Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

þriðjudagur, júní 24, 2008

Hjólfarið

Það virðist vera sama hvar gripið er niður. Allir karlmenn sem "afreka" eitthvað á hinum ýmsu sviðum samfélagsins virðast hafa átt ömmu sem sagði þeim sögur og kenndi þeim sitthvað gott og gagnlegt.

...Thats it! Ég er hætt að trúa á ritað mál og verð sífellt tortryggnari á hið mælta. Sérstaklega þegar fólk lætur hafa eitthvað eftir sér sem það veit að birtist á prennti og reynir þá að tala eins og bók.

Brekkukotsannáll byrjar einhvernmeginn svona: Fátt er ungum börnum eins hollt og að missa föður sinn, nema þá helst að missa móður sína. (hér var átt við aðalsöguhetjuna sem var piltur, ég man ekki hvort að það var tekið fram í fyrstu setningunni en læt HKL njóta vafans)

Öpdeit 2008: Fátt er ungum drengjum eins holt og að missa ömmu sína, nema þá að missa hina ömmu sína líka.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Sýnishorn úr garðinum

mánudagur, júní 09, 2008

Missjón akkomplíst
Hana! þá er ég búin að troða íslenskri náttúru niður í kokið á Norðmanninum. Henni fannst lítið til hraunsins koma en heillaðist mikið af hverasvæðunum. Sérstaklega þegar við vorum að keyra framhjá Haukadalnum og sáum gosin úr Strokki gægjast upp fyrir birkrihríslurnar úr fjarlægð.
Síðan kítuðum við á vinalegu nótunum um hvað væri skógur og hvað ekki. Samkvæmt hennar norska brjóstviti er ekki einn einansti skógur á Íslandi en aftur á móti nóg af runnum og lággróðri. Ég vildi aftur á móti meina að svæðið í kringum Þingvöll væri "skógi" vaxið.

Annars mæli ég eindregið með heimsókn til Hveragerðis um þessar mundir. Virknin á svæðinu er með einsdæmum og það rýkur upp úr hverri holu. Þegar litið er yfir bæinn dettur manni fyrst í hug að norðurhlutinn hafi nýlega orðið fyrir sprengjuárás og orðatiltækið rjúkandi rústir fékk skyndilega nýja merkingu. Nema þá að það voru engar rústir. Þegar ekið er í gegnum bæinn má sjá stóra þykka gufustróka í allar áttir, hvert sem litið er. Svo má sjá golfara í sínu asnalega golfátfitti leika sitt asnalega golf inná milli gufustrókanna. Mjög súrrealískt.

þriðjudagur, júní 03, 2008

Aðstoð óskast!

Þannig er mál með vexti að ég á von á gesti næstu daga. Planið var að fylla bílinn af rándýru bensíni og túristast um suð-vesturhornið en nú hafa veðurguðirnir ákveðið að snúast gegn mér. Það spáir rigningu og svo ennþá meiri rigingu. Eigum við að sjá til sólar um helgina verðum við helst að fara alla leið út á Langanes.

Því er spurt: Hvað dettur ykkur í hug að hægt sé að gera í rigningu? Ég efast um að það sé málið að hanga á söfnum og kaffihúsum fjóra daga í röð. Viti þið um einhverja staði í Reykjavík eða á suð vesturlandi sem hafa svona vondaveðurs sjarma? Gönguferð um hraun er t.d alltaf kósí í þoku en ég efast um að ég vilji draga Norðmanninn í gegnum hraunbreiðurnar alla helgina. Allar hugmyndir vel þegnar.

mánudagur, júní 02, 2008

Það vex þari í hausnum á mér

Allavega er ég búin að gera sömu mistökinn allavega þrisvar sinnum í morgun og ef mér hefði ekki verið bjargað fyrir horn hefði ég gert þau aftur á morgun. Það var viðeigandi að kenna þaravexti um því í gær át ég fáránlega mikið af sjávarfangi, enda sjómannadagur og Miðbakkinn var fullur af smá smakki auk þess sem Sæbaóninn bauð uppá billega sjávarrétti. Ég neitaði að taka þátt í þessu Hátíðhafsins rugli. Fyrsti sunnudagur í júní er sjómannadagurinn og hananú! Ekkert nýjaldar nafn til að laða að kynslóð sem fynnur ekki samkend við sjómannakúltúrnum fær mig til að hnika í þeirri afstöðu. Ég var búin að melda mig við Unni en var næstum búin að hætta við þegar hún sagðist vera að fara á hátíð hafsins. Mér tókst þó að sannfæra hana með þumalskrúfu og léttu hálstaki.

Síðan hringdi Bretinn í mig og bað mig um að kenna sér að elda hvalkjöt sem hann keypti í Kolaportinu. Hann fór þangað deginum áður og leitaði ljósum logum af Hval, en skildi ekkert í afhverju honum var alltaf boðin hrefna þegar hann spurði um hval. Hélt að hrefna væri eitthvað málfræðilega skylt orðinu "hross" og hélt samstundis að óprúttnir Íslendingar væru að pretta saklausa útlendinginn og afþakkaði pent hrefnukjötið. Þegar heim kom sagði orðabókin honum hversu mikið fífl hann hefði verið þannig að hann hundskaðist aftur niður í Kolaport og keypti hrefnu.

Síðan þurfti að elda hærlegheitin. Bretinn leitaði uppskriftum og marineraði samkvæmt gúgúl, bauð öllu ofpólitískt rétthugsandi sambýlingum sínum í mat og svo var kallað í mig. Þegar á hólminn var komin uppdagaðist að ekki var nein loftræsting í eldhúsinu og svo var ekki til nein svunta sem er forsenda þess að geta steikt uppúr sjóðandi olíu. Þá var gripið á það ráð hjúpa mig fjólubláu hörteppi úr íkea. Ég hefi sjaldan verið eins vígaleg þegar ég stóð í olíureyknum hjúpuð í fjólublátt og sagði útlendingunum að steikja sitt kjet sjálfir ef þeir vildu það vell dön. Ég steikti mitt sko blóðugt og þannig ætti það að vera. Tilhugsuninn um að læsa tönnunm í blóðugan Keikó var of mikið fyrir suma sem afboðuðu sig hið snarasta. Sumir skoruðu PC hugsunarháttinn á hólm og létu slag standa. Húrra fyrir þeim.

Kjötið var afbragð. Um kvöldið sá ég Beðmál í borginni í fullri lengd og ég hef ekkert sérstakt um það að segja.

Bráðum kemur uppáhalds Norðmaðurinn minn til landsins og ég tel niður nanósekónturnar.