Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

sunnudagur, mars 30, 2008

Bömmer

Ég er með tveggjadaga þynnku í blóðinu og framundan er mánudagur. Fokk.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Síðasti dagur pseudo-vorsins.

Í dag er síðasti dagur fyrsta vors ársins. Það er að segja síðasti dagur fyrstu samfelldu veðurblíðunar sem sumir kalla vor. Á morgun brestur á með votviðri og leiðindum og svo á að frjósa. Ég held mig að sjálfsögðu innandyra, guð forði mér frá meiri útiveru en að skjótast inn og útúr bílnum mínum. Enda brann ég á nefinu þegar ég fór í labbitúr sl.sunnudag. Auk þess sem aumingja-ofnmæmið er farið að láta á sér kræla.

Framundan eru páskaeggjalausir páskar no.3. Ég hef bara svo hrikalega lág súkkulaði þolmörk að heilt páskaegg myndi ríða mér að fullu. Þetta á þó ekki við um litlu deserteggin í marglitu umbúðunum, þau henta mér ágætlega.
Hins vegar gæti ég náttúrulega bætt upp fyrir það með að vera duglega að spæla mér egg, skrambla þau eða búa til ommilettur.

Framundan er svosem lítið eitt annað en lestur, skrif og drykkja um helgar og á hátíðisdögum, auk þess sem ég ætla að fremja lítið skammarstrik í skjóli nætur fljótlega. Svona til að gera mér dagamun.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Gáta

Leysist án þess að nota wikipediu (þessu er beint til þín, Davíð)
Hver veit hvað þetta er?

N = N* fp ne fl fi fc fL

og svo eru auka stig í pottinum fyrir þann sem getur sér til um í hvað ég hyggst nota þessa jöfnu.

mánudagur, mars 10, 2008

Symbólismaklám.

Munaðarleysingjahælið í gær og missti svefn í nótt. Meira af gömlum vana, frekar en hryllingi af nýrri stærðargráðu.

Í bílnum á leiðinni heim ræddum við myndina í þaula. Kosti hennar og galla og þá sérstaklega þá hvimleiðu hneigð leikstjórans til að fylla nánast hvern einasta ramma og hvert einasta atriði af smáhlutum sem áttu að vera gríðalega táknrænir fyrir framvindu sögunnar. Svo dúkkuðu öll táknin upp aftur í lokin til að undirstrika hvernig söguþræðinum væri lokað og lausir endar hnýttir. Slík ofnotkunn er eins og nauðgun á myndmálinu og því var fyrirbærinu gefið nafnið symbólismaklám.

Ég veit ekki alveg hvort ég ætla að mæla með bíóferð eða dánlóti af Munaðarleysingjahælinu. Held samt ekki

sunnudagur, mars 09, 2008

Bráðum

Munu 24 klukkustundir af nístandi mánudegi hellast yfir mig. Mér er ekki skemmt.

miðvikudagur, mars 05, 2008

Mistök

Mér varð á í messunni. All svakalega.
Í níunda bekk miðferð í íslensku situr strákagengi í gluggaröðinni fremst. Eins og 15 ára strákum er tamt eru þeir gjörsamlega óalandi og óferjandi. Þeir eru samt sem áður óvitlausir og því er hægt að halda þeim réttu megin við hormónastrikið ef þeim er sett nógu mikið og fjölbreytt fyrir. Innst við gluggan situr renglulegur stákur sem er eitthvað millistig milli pönkara og nörds. Rifnar gallabuxur, sex pistols bolur í bland við fitugt hár í tagli og gleraugu. Ég var búin að setja þeim fyrir orðflokkagreiningu og bað strákin um að orðflokkagreina upphátt.

Strákur: æi, vó mar, ég kannedda ekkert.
Ég: Jú,jú ég sá að þú ert búin að leysa verkefnið og þú ert nú svo klár og skýr strákur að þú getur alveg lesið upp fyrir bekkinn (þetta var enginn lygi, hann var búin að orðflokkagreina eins og hetja og röðin var komin að honum að lesa upp)
...
...þögn í bekknum
ég lít í kringum mig
...enn meiri dauðaþögn
...nokkrar stelpur aftast í bekknum byrja að flissa, ég skynja að ekki er allt með feldu.
ég lít spurnaraugum á strákinn sem grefur andlitið ofan í bókina.
Sessunautur stáksa setur upp glott, bendir á hann og segir: Hún er sko stelpa.

Það var nefnilega það!

Ég verð að viðurkenna að ég hafði mínar grunsemdir um kynferði guttans í upphafi þar sem að hann var eini ,,strákurinn" sem ég hafði kynnst sem notar skrautlegar pokateygjur í hárið, en fyrir utan það var ekkert sem gaf til kynna að ,,hann" væri nokkuð annað en venjulegur unglingsrákur með komplexa. Nú hugsa spyrja eflaust einhverjir afhverju í fjandanum ég kíkti einfaldlega ekki á nafnalistan til að ganga úr skugga um óræða kynferðið, en ó ekki. Sum nöfn eru heinlega svo framandi að það er engan veginn hægt að kyngreina þau. Hugtakið um innflytjendavandamál öðlaðist skyndilega einhverja merkingu í mínum huga.

Ég ætla að hlífa ykkur við endursögn af því þegar ég reyndi að bjarga mér og henni frá algerri niðurlægingu og ég vil helst gleyma hvernig ég reyndi svo að biðja stelpugreyið afsökunar eftir tíman.

Ég kannast við svipað atvik úr sundhöll Reykjavíkur, þar sem afgreiðslufólkið þarf að kyngreina spontant alla gesti. Rauður lykill, blár lykill. Stuttklippt 11 ára Hafdís fékk sko að kynnast því og passaði uppfrá því að vera í viðeigandi umbúðum. Jafnvel um hásumar fór ég ekki í laugina nema að vera með rauða húfu og bleikan trefil.

Hefði svipað atvik átt sér stað á unglingsárum fyrir framan heilan bekk hefði ég líklega hlaupið útí íþróttahús, brugðið snöru um hálsinn og hert að.