ÉG hlakka og hlakka og hlakka!!!!
Ég er loksins búin að kyngja endanlega stolti mínu og byrjuð að viðurkenna að það séu kannski ekki svo slæm örlög þrátt fyrir allt að slaufa háleitum samyrkjubúshugmyndum í Ísrael fyrir roskilde. Mamma er þó stanslaust að strá salti í sárin, les upphátt úr mogganum fréttir um ísrael, strýkur mér svo um vangan og kemur með mammahefuralltafréttfyrirsér frasan í einhverri útgáfu. Sem betur fer er ég orðin hálf ónæm fyrir þessu.
Tilhlökkunun byrjaði formlega í fyrradag þegar við áa fórum og keyptum helstu nausynjar fyrir slíka för, en mottóið í ár verður lögmál Murphys, það er; allt sem getur farið úrskeiðis mun gera það. Með það í huga keyptum við okkur tjald sem má eyðileggjast, alltof litlar vindsængur sem meiga eyðileggjast líka og gúmmítúttur því það verður sko örugglega rigning. Við eigum síðan eftir að kaupa okkur sjóhatta, búa okkur til ponsjó úr svörtum plaspokum og þá verðum við færar í flestan sjó. (hohoho)
En hápuntkur dagsins er þó ekki spenningur yfir utanför okkar heldur stórsigur minn á krónískum sjúkdómi sem hefur verið að há mér undanfarin 19oghálftár. Sjúkdómur sem er ekki á skrá WHO yfir sjúkdóma (þó að samkynhneigð sé það, einhverja hluta vegna og anorexia ekki skráð fyrr en 1995), sjúkdómur sem hrjáir amk.helming íslendinga án þess að þeir hafi hugmynd um það, sjúkdómur sem ekki er til neitt lyf við, enda ekki talinn hættulegur, sjúkdómi sem aðeins má sigra með viljastyrkum einum saman.........
Já, börnin mín, ég er laus við þágufallssýkina!
Þessi ósómi hefur fylgt mér eins og skuggin allt frá fæðingu og kenni ég óheppilegri genasamsetningu og úthverfauppeldi þar um. Þrátt fyrir að ég hef alla tíð gert mér fullkomlega grein fyrir vandamálinu, hefur mér aldrei tekist í tæka tíð að skipa vinstra heilahvelinu að setja fornafn í nf. fyrir framan persónulegu sagnirnar kvíða og hlakka og áður en ég veit af hefur heilinn í fullkomnu leyfisleysi fallbeygt fornafnið þannig að úr barka mínum hljómar: Mér hlakkar. Einstaklega hvimleitt.
Á síðustu árum hef ég reynt að skora sjúkdóminn á hólm með misjöfnum árangri; lúpínute, dáleiðing, kraftjóga, lífrænt mataræði og égveit ekki hvað og hvað. En sígandi lukka er best og með tíð og tíma hefur mér tekist að leggja sjúkdóminn í gröfina. Undanfarna daga hef ég svo fengið endanlega staðfestingu á þessu. Því þegar samtöl berast að danmerkurferðinni (sem gerist æ oftar því sem nær dregur) svara ég nær undantekningalaust; Já, ÉG HLAKKA TIL. Síðan brosi ég hringinn allan dagin yfir óvæntum sigri mínum. Svona getur tilveran nú verið dásamleg
Húrra fyrir bakaradrengum, húrra fyrir hálsaskógi og hinum týndu kökum úr alheimskrúsinni.
Ps. Ekki núa mér því um nasir ef mér verður á í messunni; sérstaklega á þessi nýi hæfileiki vinstra heilahvels míns það til að detta út undir áhrifum nikótíns, etanóls og annars óþverra. Batnandi fólki er bezt að lifa.