Var hann nokkuð hommi?
Senn lýkur lestri jólabóka. Einn krimmi, smásögur, ljóðasafn og hálft lærdómsrit. Allt saman voða ágætt, en enginn áþreifanlegur hápunktur. Náttborðslesningin, sem á eftir að duga mér langt fram á nýja árið, því ég er svo kvöldsvæf, er svo ævisaga Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Snert hörpu mína. Titilinn er ljóðlína úr einu frægasta kvæði Davíðs, Kvæðið um fuglana. Kvæði þetta var eitt uppáhaldslag mitt þegar ég var pínupons, en uppá síðkastið hef ég bara heyrt það við jarðarfarir og er þar af leiðandi í minna uppáhaldi núna fyrir vikið.
Höfundur bókarinnar sem ég hef aldrei heyrt um, hikar ekki við að titla Davíð Þjóðskáld í formála sem og á baksíðu. Mér finnst alltaf skondið þegar hinir og þessir fá forskeytið þjóð- fyrir framan starfsheitið sitt. Davíð hefur hingað til ekki verið titlaður þjóð eitt né neitt. Hins vegar efast fáir um að hann hafi verið gott skáld og rithöfundur. Ég vona að þessi nýfengni "þjóð" titill verði Davíði ekki til ama.
Ég efast ekki um að ævisaga Davíðs verði nákvæmlega eins og allar hinar ævisögurnar sem ég hef lesið. Það er nánast sama um hvern er skrifað, bækurnar eru undantekningalítið eins. Drengur fæðist. Drengur les mikið af hollum skáldskap hjá ömmu/afa, drengur fer í latínuskólan, drengur fer til kaupmannahafnar og fer að drekka vín og prófar að sofa hjá stelpu. Kaupmannahöfn er svo einskonar vendipunktur. Þaðan virðist lífið geta tekið tvær stefunur
a) drengur verður áfengissjúkur, lýkur aldrei neinu prófi og hengir sig/dettur niður stiga/ hoppar fram af Löngulínu, en verður öllum harmdauði
b) drengur lýkur prófum, snýr baka til Íslands og slær í gegn heima í héraði.
Æviferill Davíðs fellur vel að forminu og höfundurinn getur skrifað Davíð inní bók sem allir Íslendingar hafa lesið amk tvisvar sinnum, nema að einu leyti; (og hér þarf höfundur að fara eins og köttur í kringum heitan eld) Davíð giftist aldrei. Því er kaflin um fagra kvenkostinn, hamingjusama fjölskyldulífið og börnin sem fetuðu í fótspor pabba síns, (nema kannski einhver afbirgðilegur laukur, yfirleitt örverpið. En þá er það líka tekið fram að örverpið hafi strax frá fyrsta degi líkst móður sinni mikið) ekki með í bókinni.
Þá er auðvitað freistandi að spyrja afhverju. Þankagangur flestra er því miður þannig að þeir sem ekki kjósa að eignast fjölskyldu hljóti að vera samkynheigðir. Teprulegir íslenskir blaðamenn sem skrifa ævisögur fyrir jólin lenda iðulega í vandræðum þegar viðfangið þeirra (lífs eða liðið) fetar ekki alveg í fjölskyldunormið. Sérstaklega man ég eftir sögu Ingólfs Margeirssonar um Maríu Guðmundsdóttur fyrirsætu. Í seinni hluta bókarinnar var kafli sem hét hvorki meira né minna en; Greta Garbo og hin kosmíska ást. Ingólfur, sem venjulga skrifar læsilegan og léttan texta skipti skyndilega um stíl og sagan breyttist í framúrstefnuskáldskap um stund. Þegar Ingólfur snýr til baka með Maríu í næsta kafla flýtur frásögnin áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Íslenskir ævisagnaritarar ættu að taka Guðberg Bergson sér til fyrirmyndar þegar kemur að því að sigrast á plagandi siðferðiskenndinni. Nú eða hann þarna kúbanska rithöfund sem sagði frá því í afar nákvæmum lýsingum í sjálfsævisögu sinni hverning hann og félagar hans borðuðu holur í tré og vantsmelónur áður en þeim hugkvæmdist að draga geiturnar afsíðis.
Nú veit ég ekkert um hvort að Davíð frá Fagraskógi hafi hneigst til karla eða kvenna og mér er í raun nokk sama. Mér finnst "hommun" á liðum persónum afar hvimleið. Stundum er hún gjörsamlega útí hött (Snorri Sturluson var hommi sagði einhver Norðmaður sem læði norrænu við mig einu sinni) Stundum á hún rétt á sér (Leonardo DaVinci var jú handtekkin fyrir ókristilega hegðun með öðrum karlmönnum), oftast eru þessar pælingar yfirleitt gagnslausar í víðara samhengi. Stundum víkja þó ævisagnaritarar eilítið að þessum málum og þá yfirleitt undir rós
Eitt fyndnasta dæmið um þetta var í ævisögu Árna Magnússonar. Árni giftist vissulega, en kvonfangið hans var einhver uppþornuð ekkja sem var alltof mörgum árum eldri en hann. Þau sváfu víst aldrei saman svo vitað sé til. Í loka kaflanum um Árna, þegar sagt er frá dauða hans og eptirmælum er einkalíf hans (sem nánast ekkert var talað um í bókinni) reifað í nokkrum orðum þannig að ástríða Árna á mölétnum skinnhandritum hafi verið fjölskyldulífinu ofar. Sem er líklega alveg rétt. Á næstu síðu eru svo höfð eftir einhver eftirmæli vinar hans sem segir eitthvað á þá leið að í augum Árna hafi ætíð verið einhver djúp sorg og þrá eftir einhverju sem aldrei varð. Þá flissaði ég.
Ég er ekki komin mjög langt með skáldið frá Fagaraskógi, en ég hlakka mikið til að sjá hvernig farið verður með einkalíf hans. Varla fer ævisagnahöfundur Davíðs að segja að Þjóðskáldið hafi verið hommi?
ps: Þessi langloka er í boði Bókasafns Kópavogs þar sem sem engir gestir hafa látið sjá sig enn þó að safnið hafi opnað fyrir meira en klukkutíma síðan . Hin stelpan sem vinnur með mér er í Bubbles...