Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

laugardagur, desember 29, 2007

Var hann nokkuð hommi?


Senn lýkur lestri jólabóka. Einn krimmi, smásögur, ljóðasafn og hálft lærdómsrit. Allt saman voða ágætt, en enginn áþreifanlegur hápunktur. Náttborðslesningin, sem á eftir að duga mér langt fram á nýja árið, því ég er svo kvöldsvæf, er svo ævisaga Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Snert hörpu mína. Titilinn er ljóðlína úr einu frægasta kvæði Davíðs, Kvæðið um fuglana. Kvæði þetta var eitt uppáhaldslag mitt þegar ég var pínupons, en uppá síðkastið hef ég bara heyrt það við jarðarfarir og er þar af leiðandi í minna uppáhaldi núna fyrir vikið.

Höfundur bókarinnar sem ég hef aldrei heyrt um, hikar ekki við að titla Davíð Þjóðskáld í formála sem og á baksíðu. Mér finnst alltaf skondið þegar hinir og þessir fá forskeytið þjóð- fyrir framan starfsheitið sitt. Davíð hefur hingað til ekki verið titlaður þjóð eitt né neitt. Hins vegar efast fáir um að hann hafi verið gott skáld og rithöfundur. Ég vona að þessi nýfengni "þjóð" titill verði Davíði ekki til ama.

Ég efast ekki um að ævisaga Davíðs verði nákvæmlega eins og allar hinar ævisögurnar sem ég hef lesið. Það er nánast sama um hvern er skrifað, bækurnar eru undantekningalítið eins. Drengur fæðist. Drengur les mikið af hollum skáldskap hjá ömmu/afa, drengur fer í latínuskólan, drengur fer til kaupmannahafnar og fer að drekka vín og prófar að sofa hjá stelpu. Kaupmannahöfn er svo einskonar vendipunktur. Þaðan virðist lífið geta tekið tvær stefunur

a) drengur verður áfengissjúkur, lýkur aldrei neinu prófi og hengir sig/dettur niður stiga/ hoppar fram af Löngulínu, en verður öllum harmdauði

b) drengur lýkur prófum, snýr baka til Íslands og slær í gegn heima í héraði.

Æviferill Davíðs fellur vel að forminu og höfundurinn getur skrifað Davíð inní bók sem allir Íslendingar hafa lesið amk tvisvar sinnum, nema að einu leyti; (og hér þarf höfundur að fara eins og köttur í kringum heitan eld) Davíð giftist aldrei. Því er kaflin um fagra kvenkostinn, hamingjusama fjölskyldulífið og börnin sem fetuðu í fótspor pabba síns, (nema kannski einhver afbirgðilegur laukur, yfirleitt örverpið. En þá er það líka tekið fram að örverpið hafi strax frá fyrsta degi líkst móður sinni mikið) ekki með í bókinni.

Þá er auðvitað freistandi að spyrja afhverju. Þankagangur flestra er því miður þannig að þeir sem ekki kjósa að eignast fjölskyldu hljóti að vera samkynheigðir. Teprulegir íslenskir blaðamenn sem skrifa ævisögur fyrir jólin lenda iðulega í vandræðum þegar viðfangið þeirra (lífs eða liðið) fetar ekki alveg í fjölskyldunormið. Sérstaklega man ég eftir sögu Ingólfs Margeirssonar um Maríu Guðmundsdóttur fyrirsætu. Í seinni hluta bókarinnar var kafli sem hét hvorki meira né minna en; Greta Garbo og hin kosmíska ást. Ingólfur, sem venjulga skrifar læsilegan og léttan texta skipti skyndilega um stíl og sagan breyttist í framúrstefnuskáldskap um stund. Þegar Ingólfur snýr til baka með Maríu í næsta kafla flýtur frásögnin áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Íslenskir ævisagnaritarar ættu að taka Guðberg Bergson sér til fyrirmyndar þegar kemur að því að sigrast á plagandi siðferðiskenndinni. Nú eða hann þarna kúbanska rithöfund sem sagði frá því í afar nákvæmum lýsingum í sjálfsævisögu sinni hverning hann og félagar hans borðuðu holur í tré og vantsmelónur áður en þeim hugkvæmdist að draga geiturnar afsíðis.

Nú veit ég ekkert um hvort að Davíð frá Fagraskógi hafi hneigst til karla eða kvenna og mér er í raun nokk sama. Mér finnst "hommun" á liðum persónum afar hvimleið. Stundum er hún gjörsamlega útí hött (Snorri Sturluson var hommi sagði einhver Norðmaður sem læði norrænu við mig einu sinni) Stundum á hún rétt á sér (Leonardo DaVinci var jú handtekkin fyrir ókristilega hegðun með öðrum karlmönnum), oftast eru þessar pælingar yfirleitt gagnslausar í víðara samhengi. Stundum víkja þó ævisagnaritarar eilítið að þessum málum og þá yfirleitt undir rós

Eitt fyndnasta dæmið um þetta var í ævisögu Árna Magnússonar. Árni giftist vissulega, en kvonfangið hans var einhver uppþornuð ekkja sem var alltof mörgum árum eldri en hann. Þau sváfu víst aldrei saman svo vitað sé til. Í loka kaflanum um Árna, þegar sagt er frá dauða hans og eptirmælum er einkalíf hans (sem nánast ekkert var talað um í bókinni) reifað í nokkrum orðum þannig að ástríða Árna á mölétnum skinnhandritum hafi verið fjölskyldulífinu ofar. Sem er líklega alveg rétt. Á næstu síðu eru svo höfð eftir einhver eftirmæli vinar hans sem segir eitthvað á þá leið að í augum Árna hafi ætíð verið einhver djúp sorg og þrá eftir einhverju sem aldrei varð. Þá flissaði ég.

Ég er ekki komin mjög langt með skáldið frá Fagaraskógi, en ég hlakka mikið til að sjá hvernig farið verður með einkalíf hans. Varla fer ævisagnahöfundur Davíðs að segja að Þjóðskáldið hafi verið hommi?

ps: Þessi langloka er í boði Bókasafns Kópavogs þar sem sem engir gestir hafa látið sjá sig enn þó að safnið hafi opnað fyrir meira en klukkutíma síðan . Hin stelpan sem vinnur með mér er í Bubbles...

þriðjudagur, desember 25, 2007

jólajóla

Jólagjafaheimtur voru með ágætum þetta árið. Svo virðist sem vinir og ættingjar hafi afar náinn skilning á því sem skiptir mestu máli um jólin. Þ.e að lesa góðar bækur, hlusta á góða tónlist* og vera hlýtt, þá sérstaklega á tánum.
Ég og móðir slóum í gegn í eldhúsinu að vanda. Reiddum fram eina þríréttaða eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég og móðir erum fagurkerar og lífskúnsterar þegar þannig liggur á okkur og gærdagurinn var svo sannarlega einn af þeim dögum.
Að vísu varð mér á að borða eina teskeið af óblönduðu andasoði (sem er bara einhver andskotans efnafræðiafurð og ætti eiginlega ekki að nota í mat) og dauðrotaði nokkra bragðlauka í leiðinni. Restinn gekk áfallalaust fyrir sig.
Rauðvínssósur hafa alltaf átt upp á pallborðið á heimilinu síðan að yngsti laukurinn (ég) lærði að drekka rauðvín án þess að fitja upp á nefið. Síðan þá hefur rauðvínsnotkunn í matargerð farið sí vaxandi og náði hámarki í gær. Þegar við bárum matinn á borð kom nefnilega í ljós að nánast hver einasti diskur á borðinu hefði komist í snertingu við rauðvín á einn eða annan hátt. Rauðvínslegnar andabringur, rauðvínssoðnar perur, rauðvínssósa, rauðlaukur soðin úr púrtvíni. Ég hefði bara þurft að hella smá slettu á kartöflurnar og salatið til að fullkomna myndina. Enda hef ég aldrei fyrr orðið full við að borða mat.
Pabba fynnst alltaf hálfgerð synd að horfa uppá okkur mömmu hella dýru víni í potta og á pönnur og grætur einu tári fyrir hvern desilítra sem ég og móðir gusum yfir matinn með okkar fullkomlega brenglaða verðmætaskyn. Hann kvartar samt aldrei meðan hann borðar, helvískur.

Síðan kom jólasnjórinn í gær. Ekki nóg með það heldur bætti Breiðholtið um betur með jóla þrumuveðri. Það hef ég aldrei upplifað áður en þótti mikið til koma.

Veriði svo dugleg að jólast þarna úti.

*hvað maður flokkar sem góð tónlist er náttúrulega fljótandi hugtak. Sumir innan veggja þessa heimilis vilja meina að 100 country classic hits sé góð tónlist. Því er ég ekki sammála.

föstudagur, desember 21, 2007

Í dag

er stuttasti dagur ársins. Samkvæmt Almannaki Þjóðvinafélagsins mun sólin ekki koma upp fyrren á morgun. Ég ætla að vera skynsamt spendýr og leggjast í vetrardvala í dag.
Eftir morgundaginn verður svo allt á uppleið aftur.

Annars ætlar sveitta lestrargengið að halda uppskeruhátíð í kvöld. Í síðasta partýi varð ég mér til skammar og hyggst endurtaka leikinn í kvöld. Fátt jafnast á við fíflagang í góðra vina hópi.
Námsmenn erlendis eru snúnir aftur og gær hitti ég tvo slíka. Ég get ekki beðið eftir að verða sjálf námsmaður erlendis á ný. Fá svona bláirerudalirþínirlandmittínorðrinu fíling þegar maður lendir með æslandexpress á Miðnesheiði. Fyllast stórborgarhroka gagnvart litlu Reykjavík og tönglast á því í sífellu hvað húsin hérna séu lágreist og bjórinn dýr.
Nei, annars, það er að rísa háhýsi á við tvær hallgrímskirkjur í Kópavogi. Nú er tíminn til að fyllast lotningu og hógværð. Ég ætla að fara með einhvern af þessum erlendu námsmönnum í skreppitúr uppí smára við tækifæri. Fá þau til að fallast á hné....

miðvikudagur, desember 19, 2007

Einu sinni...

Var ég 15 ára og fór í Eymundson í kringlunni með fyrsta bókalistann úr menntó. Þetta var áður en að bankarnir fóru að veiða unglinga í skuldafen. Einu áreitin tengd skólagöngu voru frá bókabúðunum (sem þá voru ennþá í samkeppni) sem vildu fá til sín kúnna. Ég man að ég fór í Eymundson vegna þess að þeir höfðu samið við nemendafélagið og gáfu mér dagbók. Á innsíðu dagbókarinnar voru tölulegar "staðreyndir" um menntaskólaárin.
Vissiru að...
55% prósent fólks segja menntaskólaárin bestu ár lífsins? Stóð meðal annars og ég held að aldrei áður hafi ég upplifað eins mikla pressu. Nú færu í hönd gullárin og það væri undir mér einni komið að standa mig. Annað tækifæri fengi ég ekki.
Ég eyddi menntaskólaárunum aðallega í unglingauppreisn. Ég datt inní frekar róttækan félagsskap sem hentaði mér ágætlega. Saman með nokkrum öðrum eyddi ég fjórum árum í að vera á móti öllu. Mest þó sjálfri mér, þó að ég segði engum frá því.

Ágætis target fyrir bitra unglingauppreisn voru fyrirbæri eins og jól.
Þegar ég var 17 ára skrifaði ég þetta á bloggið mitt, þegar ég var að hnýta í jólin. Þá sturluðu smáborgarahátíð neyslumenningarinnar sem mér fannst þau vera:
Sleppið jólatrénu, fáið ykkur jóla-katkus í staðinn. Fyrst að rjúpur eru friðaðar í ár, hvernig væri að hafa máf í matin, þeir eru svo sannarlega ekki friðaðir.

Mikið ofsalega er ég hamingjusöm að vera ekki 17 lengur.

Ég bið lesendur afsökunar á þeim mikla nostralgíuham sem bloggið mitt er í þessa daganna. Ég veit hreinlega ekki afhverju ég er svona upptekin af sjálfri mér. Þetta lagast líklega þegar ég skila af mér ritgerðinni og fer aftur að umgangast fólk.

Þú færð jólamáfinn í Hagkaupum. Vorum að fá úrvals sílamáfsbringur og reyktan silfurmáf. Veiðibjöllur á sérstöku tilboðsverði.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Myrkravirki.

Nátthrafnin Hafdís hefur misst af dagsbirtu sl.tvo daga. Ég setti reminder á síman minn þannig að á morgun mun hann bíba á mig og minna mig á dagsbirtuna. Þá ætla ég að setja ipodin á mig og fara í labbitúr. Líklega mun ég fjárfesta í jólagjöfum í leiðinni. Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað ég gef hverjum í ár, læt það ráðast á staðnum eins og venjulega. Með einni undantekningu þó. Karl faðir minn fær bókina Stalíngrad eftir Antony Beevor. Hin síðari ár hefur lestraráhugi föður míns verið að færast frá ævisögum einhverra kalla sem afrekuðu eitthvað sem mér er slétt sama um (t.d að vera íslenskur og fljúga orrustuvél í seinna stríði) yfir í sögubækur. Núverandi uppáhalds sögubók pabba gamla er bókin Ragnarrök-10 afdrifaríkustu orrystur mannkynssögunar eftir hjónabandsráðgjafann og pöpulistann sr.Þórhall Eitthvaðsson (ég held Heimisson)
Pabbi kann bókina nánast utanað og orðrétt. Bókin snertir of margar taugar í mér. Til að byrja með er hún kristin söguskýring, ég fíla það ekki. Hún er líka orðaklám, örsmáum atviksorðum og lýsingarorðum er lætt inn í texan hér og þar sem hlaða textan hinu hvíta, kristna og karllæga gildismati höfundar. Sr.Þórhallur er líka sem kalla má á plebbískan hátt "lipur og aðgengilegur penni" og á það til að klykkja út með aukasetingum á borð við....."og þannig gátu hermenn súltansins hrakið krossfarana brott frá hinni helgu borg, hvað svo sem okkur finnst nú um það."
Þetta fíla ég ekki heldur.
Í þriðja lagi vílar sr.Þórhallur sér ekki að túlka söguna (með gríðarstóru essi) sem línulega frásögn í gegnum þessar tíu orrystur sem hann velur sér. "Og við erum svona í dag, vegna þess að þetta gerðist". Hjúkket. Og guð sá að það var gott!
Ég nenni ekki að útlista þetta frekar.
Svona söguspeki er náttúrulega óþolandi að hafa yfir sér. Ég nenni ekki að þurfa að svara séra Þórhalli í gegnum pabba stundinni lengur. Nú veðja ég á Beevor. Ég gaf pabba hint um að ég hyggðist velta sr.Þórhalli úr sessi og hann lofaði mér að hann skyldi lesa bókina frá upphafi til enda. Ég vona að Beevor standist kröfur mínar um að vera nógu einfaldur, pennalipur og spennandi til að halda pabba við efnið. Ég vona ennfremur að við lesturinn muni einhver tannhjól fara að snúast í kolli pabba. Ég geri ekki kröfu um að hann sjái í gegnum sr.Þórhall, en ég vona að hann sjái einhvern mun á þessum tveimur.

Ef allt gengur að óskum verður pabbi búin að missa áhugan á Ragnarrökum sr.Þórhalls milli jóla og nýjárs og þá get ég laumað bókinni á einhverja af þrettándabrennunum.

Ég er náttúrulega hræðilegt barn að launa áhuga föðurmíns á faginu mínu með hótunum um bókabrennur.

mánudagur, desember 17, 2007

Bólur og Baugar

Þegar ég var unglingsgrey fékk ég aldrei bólur. Það þótti mér miður, því bólur voru fullorðins. Bólugrafinn áttundubekkingur var meira virði en sá sem var ennþá með slétta barnshúð og hvolpaspik. Ég gat á engan hátt tekið þátt í umræðum um bólufelara og aldlitskrem, enda vissi ég ekki munin á graftarbólu og fílapensli fyrr en ég var orðin 14.
Þeir allrasvölustu sem voru með ódáðahraun framan í sér fengu svo sterameðferð. Ég fékk bara freknur en þótti mikið til koma þegar bollukinnarnar hurfu þegar ég var 15 og fyrstu broshrukkurnar komu. Hrukkur eru nefnilega fullorðins og þá ég gat bætt upp fyrir bólu-missinn.

Í menntaskóla voru bólur orðanar að hversdagslegum leiðindum. Baugar komu í staðin sem tákn um þroska og fullorðins hátt. Í kring um bauga myndaðist svo dularfull stemming og hálfgerð mistík, vegna þess að sá sem er baugaður í kringum augun hefur ekki sofið. Á aldri þar sem allir sofa á nóttunni og vaka á daginn er vökunótt hlaðin óútskýranlegu seiðmagni.
Ég fékk aldrei bauga heldur. Hversu ósofin sem ég var. Á síðari árum menntaskólagöngu minnar, þegar vökunætur voru orðnar daglegt brauð, fannst mér ennþá hálf súrt að geta ekki fært hlutlæga sönnun fyrir þeim með tilheyrandi baugum.

Ég var tvítug þegar ég fékk mína fyrstu bauga og ég man það eins og það hafi gerst í gær. Ég var í sundi í Fredriksberg og þegar ég sá spegilmynd mína blasti við mér fjólublá litadýrð undir augum. Dökkir tónar við augnakrókin nær nefi en deyfist síðan eftir því sem fjær dregur.
Baugamistíkin klæðir mig ekki. Stelpur sem eru sætar með bauglegt heróín lúkk eru aðeins til í tímaritum sem eru prenntuð á glanspappír.

Í dag er ég með bauga sem rekja má beint til vinnutarnar, þrítugsafmælis og skammdegis. Þeir leggjast utan á baugana sem komu í prófatíðinni. Kannski að ég velji mér jóladress í stíl við bláu tónana framan í mér.

Þessi færsla er grótesk, en gróteska er víst eina stílformið sem stelpur ráða alminnilega við. Ég hvet alla sem lesa þetta til að taka undir og blogga um andlitið á sér.

Efnisorð:

sunnudagur, desember 16, 2007

Nei, við eigum sko engan Arnald. Allur Arnaldur er í útláni frá Grafarþögn og uppúr. Þú getur fengið að panta þessa nýjustu sko, en hún verður ekki laus fyrr en í mars. Farðu bara í lithimnu skannan þarna til hægri og þá munum við senda þér alla íslensku reyfarana þráðlaust.
Lesandi góður! Vissiru að flestir íslenskir glæpir eru framdir í hausunum á rithöfundum sem dreymir að slá í gegn í kilju?
Það er eitthvað svo hræðilega sikk við liðið sem kemur um hverja helgi og étur reyfara í tugatali. Einn fastakúnnin kom til mín um áðan.
Héddna...mig vantar eitthvað að lesa, geturu ráddlagt mér eittkað?
Já? hvað fynnst þér skemmtilegt að lesa?
Æi, þúst, glæpasögur, abuse og svoleiðis.
Ég var semi drukkin í vinnuni og spurði því: Já, þú fílar sem sé að lesa um misnotkunn?
já. án þess að sína nokkurn vott af skömm.
Ég benti henni á clock work orange og fór síðan uppí barnadeild. Blessuð börnin eru varla farin að hafa smekk fyrir misnotkunn strax.

Ég ætla samt að gefa sjálfri mér smá kredit. Ég er fjaskalega alúðlegur starfskraftur. Ég er náttúrulega fullkomlega metnaðarlaus, en ég hef voða þægilegt notendaviðmót, svona rétt eins og nýjasta útgáfan af Windows. Enda koma allir með sem eru að pukrast með jaðarlesefni til mín. Ég er búin að komast að því að í teiknimyndadeildinni leynast hinar svæsnustu sögur. Enda eru unglingarnir löngu hættir að stelast í bleikt & blátt en liggja yfir Hentai í staðin.
Ég hef lúmst gaman að því fara í uppröðunarleiðangur þegar ég veit af unglingshræðu útí horni að lesa japanskar dónasögur. Viðbrögðin láta ekki á sér standa. Besta trixið sem ég hef séð var bólugrafin stelpa sem var með risa ensælópídíu með sér sem hún breiddi yfir dónabókina þegar ég nálgaðist. Gef börnunum samt hugrekkis-prik ef þau þora að koma með lesefnið í afgreiðsluna og fá lánað. Þá set ég upp þægilega notendaviðmótið, lít ekki á titilinn heldur skanna inn með hraði og set í poka þannig að titilsíðan snúi niður. Síðan brosi ég og útlista skiladaginn.

Framundan er síðasta vika fyrir jól. Síðustu vikur hafa farið í próf, skrif og félagslega einangrun. Öll boðum um kaffihús, bíó, slúður ect verður núna tekið fagnandi. Þeir eru búinir að búa til ræmu úr einni af mínum uppáhaldsuppáhalds, His dark materials, fyrstu bókinni, Norðurljósin sem fékk víst nafnið Gyllti áttavitin. Mikið hlakka ég til að sjá útkomuna. Klókir lesendur geta séð að ég er að grátbiðja um að einhver nenni með mér í bíó. Ekki meira af óskýrum sjóræningjaupptökum eða dánlódi á litlum tölvuskjá. Nú langar mig í actual bíó.

fimmtudagur, desember 13, 2007

Úthverfaáhyggjur

Úthverfaáhyggjur gærdagsins voru: Mun grill nágrannans fjúka innum stofugluggann (eða einhvern annan glugga) í lægðinni sem kemur í nótt?

Ég lét gabba mig útí bullandi meðvirkni og tók heilshugar þátt í áhyggjukastinu. Þegar ég lagist til svefns var ég orðin samdauna þankagangnum og gat ekki sofnað. Um leið og ég heyrði minnsta hljóð fyrir utan gluggann átti ég helst von á að grill nágrannans kæmi á svífandi siglingu beint í hausinn á mér. Þessvegna er ég illa sofin í dag, með bauga niðrá höku og hausverk. Þegar ég kem heim ætla ég að spakra í þetta guðsvolaða grill sem rændi mig svefninum.

Jólaskapið lætur standa á sér. Í gær var næst síðasti dagurinn hjá litlu sund-dúllunum mínum, en ég var eins og snúið roð. Sagðist vera sí-tengd við jólasveinanna og hótaði kartöflum á báða bóga ef mér væri ekki hlýtt í hvívetna.
Farðu svo í kaf, annars segi ég Þvörusleiki frá því...!
Síðan níddist ég á samstarfskonu minni sem er 17 ára blóm sem ætlar í húsmæðraskólann á Hallormsstöðum.
Fúllyndiskastið er samt óðum að líða hjá. Bráðum verð ég aftur hvers mans hugljúfi.

sunnudagur, desember 09, 2007

Optical illusion

Ef þú starir á myndina rosalega lengi án þess að blikka augunum opnast hlið inn í áttundu víddina.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Stephen King kvað?

Um daginn fékk ég martröð. Ekki þessa venjulegu slæmu drauma þegar maður vaknar með tárin í augunum yfir látnum ástvini, eignartjóni, heilsutjóni ect, heldur alvöru martröð með sundurskornum líkum, keðjusögum og fleira í þeim dúr. Ég vaknaði í svitakófi við veinin í sjálfri mér og komst að því að ég hafði klórað mig til blóðs í svefni.

Og vitiði bara hvað, fólkens?
Ég var bara helvíti ánægð með næturbíóið! Ég fékk oft martraðir af þessari stærðargráðu þegar ég var krakki. Þar sem ég var svo mikið blóm þegar ég var barn og átti auk þess í stökustu vandræðum með að greina á milli raunveruleika og ímyndunar hræddist ég þessar martarðir meira en allt og þurfti ævinlega að skríða til fóta hjá foreldrum eða bróður ef mig dreymdi illa.
Núna er ég hins vegar orðin svo stór að ég get alveg fundið út uppá eigin spýtur að limlestingar og keðjusagir tilheyra ekki mínum raunveruleika.

Á meðan ég lá í rúminu og var að losa mig úr sængurverinu að loknum draumförum (Sængin var farin eitthvert útí buskan) fór ég að rifja upp drauminn og komst að því að undirmeðvitundin mín hefði farið á kostum. Bæði hvað varðar söguþráð og listræna framsetningu.

Sögusviðið var lítið og einangrað þorp í skosku hálöndunum. Þar var allaf þoka og rigning. Götur, þök og eiginlega bara flestir efnislegir hlutir voru mosagrónir. Mosinn var skærgrænn (eins og blautir mosar eiga að vera) og var því skemmtilegur kontrast við grámóskuna sem var allt um lykjandi. Hópur barna í þorpinu (aldur 5-10 ára) taka sig til og fara að slátra foreldrum sínum þegar engin sér til. (nema undirrituð) Aðferðir þeirra við slátrunina eru hinar frumlegustu og engin ástæða til að fara nánar útí það hér.
Þegar barnaslátraranir komast að því að ég viti af áhugamáli þeirra er mér boðin díll, ég haldi kjafti eða fari sömu leið. Bæjarbúar standa á öndini yfir morðöldunni sem gengur yfir bæinn, en að sjálfsögðu grunar engan blessuð börnin. Yðar einlæg reynir síðan með klækjum að spila með báðum liðum. Halda morðbörnunum grunlausum, en smygla foreldrum útúr svefnherbergjunum á nóttinni. Að sjálfsögðu kemst upp um mig á endanum og lokaatriðið er æsilegur eltingaleikur um fjölbýlishús sem virtist vera teiknað af Tim Burton.

Að sjálfsögðu fléttuðust inní þetta nokkrar hliðarsögur og skondin samtöl með one-linerum.
Þó að söguþráðurinn sé ekki sá allra frumlegasti kom þetta allt saman mjög vel út í draumi og mig hefur sjaldan dreymt svona eðlilega söguframvindu. Líklega er hausinn á mér að vinna gegn hræðilega leiðinlegu prófaskammdegi. Reyna að halda uppi einhverri spennu, úr því að hversdagsleikinn hefur brugðist. Húrra fyrir því.


Prófið í gær tók allan daginn. Þegar ég settist inn í stofuna á hádegi var sólin rétt að skríða uppá himinin og þegar ég fór út um fjögur leytið (lesblinduaumingjar fá lengdan próftíma) var hún að síga niður bak við sundin.
Prófið gekk ágætlega, ég beygði sagnir og nafnorð eins og ég hefði aldrei gert annað en gleymdi hinnsvegar hvorukynsendingum lýsingarorða.


ps. Sara, þú hafðir rétt fyrir þér. Hallgrímskirkja spilar Íslandögrumskorið á heilatímanum. Ég bara ætlaði ekki að trúa þessu fyrr en ég upplifði herlegheitin í fyrradag. Veðjuðum við uppá eitthvað mikið??

mánudagur, desember 03, 2007

Skeptíkus

Ég gruna alla sem bjóða mér í glas um græsku. Og ekki af ástæðulausu, því fríum drykk fylgir ætíð eitthvað agenda. Þetta er leiðinda tendens hjá mér og ég veit vel að það er óþarfi að setja upp snúð* í hvert skipti sem einhver slysast til að fara á barinn fyrir mig.
Í fyrradag fattaði ég afhverju. Pabbi, sem fynnst ofsa gaman að gefa mér í glas af og til, endar alla bjórana sem hann hellir fyir mig á heilræðavísum. Grípum inní samtal.

Faðir: Já, og Hafdís mín, það er sko vandlifað.....þú veist....alltaf eitthvað sem reynir að fanga hugan.....og svo er fólk svo gagnrýnislaust. ....en þú hefur nú alltaf hugsað rökrétt......æi, þú veist....hikk...
Dóttir Já?
Faðir: Það eru alltaf einhverjir sem vilja ráða því hvernig fólk hugsar...sjáðu bara alla þessa isma. þeir eru hættulegir og gera okkur ómensk. Þú hefur nú verið svolítið í....hikk....svona ismum. Þá sér í lagi einum.
Dóttir: Femínsima?
Faðir: (miður sín) já!

Síðan gerði ég nokkuð afar stórmennskulegt, sem ég held btw að hafi verið mikið þroskamerki. Ég stóð upp, kyssti pabba á skallann, bauð góða nótt og sagði honum að næst þegar hann biði í glas ætlaði ég að panta reykinga-ræðuna. Hugsjónir viku fyrir heimilisfriðnum. Enda er ég löngu búin að gefast upp á krossferðum sem byrja og enda við eldhúsborðið.


*Ég veit ekki hvort að það sé rétt að tala um að setja á sig snúð, en mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. Fyrir þá sem skilja ekki, þá er þetta afbökun á orðatiltækinu ,,að vera snúðugur". Í versta falli þá hef ég hér með smíðað nýyrði.