Tvö sýnishorn úr lífi mínu.1. Ég ætla að brjóta gegn betri vitund (eins og ó svo oft áður) og segja ykkur öllum að fara í gyllta köttinn á últra útsölu. 3x kjólar, 2x lopahúfur og 2x yfirhafnir á 6.000 krónur. Held að þetta séu bestu kaup sem ég hefi gert á Íslandi. Maður þarf að fara til þriðja heimsins til að versla á svona verði.
2. Ég sit uppá safni og er pínu ósofin, pínu þunn og umhverfið er pínu úr fókus. Fjölskyldufólkið með helgarpabbana fremsta í flokki kemur yfirleitt á laugardögum, en í dag er sunnudagur og þá koma eldra fólkið, alþýðufræðimennirnir og skúffuskáldin. Yfirleitt fíla ég síðarnefnda hópinn betur, þau eru rólegri, smekkvísari, þolinmóðari og umfram allt hlaupa þau ekki um öskrandi og tæta síður úr kjölum.
Hinsvegar þarf oft á tíðum að hafa helling fyrir sunnudagskúnnahópnum. Þau eru kröfuhörð og vilja að bókaverðirnir stjani við þau. Yfirleitt nýt ég mín ágætlega í því hlutverki enda gefst mér þá tækifæri til að besservisserast svolítið þannig að lítið beri á og enginn sjái til.
Hinsvegar eru sunnudagskúnnarnir náttúrulega oft á tíðum furðufuglar upp til hópa. Ég tel mig vera ágætlega sjóaða í furðufuglum og kalla sko ekki allt Nönnu mína; Moggabloggari að leita að inspírasjón, taugaveiklaður og örlítið tipsí tónlistakennari sem dýrkar sönglög Gylfa Þ.Gíslasonar og að ég tali nú ekki um gömlukonuna sem kemur nánast hvern einasta sunnudag, biður um Lögfræðingatal M til S blaðar í því nokkra stund og fer svo.
Stundum keyrir samt um þverbak og það gerðist áðan. Inn kom par á óræðum aldri, líklega eitthvað um fimmtugt. Þau voru að leita af hinu og þessu og það kom í minn hlut að leiða þau um safnið. Þau virtust ekki hafa neinn skilning á því sem kallast persónulegt rými (Lebensraum) í samskiptum. Ekki nóg með að þau þverbrutu eðlilegar fjarlægðarreglur, þá voru þau líka bæði rangeygð. Hann horfði á vinstri öxlina á mér en hún á ennið meðan þau útlistuðu bókasafnsþarfir sínar. Á sama tíma stóðu þau svo nálægt mér að það tók að þykkna upp á gleraugunum mínum og ég varð að pússa móðuna af þegar þau loksins snéru sér frá mér til að blaða í bók.
Rúsínan í pylsuendanum var samt hin megna ólykt sem fylgdi þeim. Þá er ég ekki að tala um venjulegan mannaþef sem kemur í mis sterkum og mis góðum útgáfum, heldur þrúgandi stækju sem var eins og hjúpur í kringum þau. Ég hef aldrei fundið svona lykt af mannfólki áður, en svona fnyk tengi ég einna helst við hestús, eða hluti sem hafa verið lengi í hesthúsum. Samt var þetta ekki hestalykt, því hestalykt kemur af lifandi verum og er að einhverju leyti fersk. Þessi fnykur var sko allt annað en ferskur og ég átti bágt með að trúa að hann kæmi af lifandi fólki.
Mér var fljótlega óglatt í nærveru skötuhjúanna og ég fann hvernig maginn var að snúast á hvolf og innihaldið að leita uppá við. Á tímabili velti ég meiraaðsegja fyrir mér að gerast rosalegur pönkari og æla á gólfið fyrir framan parið. Mér þykir samt of vænt um starfið mitt til að láta reyna á þolmörk vinnuveitenda minna, þannig að ég lét það vera.
Ég verð hinsvegar til að enda þessa hversdagssögu á hörðum nótum. Mér bárust frekar slæm tíðindi til eyrna um daginn og því neyðist ég til að sýna klærnar og segja:
ÖLL SKRIF SEM BIRTAST Á ÞESSARI SÍÐU ERU EIGN HÖFUNDAR OG ENGRA ANNARRA. ÉG ÁSKIL MÉR ÖLL RÉTTINDI OG ENGUM LEYFIST AÐ VITNA Í ÞESSI SKRIF, EÐA BIRTA KAFLA NEMA MEÐ LEYFI HÖFUNDAR.
Yfirleitt tek ég höfundarétt ekkert of hátíðlega (líka minn eiginn) en þessi netskrif eru hálfgerð dagbók og hana vil ég eiga alveg sjálf. Virða þetta, bitte schön.