Íssalar allra landa sameinist.
Nú er komið nóg. Veðurguðirnir hafa oft á tíðum flengriðið okkur íslendingum með frosthörkum, hríðarbyljum og hagléli en nú hafa þeir tekið okkur í öfugan enda. Allsvakalega. Skyndilega eru veðurfræðingarnir orðnir jafn miklar hetjur og handbolta liðið og má jafnvel fara að tala um strákana okkar í þeim skilningi. Veðurfréttirnar eru skyndilega orðnar vinsælasta efnið á öllum rásum og það liggur við að fólk fallist í faðma á götum úti þegar fréttir berast að enn eitt hitametið hafi fallið. Íslendingar eru meira að segja farnir að brosa hvor til annars á förnum vegi og þá þykir mér nú fokið í flest skjól. Góðhjartaðir vinnuveitendur gefa starfsfólki sínu frí vegna veðurs (hoho rammíslenskur veðurhúmor) og bæjarvinnuaumingjarnir leggja hrífurnar frá sér, fækka fötum og sleikja sólina. Og þegar veðrið er svona gott hvað er þá betra en að fara í sund og fá sér ís.............
Ég vinn í sundlaug og ég sel sundlaugargestum ís. Króuð af inní klórmettuðu frumskógarloftslagi og vinn við að ráðleggja vísitölufjölskyldunni um ískaup og blanda sturtur fyrir litla krakka.
Mér finnst að ég eigi að fá bæði áhættubónus og launauppbót fyrir vikið. Í dag var slegið nýtt aðsóknarmet í Breiholtslaug. 2000 gestir takk fyrir (lófaklapp) sem þýðir að í dag hef ég sagt 2000 sinnum "góðan daginn", gjörðusvovel og takk fyrir. Ég er sem sé búin með kvótan á þessi orð og mun ekki taka mér þau í munn aftur svo lengi sem ég lifi. Kósveitt, með steinrunnið augnaráð og holan málróm hef ég ekki gert neitt annað en að segja þessa þrá frasa í allan dag. Þeir ættu frekar að temja apa eða ráða Mývetning í þetta, því þetta er ekki ætlað hugsandi manneskjum eins og mér. Góðandaggjörðusvoveltakkfyrir rútínan er að vísu brotin af og til þegar ég þarf að selja vísitölufjölskyldu ís. Úr öskunni yfir í eldinn.
Við ætlum að fá tvo hlunka eina dæetkók og eina pepsí, ha, nei vilt þú ekki svona (barnsgrátur) hvað viltþú? ó, þú vilt svona rauðan, eigi þið rauðan hlunk, afhverju eigi þið ekki rauðan, hvað meinaru að hann sé uppseldur, hættu að gráta siggi minn, konan á ekki rauðan hlunk hvað viltu í staðinn, hann vill svona, eigi þið það, já ok gott, þá er það tveir hlunkar, nei bíddu einn hlunkur, ein dæet kók og pepsí, já og bættu við einum lúxus ís með karamellu, já en Gunna var læknirinn ekki að segja að þú værir með of hátt kólestól? æ, þegiðu Jón, á svona degi má maður sko borða allt, já en læknirinn sagði Gunna mín,,Já ég sagði þegiðu Jón, þú mættir nú alveg tapa nokkrum kílóum sjálfur, hafðu það þá lúxusís og eitt Twix. Maaaaamaa, Siggi fékk stærri ís en ég, já, þú valdir líka hinn, ég vil ekki fá minni ís en Siggi vhahahahah. heyrðu áttu ein sem er svipað stór og þessi, já þessi er fínn, sko Stína mín, konan er að koma með ís sem er jafnstór og ísinn hans Sigga, heyrðu úpps hún missti hann í gólfið, get ég nokkuð fengið annan? þarf ég þá nokkuð að borga fyrir þennan? Það var þá ein dæet kók, ein pepsí, tveir hlunkar, einn lúxusís með karamellu og eitt Twix, hvað er það mikið, djöfulsins okur er þetta við gætum sko fengið þetta á hálfvirði í bónus, bíddu hvaða hortugheit eru þetta stelpa ég get ekkert farið í bónus blaut og í bikiníi ertu eitthvað verri? Já nei mér fannst þetta ekkert fyndið, settu þetta á kortið, geturu tekið 500 fram yfir, afhverju ekki, dísös kræst er það nú þjónusta, heyrðu seljiþið nokkuð skóreimar, þessi penni er handónýtur, virkar ekkert hérna? þú mátt henda afritinu.
Það er ekkert grín að reyna að geðjast kröfuhörðu og jafnramt hundleiðnlegu íslensku fjölskyldufólki.