Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

mánudagur, febrúar 25, 2008

Ég er orðin kennari...

...íslenska og danska, 9. og 10. bekkur.
Karmalögmálið er búið að sjá til þess að nú fái ég að bíta í skottið á sjálfi mér og kenna dönsku.

Annars er það eitthvað undarlegt Catcher in the Rye heilkenni sem dregur mig í sífellu að kennslu. Ég held ég hafi melankólískara viðhorf til kennslu (eða mögulega uppeldis og umgengni við börn/unglinga) heldur en flestir grunnskólakennarar á Reykjarvíkursvæðinu. Hrokagikkurinn í sjálfri mér heldur því fram að kennaranám sé sniðið af því að þurrka upp sálina og hina lágstemmdtu kennsludramatík úr væntanlegum kennurum. Ég er hins vegar ekki kennaranemi og legg því mikla rækt við alla þá dramatík sem mögulega getur fylgt kennslu og skólum yfirhöfuð.

Næstu daga mun ég birta ,,Heimur-versnandi-fer" sögur úr skólastofunni á blogginu mínu, so stay tuned.

Nýjustu fréttir úr reynsluheimi unglinga:
Kveðjan ,,Sjáumst á eftir" þýðir í raun sjáumst á eftir á MSN.

sunnudagur, febrúar 10, 2008


Við ykkur sem ekki sáuð rússnesku hljómsveitina Iva Nova á laugardaginn segi ég; Fokk! hvað þið misstuð af miklu.


Ég var búin að merkja við tónleikana í dagatalinu fyrir lifandis löngu og eyddi vikunni fyrir tónleikanna í að plögga vini og vandamenn með. Þegar til kastanna kom reyndist ég svo vera ílla sofin, annarshugar, algert drasl og ætlaði varla að nenna niður á NASA.
Sem betur fer drattaðist ég af stað og varð á svipstundu svo hugfangin að ég steig meiraðsegja nokkur danspor, þrátt fyrir að geta varla staðið í lappirnar af þreytu.

Hér að ofan má sjá mynd af hetju-rokkurunum. Takið sérstaklega eftir stelpunni með rauðu húfuna. Hún er svona harmonikkuspilandi útgáfa af Johnny Rotten á sviði.

mánudagur, febrúar 04, 2008

Framfarir

Litla sæta nágrannastelpan sem býr við hliðina á mér hefur tekið stórkostlegum framförum í píanóleik undanfarið hálft ár. Hitt er svo annað mál að nýlega er hún farin að fikta við lagasmíðar, mér til þó nokkurs ama. (við deilum stoðvegg)
Ég þyrfti helst að koma krakkanum í skilning um að það sé öruggast að halda sig við verk gömlu meistaranna í stað þess að reyna eitthvað upp á eigin spýtur.