Eins og kjuklingur a teini....

Hafdís grillast i ofni, við vægan hita

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Heitasti dagur sumarsins
var í fyrradag, síðan kom ennþá heitari gærdagurinn og þá fór allt í bál og brand. Þjóðin gekk af göflunum. Hver einasti rúmmetri í sundlaugum var fylltur af holdi, ísvélar bræddu úr sér og vinnustaðir lokuðu. Síðan datt landinn ærlega í það. Austurvöllur var eins og Herjólfsdalur um verslunnarmannahelgi. Allavega mætti mér megn bjórstybba um leið og ég gekk inn Pósthússtrætið og í fjarska mátti heyra Nínu spilaða á gítar. Síðar um kvöldið hélt gleðskapurinn áfram í Hljómskálagarðinum þar sem sundurleitur (en frekar fjölmennur) hópur ungmenna safnaðist saman, drakk, spilaði á bongótrommur og létu eins og þau væru á ofskynjunarlyfjum. Uppúr miðnætti fór að skyggja og gamanið kárnaði. Sumir urðu ofurölvi og ráfuðu um miðbæinn, aðrir höfðu einfaldlega ofkeyrt sig og látu óvígir undir sæng með sólbruna, vökvaskort og timburmenn á leiðinni. Það mætti segja að það hafi verið karnival stemning niðrí bæ í gær en mér fannst hún eiginlega bara frekar tribal. Það var allavega eitthvað afar frumstætt sem réði ferðinni. Án þess þó að ég geri lítið úr því, verandi hálfgerður hellisbúi sjálf.

Persónulega er ég skilgetið afkvæmi íslensks veðurs og koðna niður í of miklum hita (20+). Minn kjörhiti er 10-15 gráður, fari hitastigið yfir það fara frumur og vefir að deyja og blóðið í mér þykknar. Mér finnst samt sem áður sumarið vera yndisleg árstíð, en samt sem áður get ég ekki fyrir mitt litla líf tekið þátt í manískri hegðun landsmanna í hvert skipti sem hitamælirinn skríður upp fyrir tuttugu gráðurnar. Hjarðeðli höfðar ekki til mín. Ég viðurkenni fúslega að veðurfar hafi áhrif á skapgerð mína, en ég læt veðrið hins vegar ekki raska mínu óhagganlega jafnaðargeði.
Verandi sá þverhaus sem ég er, ákvað ég að njóta næturinnar í stað dagsins. Nú er nefnilega aftur farið að rökkva á kvöldin og frábært að geta setið úti í húminu á sandalabol og ermalausum skóm. Burt með klisjuna um bjartar íslenskar sumarnætur og alla þá vellu sem fylgir þeim í ljóðum og textum. Svartar íslenskar sumarnætur eru nýja trendið. Allavega ef þær halda áfram að vera svona hlýjar. Black is the new black.

Til að vega upp á móti ljóðrænunni í þessari færslu ætla ég að tilkynna lesendum að ég var stungin í rassinn af geitungi í dag. Það vildi svo til að ég ætlaði í sakleysi mínu að setjast á grasbala, en vissi ekki að geitungur einn hefði fengið sömu hugmynd og sest þar á undan mér. Hann launaði mér lambið gráa með því að stinga mig í afturendann. Ég mun sitja með fætur krossaðar til hægri þar til að vinstri rasskinn kemst í eðlilegt horf.

mánudagur, júlí 28, 2008

Sunnudagsbíó

Það er fátt betra en að þynnkubíó á sunnudögum. Þegar ég vaknaði á sunnudaginn, með hausverk, óbragð í munninum og glimmer í hárinu vissi ég að ég ætlaði að eyða deginum í vídjógláp. Í töskunni minni fann ég Ingimar Bergmann mynd en eftir smá umhugsun ákvað ég að listræn meistaraverk væru ekki það sem ég væri að leita að. Ég væri meira að leita eftir ólistrænum, klisjukendum B-myndum með blóði og byssum.

Þynnkubíóið var haldið í lókal bíósalnum hérna uppí Breiðholti. Eins og venjan er þegar hópur af fólki ætla að ákveða bíómynd, var enginn sammála. Galdurinn er að gagga sem allra hæst þannig að það sé mark tekið á þér á endanum. Venjulega nenni ég ekki að taka þátt í nöldurkórnum, en í gær beitti ég öllum mínum klókindum til að koma mínum sjónarmiðum að. Og á endanum gerðist sá fáheyrði viðburður að kröfum mínum var mætt til fullnustu. Stórslysamyndin Doomsday varð fyrir valinu og ég veinaði af kátínu á meðan ræman leið hjá á hvítatjaldinu. Þetta er ein allra besta vonda B-mynd sem ég hef séð. Ósmekklegheitin í Dúmsdei felast annarsvegar í óþarflega miklu gori*, þar sem dýr koma sérstakelga við sögu. Gorið er líka asnsi hávært og það er greinilegt að gor meistari myndarinnar hefur lagt mikið í hljóðvinsluna. Allavega er ég viss um að kanínur splattist ekki með svona miklum elegans og bravúr eins og í Dúmsdei. Krassandi gorhljóðin voru ennþá að koma útúr hátölurunum á meðan kanían var löngu komin í splatt. Tilgangurinn með kanínusplattinu fyrir söguþráðinn var eiginlega enginn.

Hin ósmekklegheitin í Dúmsdei færðu myndina yfir á æðra stig. Þ.e hún er eitt mesta overkill sem ég hef séð. Útrýming mannkyns, spillt stjórnvöld sem plotta við hingborð úr gleri í stórum turni á meðan alþýðan berst uppá banaspjót,BDSM, stórhættulegur ólæknanlegur vírus, cyper pönkarar, miðaldariddarar, hi-tech framtíðarvopn, one lænerar, mannát og eineygð kvennhetja. Allt í einni mynd. Yfirdrifnari sögu er vart hægt að ímynda sér. Að endingu mætti nefna að allt havaríið flaut svo framhjá undir ofurdramatískri óperutónlist. Mæli fáránlega mikið með dúmsdei fyrir unnendur lélegra mynda.

*við horfðum á unrated version. Eitthvað segir mér að atriði eins og kanínusplattið hafi verið klippt burt í útgáfuna sem sýnd var í kvikmyndahúsum.

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Mér er hlátur í hug

Ég er búin að sitja sveitt við skriftir uppá síðkastið. BA ritgerð, viðtöl, pistlar, yfirlestur greina og fleira. Í gær setti ég persónulegt met og starði á tölvuskjá samfellt í 15 tíma. Mig dreymir um að geta grætt internetið og einfalt ritvinluforrit inní heilabörkin á mér svo ég gæti hreyft mig aðeins um set. Í einverunni og innilokuninni hef ég drabbast niður. Akkúrat núna er ég í ljósbláum baðslopp með brunagati, sitthvorum sokknum, skítugum undirkjól, með úfið hár og kámug gleraugu. Ekki glæsileg sjón get ég sagt ykkur. Til að brjóta upp daginn leyfi ég mér að horfa á jútjúb eftir hver 1000 skrifuð /yfirlesin orð. Þá horfi ég yfirleitt á eitthvað til að lyfta upp andanum eins og til dæmis japönsk game show.

Mæli með þessu vídjói. Horfið á til enda.Annað góður skets (sem er samt ekki á jútjúb) var þegar þáttastjórnendur sendu emúa inná á almenningsklósett.

mánudagur, júlí 21, 2008

Hunangsflugur og stuðlaberg.

Ég fór að skoða uppdrætti af nýja tónlistarhúsinu við höfnina um daginn. Við Lækjatorg er komin þessi líka sallafína gestastofa sem ég hvet fólk til að heimsækja. Þar er hægt að skoða uppdrætti, þrívíddarlíkön og ég veit ekki hvað og hvað. Allt sett upp á sem aðgengilegastan hátt fyrir svona plebba eins og mig sem vita ekkert um arkitetkúr, rými og hljómburð. Tónlistarhúsið er risaframkvæmd á reykvískan mælikvarða og því er (vonandi) vandað til verksins. Súperstirnið Ólafur Elíasson er trompið að þessu sinni og hann á heiðurinn á klæðningunni sem verður utan um húsið, en hún verður úr gleri sem er skorið í sexstrendinga og raðað upp.

Mér fannst glerhjúpurinn minna mig á býkúpu. Fyrirmyndin var auðvitað stuðlaberg. Nema hvað.

Legg málið í dóm lesendaHér sjáum við stuðlaberg
og hér er hunangsframleiðsla
tónlistarhúsið.
Dæmi hver fyrir sig.

sunnudagur, júlí 20, 2008

Fussumsvei

Sum tækifæri eru bara of góð til að sleppa þeim. Um helgina sat ég í stofu ásamt drengjahópi sem var í þann mund að finna sannleikan ofan í rauðvínsflösku númer þrjú. Réttlætið, heimspekinn og sannleikurinn runnu saman í eitt og hugmyndafræðin svo kristaltær að hún gat tæklað hvaða aðstæður sem var, spurðu bara. Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs má leysa bara ef þið hlustið á okkur, ég veit hvað Hitler var að spá og ég held að Múgabe sé eins og hann.
Ég ranghvolfdi í mér augunum. Síðan barst talið að helförinni.
(Hún var sko svakaleg, krakkar!)
Þá var komin tími á að yfirgefa pólitískt rétthugsandi en jafnfram hrútleiðinlegt (og vitlausa) partýið.
Verandi sú dama sem ég er ákvað ég að kveðja með stæl.
,,Æi, strákar, Gyðingar eru gráðugir og hortugir og ég held að þeir hafi kallað þetta yfir sig sjálfir" Sagði ég með minni allra saklausustu rödd og ég held þeir hafi gleypt agnið. Það var allavega þögn meðan ég tróðst út.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Tvö tjikkflikk

Ég og móðir erum komnar í góða bíó rútínu sem líka má flokka sem gæða samverustundir. (eitthvað sem lífstílsspekingarnir segja að sé á undanhaldi í hraða nútímasamfélagins wottever) Nýja hobbíið okkar mömmu er að sjá tjikkflikk blokkböstera í bíó. Sáum Beðmál í borginni fyrr í sumar og Mamma mia í gær. Svei mér þá ef tjikk flikk kvikmyndaformið komst ekki bara nokkuð nálægt fullkomnum með Mamma mia. Að sjálfsögðu er allt fyrirsjánlegt, öll samtöl og frekar stöðluð og enginn karakter hegaðar sér út fyrir hið fyrirfram samþykkta form Hollywood tjikkflikksins, en engu að síður hittir myndin í mark. Samt sem áður er ekki langt síðan að ég sat í djúpum sófa, hlustaði á Kinks á vínil og rabbaði við vinkonu kvartettinn um hvað ABBA væri steindauð hljómsveit.
Fyrir ykkur sem eruð á leiðinni á Mamma mia vara ég samt við byrjuninni á myndinni. Samfelldur aulahrollur hríslaðist niður bakið á mér fyrstu tíu mínúturnar.

Beðmálin voru verr heppnuð að mínu mati. Kannaski er kreppan búin að skjóta rótum í hjartanu á mér, en þessi endalausi lúxus lífstíll, með 400 dollara skóm, personal assistance og einkabílstjórum ásamt frekar útvötunðu kynlífsdjóki um brasilískt vax var ekki að slá á eina strengi.

Hvað skyldi vera næsta tjikkflikk í bíó? (ath, ég geri greinarmun á tjikkflikk og rómantískri gamanmynd)

Annars hafa síðustu dagar ekki verið mínir allra bestu. Ég er óskaplega fegin að næsta vika kemur aldrei aftur.

sunnudagur, júlí 13, 2008

Ekki er öll vitleysan eins


Hi Hafdis.

I´m a regular reader of IcelandReview.com and I really love your daily life columns. You have good sense for how to tell little day-to-day stories with humor, irony but yet touch of sweetness. Your take on whaling, protecting the environment and abortions have also been enlightening but still with your style of personal writing.

I was going to ask you a favor.. :) I look at the Visir.is website every so often
and i found a section "einkamál" . I am assuming it is the dating section!

I found this article for this young lady ( and i am 23 myself by the way...). Could
you please ouitline what she is saying about her self for me? I can read some of

it.. but i am still learning icelandic at the moment.

Regards,

Christian


:
Kvenkyns
Aldur:
23 ára
Landshluti:
Vesturland
Kynhneigð:
Gagnkynheigð(ur)
Hæð:
172
Þyngd:
95
Augnlitur:
Blá
Hárlitur:
Brúnt
Flokkur: Stefnumót, Vinátta / Spjall

Hvað get ég sagt.

Ég á mér ansi fjölbreyttan lífstíl og elska alla musmunandi hluta hans. Sem stendur
er ég að vinna í hestunum mínum eftir að hafa búið erlendis í ár og stundað sum
áhugamál mín þar að krafti ásamt því að hafa verið að vinna á ferðaskrifstofu.

Draumurinn er að ferðast meira og sjá meira en það er í áætlun eftir þrjú ár hjá mér
að ferðast um norður og suður Ameríku, getum orðað það þannig að ég hef enn ekki
fundið neitt sem getur fest mig vel á sama staðinn!

Áhugamál mín eru ansi fjölbreytt en svona sem mest ber á er það að ég elska að vinna
með hestana mína og bara vinna í sveitinni, þar fyrir utan skrifa ég mikið og les.
Ég viðurkenni einnig að ég elska spennu og hryllingsmyndir, eiginlega bara flest sem
fær hjartað til að slá aðeins hraðar.

Annars er ég sæmilega kaldhæðin, á það til að vera stríðin og mér finnst gaman að
því að vera í kringum fólk sem er pínu skrýtið og bara sannt sjálfu sér!

Annars, ef það er eitthvað sérstakt sem þig langar að vita, endilega spurðu.

V.

----

Ég varð pínu upp með mér, þar til að ég áttaði mig á að hann væri bara að smjaðra fyrir mér svo ég myndi þýða fyrir hann. Nú hef ég nokkra möguleika.
1. Hundsa þetta
2. Þýða, maður á ekki að standa í vegi fyrir ástinni, er það?
3. Þýða bandvitlaust, því ég er óféti.
4. Þýða með smá brenglunum hér og þar, því það væri svo fyndið (fyrir mig).

Annars lítst mér bara ansi vel á þessa stelpu fyrir hann Christian. Sveitastelpa með fjarlæga drauma, er það ekki alltaf voða kósý? Að vísu er hún aðeins í þyngri kanntinum, en það er líklega kjarnafæðinu í sveitinni að kenna. Það varð nefnilega offitu sprenging í sveitum landsins þegar ruslfæðið og sykurátið lagðist ofan á sveitamatinn. Ég er vissum að það rennur af henni hið fyrsta.

Sem betur fer aulaðist ég til að safna saman allri ir.com vitleysunni sem hefur streymt til mín síðan ég byrjaði að dálkast hjá þeim. Ég mun orna mér við þetta þegar fram líða stundir.

fimmtudagur, júlí 10, 2008

Deadlænar eru eins og kabbamein. Sérstaklega þeir dedlænar sem maður þarf að standa við. Lauk við þrjár greinar á einum sólahring og mér líður eins og ég hafi afrekarð eitthvað ofsalega merkilegt.

Sem er náttúrulega bull, því það hefði verið minnsta málið að klára þetta fyrir löngu, ég bara gerði það ekki. Stundum er mér mjög uppsigað við eigin vinnubrögð. Til að fagna sigrinum á sjálfri mér ákvað ég að snúa aftur sigri hrósandi til hins daglega lífs og tek nú fagnandi á móti boðum í hverskyns skemmtilegheit.

Svo er ég líka búin að ná 100% árangri í að nota gaffal rétt. Það þýðir þó ekki að ég sé fullkomlega útlærð í borðsiðum því nú hefur líka komið uppúr dúrnum að ég held á honum eins og hamri eða öðru þungarvigarverkfæri, þ.e kreppi alla lúkuna utanum hann í stað þess að tylla honum milli fingranna líkt og um penna að annað fínlegra tól væri að ræða. Ég er sem sé mum meiri barbari en ég hélt að ég væri. Ég væri líklega best geymd í helli uppá fjöllum.

Óperusöngvarinn og snyrtipinninn Bergþór Pálsson heldur reglulega námskeið í borsiðum fyrir almúgan og ég óska hér með eftir einu slíku.

þriðjudagur, júlí 08, 2008

Engin andskotans krútt hér!

Nú var ég ánægð með Lesbókina. Flateyjar-Freyr og ofsóknir við Eystrasaltið. Þveröfugt og þrælskemmtielgt, enda sagnfræðingar á ferð. Þægileg tilhugsun að menningarinnslag dagblaðanna nái stundum út fyrir suðupottinn 101 Reykjavík þar sem flestir lyfta glösum í sama takti og hugsa í kór. Skrifa síðan lærðar greinar um reynslu sína af sjálfum sér. Ullabjakk.

Annars er ég orðin heimavinnandi húsmóðir. Fyrstu dagarnir voru frekar ópródöktívir þar sem að ávanabindandi síður eins og jútjúb áttu það til að taka frá mér meiri tíma en ég vildi viðurkenna. Eftir að ég gekkst við vandamálinu fékk ég mér net-nanny sem passar uppá hegðun mína á netinu. Ég sagði henni að banna mér að fara á jútjúb og við það hefur hún staðið. Get svo sannarlega mælt með þessari umhyggjusömu barnfóstru við alla sem eiga við einbeitingarleysi og athyglisbrest að stríða. Í staðin þarf ég að glíma við foreldra í sumarfríi sem eru óþreytandi við að stinga uppá einhverju skemmtilegu sem ég get ekki leyft mér að gera. Mér dettur samt ekki í hug að kvarta þegar móðir færir mér appelsínudjús og þurrkaðar ferskur af og til. Ég ætla að njóta þess að vera einkabarn sem býr heima hjá sér eins lengi og ég get, því ég veit að niðurtalningin er hafin.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Jæks!!!

Mér hefur borist til eyrna að ég sé víst að bombarda fólk með vírusum. Líklega í gegnum msn. Ef þið hafið fengið einhver dularfull skilaboð frá mér, vinsamlegast látið mig vita svo ég geti reynt að rekja slóðina. Ég er með góða vírusvörn sem hefur dugað vel til þessa og samkvæmt statusnum á henni þrífst ekkert óhreint í tölvunni minni. Ég er óttarlega vanmáttug gagnvart nútímatækni en sem betur fer á ég tölvulæsa vini sem ég get hallað mér upp að í neyð. Síðast þegar ég dreifði vírusum var það í gegnum háskóla netið, en þá tókst tölvunni minni að sýkja 666 (já, akkúrat þessi tala) aðrar tölvur á innan við klukkutíma. Sem betur fer er hásklólanetið ekkert anarkí og er vel vaktað af RHÍ sem henti mér út af netinu med det samme. Biðst fyrirfram afsökunar á þeim vandræðum sem msn tengsl við mig gætu skapað. Ekki opna linka eða póst með furðulegum header frá mér.
---

Annars var ég að koma úr vel heppnaðri fjallaferð. Sá nokkrar fuglategundir, ísbirni og spilaði póker í Þórsmörk. Brann á öxlunum og er töluvert doppóttari í framan en fyrir helgi.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Lesbókarbörnin halda áfram að skilgreina sjálfa sig á síðum Moggans. Nýja orðið á götunni er ,,síð krútt". Nú er sem sé ekki nóg að vera krútt, þú getur líka verið síð krútt. (post-cute) Björk og Sigrún Eðvalds eru víst prototype krútt, en við sem munum betur eftir Sigurrós og Múm erum síðkrútt. Að venju set ég upp skeifu þegar þetta málefni ber á góma og breytist í þverhausinn sem ég er. And-krútt myndu moggabörnin kalla það.

Annars er þýska fánanum flaggað á hvolfi fyrir utan Geysis húsið í kvosinni í dag. Það fannst mér mjög skemmtilegt. Sem sumarstarfsmaður í óteljandi störfum veit ég af reynslu að sumarstarfsmenn hefja sumrið með að klúðra öllu sem mögulega er hægt að klúðra. Ég sé fyrir mér hnípinn framhaldsskólanema sem vinnur í sumarafleysingum á Tourist information leita í örvæntingu af leiðbeiningum um hvernig fánar eigi að snúa, en ákveða svo að láta hendingu ráða úr því að hann fann engar.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Andvökur

Í nótt gat ég ekki sofnað eins og svo oft áður. Um þrjúleytið tóku síðan augnalokin að þyngjast og ég greip í náttborðsbókina og fór að lesa. Bókin er einskonar sjálfsævisaga Kurt Vonnerguts og ég mæli með henni. Í einum kaflanum fór hann að tala um bandaríska sósíalista á fyrrihluta tuttugustu aldar. Ég er mjög hrifin af bandarískum sósíalistum vegna þess að þeim er ekki ætlað að vera til. Ég man alltaf eftir málsgrein í samfélagsfræðibók sem var lesin í tíundabekk. Þar var klausa sem hljómaði eitthvað á þessa leið: ,,Vinstri stefna og sósíalismi hafa aldrei náð að skjóta föstum rótum meðal fólks í Bandaríkjunum. [...] Bandaríkin eru eitt ríkasta land í heimi og bandaríska hagkerfið er það stæsta í heimi."
Allavega, klausan um sósíalistanna minnti mig á bók sem ég hafði áður lesið. Hún var gefin út rétt eftir aldamótin 1900 í Bandaríkjunum og var sósíalískur áróður út í gegn. Samt sem áður sló hún í gegn meðal almennings og var jafnframt þýdd á íslensku um 1905 af útgáfufélagi á Stokkseyri sem hét því hógværa nafni Fjelag eitt. Þýðingin var samt ein sú allra versta sem ég hef lesið og er vel þess virði að lesa með því hugarfari. En nú stóð hnífurinn í kúnni. Hvernig sem ég reyndi að grúska í kollinum á mér gat ég ekki munað hvað bókin hét, né höfundurinn eða þá íslenska þýðingin. Ég lá í rúminu og reyndi að fletta í gegnum alla titla og höfunda sem mögulega gætu passað við bókina en allt kom fyrir ekki. Eðlilegast hefði verið að snúa sér á hina hliðina, gleyma þessu og fara að sofa eða í versta falli lofa sjálfum sér að komast að þessu á morgun. En fyrst að það var búin að kvekja á þráhyggjunni velti ég mér fram úr, trítlaði í tölvuna og fletti í gegni. Bókin hét The Jungle og er eftir Upton Sinclair. Á íslensku fékk hún hið stórglæsilega nafn Á refilstigum. Ég fann hvernig heiladingullinn losaði um stóran skamt af endófíni þegar ég var búin að fá botn í málið. Í gleðivímunni fór ég samt að velta fyrir mér hvort ég hefði farið yfirum hefði væri ég ekki svo heppin að búa á sí nettengdu heimili. Þegar ég var svo aftur komin uppí rúm og farin að hjúfra mig niður fór ég að velta því upp hvort að þetta ótakmarkaða aðgengi að upplýsingum myndi ekki gera útaf við komandi kynslóðir. Ég náði ekki að klára þann þankagang því skyndilega var mjálmað fyrir utan gluggann. Læðan sem heldur að hún eigi heima hjá okkur var komin í kvöldheimsókn og linnti ekki látunum fyrr en hún fékk að koma inn í þvottahús og lét mig klóra sér á maganum. Eftir að ég henti kettinum út gat ég loksins sofnað. Mjúkir ferfætlingar eru náttúrulega lausnin á öllum heimsins vandræðum þegar öllu er á botninn hvolft.