mikil sjálfshjálp er fólgin í því að ala á minnimáttarkennd, en mögulega er hér um öfuga sálfræði að ræða. Í rauninni stendur mér samt nokk á sama.
Ég er að pæla í að skella í bók fyrir næsta fólajólafljóð og hún á að heita:
Íslenskar konur eru stútfullar af transfitusýrum og kólestróli en ég elska þær samt