Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

miðvikudagur, apríl 30, 2008

4 árum seinna

Sólarsumarið 2004 afgreiddi ég ís í Breiðholtslaug. Það var mín fyrsta (og næstum því síðasta) reynsla af afgreiðslustörfum. Í vonskukasti yfir kröfuhörku og hortugheitum íslenskra fjölskyldna bloggaði ég þetta:

1.ágúst 2004
...[Þ]eir ættu frekar að temja apa eða ráða Mývetning í þetta [...] Verst er samt þegar ég þarf að selja vísitölufjölskyldunni ís.

Við ætlum að fá tvo hlunka eina dæetkók og eina pepsí, ha, nei vilt þú ekki svona (barnsgrátur) hvað viltþú? ó, þú vilt svona rauðan, eigi þið rauðan hlunk, afhverju eigi þið ekki rauðan, hvað meinaru að hann sé uppseldur, hættu að gráta siggi minn, konan á ekki rauðan hlunk hvað viltu í staðinn, hann vill svona, eigi þið það, já ok gott, þá er það tveir hlunkar, nei bíddu einn hlunkur, ein dæet kók og pepsí, já og bættu við einum lúxus ís með karamellu, já en Gunna var læknirinn ekki að segja að þú værir með of hátt kólestól? æ, þegiðu Jón, á svona degi má maður sko borða allt, já en læknirinn sagði Gunna mín,,Já ég sagði þegiðu Jón, þú mættir nú alveg tapa nokkrum kílóum sjálfur, hafðu það þá lúxusís og eitt Twix. Maaaaamaa, Siggi fékk stærri ís en ég, já, þú valdir líka hinn, ég vil ekki fá minni ís en Siggi vhahahahah. heyrðu áttu ein sem er svipað stór og þessi, já þessi er fínn, sko Stína mín, konan er að koma með ís sem er jafnstór og ísinn hans Sigga, heyrðu úpps hún missti hann í gólfið, get ég nokkuð fengið annan? þarf ég þá nokkuð að borga fyrir þennan? Það var þá ein dæet kók, ein pepsí, tveir hlunkar, einn lúxusís með karamellu og eitt Twix, hvað er það mikið, djöfulsins okur er þetta við gætum sko fengið þetta á hálfvirði í bónus, bíddu hvaða hortugheit eru þetta stelpa ég get ekkert farið í bónus blaut og í bikiníi ertu eitthvað verri? Já nei mér fannst þetta ekkert fyndið, settu þetta á kortið, geturu tekið 500 fram yfir, afhverju ekki, dísös kræst er það nú þjónusta, heyrðu seljiþið nokkuð skóreimar, þessi penni er handónýtur, virkar ekkert hérna? þú mátt henda afritinu.

Það er ekkert grín að reyna að geðjast kröfuhörðu og jafnramt hundleiðnlegu íslensku fjölskyldufólki.
---
maí 2008
Ég er sjúklega fegin því að þurfa ekki að gera nokkuð líkt þessu í sumar
Gleðilegan verkalýðsdag, öllsömul.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

... ,,þeir eru að berja Íslendinga, lemja á samlöndum sínum!!!" æpti formaður ungra frjálsyndra þegar lögreglan dró hann af vetvangi í einhverjum af trukka mótmælunum um daginn.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Kreppa?

Ég hefi lent í því æ oftar uppá síðkastið að matur sem ég panta mér á veitingahúsum er ekki til. Þ.e.a.s að eitthvað hráefni sé búið þannig að rétturinn falli um sjálfan sig. Ekkert pestó á kofanum, engin lúða á kaffi París, engin piparostur á Vegamótum, ekkert loft á prikinu og ekkert líf á Hressó. Annað hvort eru innkaupastjórar í Reykjavík vanhæfir í starfi eða þá að kreppan er alvarlega farin að herða að. Nú er lúxusfólkið sem étur á veitingahúsum á uppsprengdu verði farið að líða fyrir lóðrétt fall krónunar. Herregud.
Annars neita ég að taka þátt í kreppuhjali. Ég keypti mér hræ billegt hjól um daginn og spara mér nú töluverðan eldsneytiskostnað með því að hafa tvo bíllausa daga í viku. Samkvæmt slumpureikningum greiði ég því 123 krónur fyrir líterinn í mestalagi ef hjólasparnaðurinn er reikanður með. Ekki þarf ég að loka neinum akreinum.
Til að sýna andstöðu mína við þessari kreppuvitleysu kjaftaði ég niður gengi krónunar á öllum helstu börum bæjarins um helgina.

Annars er ég í afskaplega blíðu skapi í dag, líklega vegna þess að ég át yfir mig í gær. Ættgarðurinn að austan var pa besög og þá er alltaf borðað vel, lengi og oft. Kvennleggurinn gerði sér bæjarferð í gær til að stela prjónauppskriftum og sniðum af rándýrri íslenskri hönnun. Sem betur fer var móðirsystir mín ekki með í för í þetta skiptið, en hún er einn svæsnasti steliþjófur sem ég þekki. Síðast þegar við fórum í bæinn saman gerðum við okkur ferð inní einhverja búðina sem selur íslenska hönnun og ég var látin máta nær allan lagerinn á meðan móðir og móðirsystur töldu lykjur og úrfellingar utan á mér og lögðu mynstur á minnið. Á bak við búðarborðið var svo hönnuðurinn sjálfur, súr á svip enda var verið að brjóta eigin höfundarrétt fyrir framan nefið á henni. En nú á ég líka sallafína lopapeysu, lopakjól og önnur peysa á leiðinni. Þegar búðin fór svo á hausinn skömmu seinna gat ekki annað en leitt hugan að því hvort að konur eins og móðursystir hefðu átt óbeinan hlut að máli.

Í gær fórum við á einhverja sýningu á íslenskri fatahönnun. Ættgarðurinn var nú ekkert yfir sig hrifinn, en niðurstaðan varð samt sú að þær gætu sko alveg gert þetta allt sjálfar ef þær nenntu. Hápunktur sýningarinnar var þegar þær spottuðu sjálfa Rannveigu Rist í krátinu. Þær dáðust að henni úr fjarlægð og mærðu hana langleiðina frá Hafnarhúsi að kaffi París. ,,Enda er hún nú engin alþýðudrusla" svo ég vitni orðrétt í eina frænkuna. Á þessum tímapunkti er gott að minnast á að móðurfjölskyldu minni liggur mjög hátt rómur.
Til að bæta upp fyrir vonbrigðin með íslenska hönnun fórum við í Gyllta Köttin þar sem við böðuðum okkur í pallíettum og glimmeri og glysgjarni hlutinn af frænkustóðinu keypti sér kjóla. Framundan eru svo rigerðarskrif og bollaleggingar fyrir leik og störf í sumar.

mánudagur, apríl 21, 2008

Kynslóðir



Menningarkverúlant 24 stunda skrifaði um daginn greinarkorn um beat-skáldin og beat kynslóðina. Þar lýsti hún því meðal annars yfir að beat kynslóðin hefði ekki samþykkt viðurkennd gildi samfélagsins og farið sínar eigin leiðir. Það var nefnilega það! Samkvæmt brjóstviti popkúltúrsins gerðu hipparnir það líka, og pönkararnir og jafnvel hin alræmda krúttkynslóð. Það er náttúrulega gríðarleg ögrun við samfélagsleg gildi að hlusta á Sigurrós spila undir berum himni, kaupa og klæðast notuðum fötum og kjósa vinstri græna. Það sjá allir í hendi sér.
Kynslóðatal fer í taugarnar á mér og meint uppreisn hverrar kynslóðar, hvort sem það er að kúka á kerfið, týna blóm eða skrifa útúrdópaðar skáldsögur veldur mér vægum meltingartruflunum. Hvernig værum við annars í dag ef fólk hefði ekki risið uppá afturlappirnar öðru hverju og hætt að "samþykkja viðurkennd gildi samfélagsins"? Þetta hefur ekkert með kúl-status einhverra ímyndaðra kynslóða að gera, heldur bara kommon sens. (og kommon sens hefur aldrei verið kúl, get ég sagt ykkur) Galileo neitaði að samþykkja viðurkennd gildi samfélagsins og var næstum brenndur á báli fyrir vikið og Lúþer klauf stærsta bákn Evrópu fyrr og síðar (nei, ekki EB. Ég vil meina að kaþólska kirkjan hafi og muni alltaf toppa EB í skrifræði og yfirgangi)


Orðalagið "að gera uppreisn gegn viðurkenndum gildum samfélagsins" er álíka merkingalaus í nútímanum og "frelsi". Tvær klisjur sem ákveðnir hópar tyggja endalaust.






En aftur að kynslóðunum.
Alfræðiorðabækur greinir á um hvaða kynslóð ég (1985) tilheyri. Ég er mögulega í síðustu ágöngum X-kynslóðarinnar. Þó að sumir vilji meina að X-kynslóðin eigi bara við um 8.áratuginn. Ég held ég sé of gömul til að tilheyra Y-kynslóðinni sem var gerð til höfuðs Xurunum. Ég passa svo sem ágætlega inní MTV-kynslóðina, en sá ljóður er á máli að ég hef nánast aldrei litið MTV augum, nema árið 1997, þegar ég hitti sundum vinkona mína á laugardagseftirmiðdögum hálfan veturinn til að horfa á Top of the Pops. Ég vil ekki kynslóðagreina mig eftir fáeinum laugardagseftirmiðdögum þegar ég var 12.
Ef ég held mig innanlands-skilgreingar get ég náttla verið hnakki, trefill eða krútt. Orðið á götunni segir mér að hnakkar séu með aflitað hár, þannig að það er átómatískt off, mér fynnst Múm skelfilega leiðinleg, þannig að ekki get ég verið krútt en svo ég veit ekki alminnlega hvað trefill er, en ég á svoleiðs, þannig að mögulega kemur Trefla skilgreiningin til greina. Varla kemur til greina að ég sé eitthvað annað? Og þó, ég er ekki nógu dugleg að hafna "viðteknum gildum samfélagsis" til að ég geti gert heiðarlega tilraun til að tilheyra kynslóð.




Bíðum nú við!
,,ég hafna hér með silgreiningaráráttu samtímans" Voilá! Nú er ég komin með kennisetningu og nú ætla ég að skrifa bréf til menningardálksins í 24 stundum og biðja þau um að búa til einhverja kynslóð sem ég get hallað mér uppað svo ég týnist ekki í samtímanum.









Ég gæti líka snúið mér til jafnaldra minna sem eru farin að skrifa reglulega í lesbókina og beðið þau um aðstoð. Enda fjalla greinarnar þeirra um fátt annað en uppgjör krúttkynslóðarinnar við sjálfa sig. 25 ára gemlingar og srax farin að gera upp við fortíðina á akademískan en jafnframt menningarlegan hátt. Ég get ekki að því gert að mér fynnst pínu eins og þau séu að skeina sér hvort á öðru.

ps: Eins og sjá má er óeðilega langt á milli málsgreina í þessu bloggi. Það er hið alræmda kynslóðabil, sem ég hef hér túlkað á frumlegan og alls-ekki-tilgerðarlegan hátt.

Efnisorð:

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Hólí krap

Mikið óskaplega vorkenni ég rauðhærðustúlkunni og múshærðapiltnum sem áttu saman heita stund inná klósetti á Hressó sl.föstudag. Þau vissu nefnielga ekki að á næsta bás væri stelpa að taka myndir af þeim sem hún síðan birti á galopinni síðu á feisbúkk.

Ég vona að rauðhærðastelpan og múshærðri strákurinn hafi frekar harðan skráp og húmor fyrir sjálfum sér. Ennfremur vona ég að þau taki sig til og bruni útá Seltjarnarnes, læsi stelpuskottið inná mykrum, köldum og blautum stað og neiti að hleypa henni út fyrr en hún tekur myndirnar burt og biðst afsökunnar. Svo ættu þau að spakra duglega í sköflunginn á henni. Þá fyrst væri réttlætinu fullnægt að einhverju leyti.

Svona hluti gera mig dapra. Annarsvegar að fólk stundi kynlíf inná klósettinu á Hressó og hinsvegar að einhver skuli taka myndir af því til að birta á netinu.

Ég velti fyrir mér að fremja feisbúkk sjálfsmorð í mótmælaskyni. Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð? anyone?

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Týnd!

Í gær týndist ég allsvakalega í Vesturbænum, ég eyddi 45 mínótum í stefnulaust ráf um svæði sem ég hélt að væri ekki til, nema austan við mána og vestan við sól. Götunöfnin enduðu öll á -mýri eða -grandi og húsin voru öll eins. Nákvæmlega eins. Sló út allt Breiðholt og allan Kópavog í einsleitni og sannfærðu mig um að Vesturbærinn væri bara úthverfi. Ég hafði lagt af stað frá Vesturbæjarlaug og ætlað að skokka einhvern hring við sjóinn. Þegar i-podinn gaf upp öndina ákvað ég að stytta mér leið tilbaka í gegnum hverfið með fyrrgreindum afleiðingum. Ekki tókst mér að fynna Vesturbæjarlaugina strax, en ég fann aftur á móti KR völlinn tvisvar. Ég held að þetta sé innbyggt í hverfisskipulagið hjá þeim, að öll vötn falla til Kaplakrika á völlinn. Jukk! KR-fóbía mín fékk byr undir báða vængi. Loksins sá ég fólk streyma í áttina til mín með innkaupapoka sem ég ályktaði að kæmu úr Melabúðinni gat ég loksins tekið réttan pól í hæðina og fundið laugina, blaut, köld og með sultardropa á nefinu.
Í i-phone er bæði áttaviti og google-earth. Ég þarf að fá mér svoleiðis.

mánudagur, apríl 14, 2008

Tilkynning til lesenda: Ekki vera plebbar, fallbeygið titla.
,,Ég ætla að fá einn miða á sá ljóti"
,,Ég sá Brúðguminn í gær"

Einhverra hlutavegna virðist það algengara að fólk gleymi að fallbeygja titla á bíómyndum, leikritum og öðru sjónrænu heldur en bókum. Ég hef allavega ekki enn heyrt neinn sagst hafa lesið Djöflaeyjan, Ilmurinn eða þar fram eftir götunum.

Ég veit ekki hvort fer meira í taugarnar á mér; titlar sem virðast vera fastir í nefnifalli í kjöftunum á fólki eða þegar titlar á ekki-enskumælandi myndum eru þýddir á ensku, en ekki íslensku. Gott dæmi um þetta er myndin um síðustu daga Hitlers, Der Untergang, sem skyndilega hét The Downfall í öllum fjölmiðlum. Der Untergang er ekki sérstaklega flókið í framburði, þannig að þýski titilinn hefði líklega getað staðið einn og sér, en óekki, Ða dánfoll skyldi það vera. Ég man ennþá eftir skilningsvana afgreiðslustúlkunni sem hváði þegar ég bað um tvo miða á Fallið.
Annað dæmi um þetta er franska myndin Un long dimanche de fiançailles, sem er náttúrulega ómögulegt að bera fram hafi maður engann grunn í frönsku, líkt og ég. Titilinn útlegst á íslensku ,,Trúlofunin langa" en jafnvel Lesbók moggans tók þátt í sköllinu í þetta skiptið og einhver menningarvitinn skrifaði langan ítardóm um frönsku kvikmyndina ,,A very long Engagement".

Börnin í 92 í Hólabrekkuskóla súmma þetta alveg upp þegar við vorum að ræða Snorra-Eddu.
Barn: Vá, rosalega mikið af nöfnunum hérna eru líka í Lord of ða ríngs.
Ég: Já, Tolkien sótti mikið í Snorra-Eddu þegar hann skrifaði Hringadróttins sögu.
Barn: Ha, skrifaði hann hana líka?

Þessi pirringur er svo sem engar nýjar fréttir. Ég er búin að jagast yfir þessu við alla sem vilja heyra í nokkur ár og ennþá fleiri sem ekki vilja heyra. Ástæðan fyrir því að þetta er mér hugleikið í dag er sú að ég sá Þann ljóta í gær í Þjóðleikhúsinu. Í miðaröðinni heyrði ég ekki annað en "ég ætla að fá miða á Sá ljóti" Líklega hefur ábendingafornafnið "sá" staðið í fólki, enda afbrigðileg beyging.

Þeir í Hollandi eru búinir að fynna lausn á þessu máli. Ef eitthvað tiltekið málfræðiatriði kemur illa út á samræmdum prófum hjá unglingum (ca.15-16ára) í einhvern ákveðin árafjölda verður tungumálinu breytt í takt við það og kallað eðlileg breyting tungumáls. Sé þetta yfirfært á Ísland værum við löngu hætt að hlakka til neins, ég myndi aldrei framar kvíða neins í nefnifalli, heldur bara lásí þolfalli, eða jafnvel þágufalli. Það vita það allir sem hafa reynt að tilhlökkun í aukafalli kemst ekki í hálfkvisti til tilhlökkun í nefnifalli. Sauðfjársbændur ættu hvorki ær né kýr lengur, bara beljur og rollur og þar fram eftir götunum.
Ég er mjög hrifinn af líberalismanum í Hollandi, en þarna fara þeir yfir strikið.

Annars var Sá ljóti bara mjög skemmtilegur. Ég er mestmegnis sammála félaga Unni sem skrifaði þennan leikdóm á Kistuna. Þó svo að mér fyndist stundum bera á ofleik, þá sérstaklega einræða Lárusar við spegilmyndina undir lokin.

Ég er búin að fynna leið til að kála mánudagsleiðindum. Júhú. En ég ætla ekki að segja hver sú leið er....

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Hjón í húsnæðisleit.

Sumarið 1994 smíðuðum við pabbi fuglahús og festum uppá skjólvegg útí garði. Næstu sumur fylgdist ég grant með ferðum smáfuglanna í garðinum og vonaðist til að fá nýja nágranna yfir sumartíman, en allt kom fyrir ekki. Húsið er nefnilega í prýðilegri klifurhæð fyrir kattarskammirnar í hverfinu. Uppúr aldamótunum var brugðist við og sett klóruvörn innan í húsið, þ.e settum illa pússaða fjöl innan við opið þannig að þó að kisa læddi loppunni inn myndi hún grípa í tómt og mögulega fá flís í þófan. Þetta dugði þó ekki til, því að fuglagreyin tóku ekki í mál að gera sér hreiður í húsi þar sem kettir kæmu reglulega við (þó svo að flestir kettir kæmu ekki nema einu sinni, þeir allra vitlausustu tvisvar). Núna í lok mars sást til þrastapars við húsið. Þau hoppuðu inn og út og litu út fyrir að íhuga að setjast þar að. Nokkrum dögum seinna var einhver hverfis-kötturinn búin að koma sér þægilega fyrir á þakinu og beið eftir fuglunum. Þrestirnir sáust ekki meir, en þá var gripið til aðgerða. Pabbi tók húsið inn til róttækra breytinga. Hann leysti málið á afar hugvitsaman, en jafnframt brútal hátt. Hann negldi einfaldlega nokkra nagla í þakið að innanverðu, þannig að vei þeim ketti sem reynir að tylla sér á þakið uppfrá þessu.
Og árangurinn lét ekki á sér standa. Akkúrat í þessum töluðu orðum er starrapar að spígspora fyrir utan húsið og nú er ég viss um að ég fái loksins nýja nágranna. Eða að þeim sé bara drullukalt og séu að leita sér skjóls fyrir snjónum sem kom óvænt í nótt.

Af húsinu að segja, þá lítur það tæpast vel út með naglaspýtu þak. Eiginlega minnir það á fusion af fuglahúsi og fanghelsi. Smáfuglafangelsi. Ég er að spá í að mála það appelsínugult fyrir næsta sumar.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Þetta er næs:

Að sitja á Hamborgarabúllunni og snæða búllumáltíð með Halastjörnunni. Flissa af gömlum brandara um samsetningu eiginnafna og millinafna en borða annars í þögn. Eins og mér fynnst gaman að spjalla um heima og geima, er ég afar hlynt þögninni líka. Það er nefnilega gott að þegja í félagskap annarra. Þetta jafnvægi er ekki allra og mér fynnst alltaf jafn klúðurslegt að þurfa að kreista uppúr mér umræðuefni til að forðast yfirvofandi þögn*. Þægileg sítar/raftónlist var í eyrunum og í tímaritabunkanum mátti fynna eintak af Speglinum frá 1972. Á forsíðunni var talað um verðbólgudrauginn, dýrtíðinna og svo var hæðst að forsætisráðeherranum sem hét Geir.
Á leiðinni heim ræddum við skipulagsmál, svefnvenjur og róttækni á yfirvegaðan og málefnalegan hátt án allra öfga eða fullvissu um að önnurhvor okkar hefði á röngu/réttu að standa.

* Ég geri mér grein fyrir því að það þykir töff og emo að kunna að meta þögnina, enda segjast margir dýrka að stara þegjandi útí loftið og jafnvel hlusta á þögnina (aulahrollur). Það er samt þetta fólk sem fer að ókyrrast og ranghvolfa í sér augunum ef samræðurnar detta niður í hálfa mínótu. Þá er jafnan gripið til umræðna sem byrja á: sástu/hefuru lesið/hlustaðiru á...og svo er eitthvað gripið á lofti til að ræða um. Þá er ráð að svara snöggt og laggott: Nei! og leyfa síðan viðkomandi að svitna áfram.